| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Fyrsti heimaleikur tímabilsins er í kvöld þegar Crystal Palace koma í heimsókn. Leikurinn hefst klukkan 19:00.

Biðin hefur verið óþægilega löng eftir fyrsta heimaleiknum og eftir að hafa horft á öll liðin spila um helgina getum við nú loksins sest niður og notið þess að horfa á okkar lið á heimavelli. Jürgen Klopp fór yfir stöðuna á liðinu á föstudaginn var og þar var auðvitað horft mikið á meiðslalistann, sem er leiðinlega langur. Bæði lið vilja bæta upp fyrir frekar slaka niðurstöðu úr fyrsta leik deildarinnar en eins og allir vita náðu okkar menn aðeins jafntefli á útivelli gegn Fulham á meðan Palace töpuðu heima fyrir Arsenal. Einverjir myndu segja að það sé strax komin smá pressa á leikmenn Liverpool en við skulum nú ekki taka svo djúpt í árinni eftir einn leik. Engu að síður er ljóst að allir búast við sigri í kvöld sem setur meiri pressu á liðið.

Naby Keita snýr aftur í hópinn eftir veikindi enda veitir ekki af þar sem miðjan er fáliðuð og þeir Thiago, Curtis Jones og Alex Oxlade-Chamberlain allir meiddir. Kostas Tsimikas gæti sömuleiðis verið tilbúinn á ný en vonir stóðu til þess að hann myndi hefja æfingar á föstudaginn. Restin af meiðslalistanum er svo skipuð þeim Ibrahima Konaté, Diogo Jota, Calvin Ramsay og Caoimhin Kelleher. Eitthvað hefur reyndar kvisast út um helgina að Joel Matip sé lítillega meiddur sem er auðvitað ekki gott en þá hlýtur Joe Gomez að geta stigið upp og byrjað. Hjá gestunum er lítið vesen en þeir Nathan Ferguson, James McArthur og James Tomkins eru frá en Michael Olise snýr líklega aftur í hópinn eftir meiðsli.

Vangaveltur hafa verið um það hvernig byrjunarliðið verður skipað í þessum leik og þá aðallega hvort að Darwin Núnez byrji á kostnað Roberto Firmino. Sá síðarnefndi spilaði ekkert sérstaklega vel í fyrsta leik gegn Fulham en honum til varnar þá var allt liðið lengi í gang og spilamennskan léleg. En með innkomu Núnez blésu ferskir vindar og hann var fljótur að koma sér í færi, skoraði skömmu síðar og lagði svo upp jöfnunarmarkið sem Salah skoraði. Við tippum á að hann byrji og Firmino fari á bekkinn. Einnig tippum við á að Harvey Elliott komi inná miðjuna í stað Thiago og að Gomez spili svo að Matip nái sér 100% góðum fyrir næstu vikur, liðið verður því þannig skipað: Alisson í markinu, bakverðir Alexander-Arnold og Robertson, miðverðir van Dijk og Gomez. Fyrirliðinn Henderson verður á miðjunni ásamt Fabinho og áðurnefndum Elliott, fremstu þrír svo Luis Díaz, Darwin og Salah.

Liðin hafa spilað 13 leiki á Anfield í sögu úrvalsdeildarinnar og þar hafa okkar menn unnið níu sigra, Palace eru með þrjá og aðeins einn leikur endað jafn (markalaust í desember árið 1994). Þessir þrír sigurleikir Palace komu allir í röð, maí og nóvember 2015 og svo í apríl árið 2017. Síðustu fimm leikir liðanna á Anfield hafa allir endað með sigri Liverpool með markatöluna 14-3. Á síðasta tímabili mættust liðin í september þar sem Liverpool vann góðan 3-0 sigur með mörkum frá Mané rétt fyrir hálfleik, Salah og Keita skoruðu svo á síðustu 12 mínútum leiksins og tryggðu þar með öruggan sigur.

Spáin að þessu sinni er sú að það tekst að stilla spennustigið hjá leikmönnum hárrétt og fyrsti sigur tímabilsins lítur dagsins (kvöldsins) ljós. Það má búast við rífandi góðri stemmningu í fyrsta leiknum á Anfield og stuðningurinn úr stúkunni verður eins og best verður á kosið. Palace liðið getur verið erfitt við að eiga og þeir munu auðvitað liggja vel til baka og treysta á hraða Wilfried Zaha til að beita skyndisóknum. Við höfum þó mikla trú á því að kraftar Anfield leysi úr læðingi alvöru byrjun hjá Liverpool og sigur vinnst, lokatölur 3-0.

Fróðleikur:

- Ef Roberto Firmino byrjar verður það leikur númer 200 hjá honum í byrjunarliði.

- Takist Firmino að skora verður hann 15. leikmaðurinn í sögu félagsins sem skorar mark á öllum sjö vikudögunum.

- Harvey Elliott gæti spilað sinn 10. deildarleik fyrir félagið.

- Trent Alexander-Arnold spilar líklega sinn 150. leik í byrjunarliði í deildinni.

- Liverpool hafa nú spilað 20 leiki án taps.

- Af síðustu 21 marki sem skoruð hafa verið á milli þessara liða í síðustu leikjum hafa Liverpool skorað 20 mörk.

- Í 44 viðureignum liðanna í deildinni hafa liðin aðeins gert markalaust jafntefli tvisvar sinnum.

- Jürgen Klopp hefur náð í 12 sigra gegn Palace í úrvalsdeildinni sem er mesti fjöldi sigurleikja hans gegn öllum liðum.

- Liverpool hafa ekki tapað í síðustu 23 deildarleikjum sínum á Anfield en síðasti tapleikur var gegn Fulham í mars 2021.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan