| Sf. Gutt

Bakslag í baráttunni um enska meistaratitilinn!


Óhætt er að segja að mikið bakslag hafi orðið hjá Liverpool í baráttunni um enska meistaratitilinn  þegar liðið gerði 1:1 jafntefli við Tottenham Hotspur á Anfield Road í kvöld. Liverpool er á toppnum en ríkjandi Englandsmeistarar Manchester City eru með öll spil á hendi!

Það voru engir hvíldir enda allt undir í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn. Tottenham var líka í baráttuhug enda í mikilli baráttu um fjórða sæti deildarinnar sem er svo dýrmætt. Stuðningsmenn Liverpool mynduðu magnaða stemmningu fyrir leikinn eins og svo oft. 

Liverpool tók völdin frá upphafsflauti en Tottenham ætlaði að selja sig dýrt. Það gekk illa að skapa færi enda vörn gestana vel skipulögð. Á 28. mínútu skapaðist loks hætta við mark Tottenham. Varnarmaður skallaði boltann óvænt að eigin marki. Boltinn stefndi í átt að Mohamed Salah en Hugo Loris náði að slá boltann í burtu á síðustu stundu. 

Um 11 mínútum seinna kom fyrirgjöf upp úr hornspyrnu. Virgil van Dijk stökk hæst og náði skalla en boltinn fór í þverslá og yfir. Enn sótti Liverpool og á 42. mínútu átti Luis Díaz skot utan vítateigs sem Hugo varði naumlega. Tottenham náði í kjölfarið hraðri sókn og Pierre-Emile Højbjerg átti skot utan vítateigs sem strauk stöngina utanverða og fór framhjá. Markalaust í hálfleik. 

Síðari hálfleikur hófst á sama hátt en það var Tottenham sem komst yfir. Vörn Liverpool var illa á verði og opnaðist illa. Ryan Sessegnon fékk boltann út til vinstri og sendi fyrir markið á Son Heung-Min sem skoraði örugglega af stuttu færi. Þetta var kjaftshögg fyrir Liverpool og litlu síðar skapaðist aftur hætta við mark. Það endaði á því að boltinn hrökk í Son af stuttu færi en af honum fór boltinn aftur fyrir endamörk. 

Liverpool reyndi skiljanlega að rétta sinn hlut en það var hægara sagt en gert. Á 65. mínútu voru Diogo Jota og Kostas Tsimikas sendir á vettvang. Sókn Liverpool var linnulítil en árangurlaus þar til á 74. mínútu. Luis fékk boltann út til vinstri. Hann lék inn á völlinn og framhjá varnarmanni áður en hann hleypti af. Boltinn endaði í markinu eftir að hafa breytt um stefnu á leiðinni. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu geysilega enda von um sigur aftur vöknuð. Sókn Liverpool hélt áfram til leiksloka. En hún bar ekki frekari árangur og liðin skildu jöfn.

Jafntefli er auðvitað mikið bakslag í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn. Liverpool lék svo sem vel en gestirnir náðu að verjast vel. Liverpool náði einfaldlega ekki að brjóta þá að bak aftur. Stigið kom Liverpool á toppinn en Manchester City er með öll spil á hendi! Flóknara er það ekki. En á meðan einhverjir leikir eru eftir lifir vonin!

Mark Liverpool: Luis Díaz (74. mín.).

Gult spjald: Kostas Tsimikas, Fabinho Tavarez og Naby Keita. 

Mark Tottenham Hotspur:  Son Heung-Min (56. mín.).

Gul spjöld: Ben Davies og Ryan Sessegnon.

Áhorfendur á Anfield Road: 53.177.

Maður leiksins: Luis Díaz. Kólumbíumaðurinn var hættulegasti leikmaður Liverpool og ógnaði vörn Spurs við hvert tækifæri.

Jürgen Klopp: Við erum með stigi meira sem er gott út af fyrir sig. Það var mikil bót frá því við vorum marki undir. Markið okkar skiptir miklu máli. En þetta fór auðvitað ekki eins og við vildum. Við þurfum að vinna úr því og við munum gera það.  Fróðleikur

- Luis Diaz skoraði sjötta mark sitt á leiktíðinni. 

- Mohamed Salah lék sinn 250. leik með Liverpool.

- Í þeim leikjum hefur hann skorað 155 mörk.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan