| Sf. Gutt

Spáð í spilinFulham vs Liverpool. 

Ný leiktíð í ensku knattspyrnunni er að hefjast. Tvöfaldir bikarmeistarar Liverpool og nýbakaðir Skjaldarhafar eru tilbúnir í slaginn. Fyrir utan að vinna báðar bikarkeppnirnar var liðið grátlega nærri því að vinna Englandsmeistaratitilinn og Evrópubikarinn. Ekkert enskt lið hefur lengur átt möguleika á að vinna Fernuna, sem varla er hægt að vinna, en Liverpool á síðasta keppnistímabili. Liverpool missti af henni í síðustu umferð deildarinnar og þá var bara úrslitaleikurinn í Evrópubikarinn eftir. Að vinna báðar ensku bikarkeppnirnar var vissulega frækilegt afrek!Liverpool á sinn fyrsta deildarleik á móti nýliðum Fulham. Þetta verður fjórða keppnistímabilið í röð sem Liverpool mætir nýliðum í fyrstu umferð deildarinnar. Liverpool hefur tvívegis á þessum þremur leiktíðum mætt Norwich City og einu sinni Leeds United . Liverpool vann nýliðana í öllum þessum þremur leikjum. Nú er mótherjinn Fulham en liðið vann næst efstu deild á glæsilegan hátt á síðasta keppnistímabili. Liðið var aðeins eina leiktíð utan efstu deildar og nú er reiknað með liðinu sterkara en þegar það var síðast í efstu deild. Reyndar er liðið búið að missa Fabio Carvalho, einn lykilmann síðasta keppnistímabils, og það til Liverpool. Hann skoraði 11 mörk og lagði upp átta. Það verður spennandi að sjá hvort hann kemur við sögu hjá Liverpool á morgun. 


Fabio er auðvitað annar ungi leikmaðurinn sem Liverpool fær frá Fulham á skömmum tíma. Harvey Elliott kom sömu leið 2019. Hann gæti líka komið við sögu á morgun og kannski líklegra að svo verði með hann en Fabio. Síðast þegar liðin mættust á Craven Cottage, síðla árs 2020, skildu þau jöfn 1:1. Þá kom Fulham Liverpool á óvart með grimmum leik og gestirnir virtust vanmeta heimamenn. Það má ekki gerast núna!

Alisson Becker gat ekki tekið þátt í Skjaldarleiknum um síðustu helgi en hann er núna leikfær. Ibrahima Konate meiddist á móti Strasbourg og verður eitthvað frá. Áður lá fyrir að þeir Curtis Jones, Kostas Tsimikas, Diogo Jota, Alex Oxlade-Chamberlain og Caoimhin Kelleher myndu ekki geta spilað á morgun. Eins er óvíst með Naby Keita en hann hefur verið veikur ef rétt er skilið. 


Liverpool lék mjög vel í Skjaldarleiknum á móti Manchester City og vann sanngjarnan 3:1 sigur.  Ég spái því að Liverpool byrji deildarkeppnina 2022/23 með því að vinna nýliða fjórða árið í röð. Liverpool vinnur 0:3. Mohamed Salah, Roberto Firmino og Darwin Nunez skora. 

YNWA!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan