| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Okkar menn heimsækja Arsenal á Emirates Stadium í London miðvikudagskvöldið 16. mars og verður flautað til leiks klukkan 20:15.

Tímabilið styttist verulega í annan endann og hver einasti leikur er eins og úrslitaleikur. Það á sérstaklega vel við núna þegar Liverpool er í eltingaleik við Manchester City á toppi deildarinnar. Varla þarf að minnast á stöðuna eins og hún er núna, hana þekkjum við öll mjög vel. Jürgen Klopp sat eins og venjulega fyrir svörum á blaðamannafundi fyrir leik og fór yfir stöðu leikmannahópsins. Mohamed Salah þurfti að fara af velli gegn Brighton vegna meiðsla og æfði ekki á mánudaginn var. Klopp sagði hinsvegar að Egyptinn væri tilbúinn á æfingu á þriðjudaginn og við skulum vona að ekkert hafi komið uppá sem kemur í veg fyrir að hann geti spilað. Ibrahima Konaté er sömuleiðis tiltækur á ný eftir veikindi en þeir James Milner og Kostas Tsimikas glíma við veikindi og verða ekki með. Að öðru leyti er restin af leikmannahópnum klár í slaginn sem er gott mál. Hjá heimamönnum í Arsenal er það aðeins Japaninn Takehiro Tomiyasu sem er tæpur en hann hefur misst af síðustu sex leikjum liðsins. Mikel Arteta, stjóri Arsenal sagði að Tomiyasu myndi æfa daginn fyrir leik og staðan svo metin eftir það. Bæði lið hafa því nánast úr öllum sínum leikmannahóp að velja.

Við höldum áfram að giska á byrjunarlið okkar manna og vörnin ætti að segja sig sjálf að mestu leyti með Alisson í markinu, Alexander-Arnold og Robertson sem bakverði og van Dijk og Matip í miðri vörninni. Fabinho verður auðvitað á miðjunni og með honum verða þeir Henderson og Thiago. Fremstu þrír er kannski smá spurningamerki en varla verður Luis Díaz settur á bekkinn í því formi sem hann er í og því spáum við óbreyttu þar og með honum verða Mané og Salah. Það má þó alveg hafa það í huga að Diogo Jota leiðist ekki að skora gegn Arsenal, þar er hann með mark í leik (6 leikir, 6 mörk) en reyndar hafa þrjú þeirra komið eftir að hann kom inná sem varamaður. Það gæti því reynst gulls ígildi að sleppa honum lausum af bekknum í seinni hálfleik.

Gengi okkar manna á Emirates leikvanginum hefur verið alveg ágætt síðustu ár. Í apríl í fyrra vannst góður 0-3 sigur í deildinni og þegar liðin mættust í undanúrslitum Deildarbikarsins fyrr á árinu sigruðu okkar menn 0-2 og tryggðu sig í úrslit. Síðustu fimm deildarleikir okkar manna á þessum velli hafa endað þannig að tveir hafa unnist, tveir endað jafnair og einn tapast. Bæði lið eru á hörku siglingu í deildinni og hafa unnið fimm síðustu leiki sína, það er ljóst að eitthvað verður undan að láta í þessum leik. Skytturnar hafa verið að bæta sinn leik mikið eftir því sem liðið hefur á tímabilið og þrátt fyrir að þeir hafi minnkað töluvert sinn leikmannahóp í janúar glugganum hefur það frekar en hitt þjappað liðinu saman og góð úrslit náðst. Liverpool eru í harðri baráttu eins og áður sagði um titilinn en Arsenal sömuleiðis um að ná hinu eftirsótta fjórða sæti og þar eru þeir í fínni stöðu. Það má því klárlega búast við hörku leik.

Spáin að þessu sinni er sú að gestirnir fara með sigur af hólmi 1-2 þar sem sigurmarkið verður skorað seint í leiknum. Með sigrinum tekst að setja enn meiri pressu á topplið deildarinnar !

Fróðleikur:

- Mohamed Salah er markahæstur Liverpool manna í deildinni með 20 mörk.

- Emile Smith Rowe er markahæstur Arsenal manna með níu mörk.

- Jürgen Klopp gæti náð sínum 100. sigri á útivelli með liðið og þá eru hlutlausir vellir ekki taldir með.

- Liverpool eru í 2. sæti deildarinnar með 66 stig eftir 28 leiki.

- Arsenal eru í fjórða sæti með 51 stig eftir 26 leiki.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan