| Grétar Magnússon

Áfram í Meistaradeild

Þrátt fyrir 0-1 tap gegn Inter Milan eru okkar menn komnir í 8-liða úrslit Meistaradeildar. Leikmenn Liverpool voru ekki á skotskónum og fjölmörg úrvals færi voru ekki nýtt.

Jürgen Klopp gerði fjórar breytingar frá síðasta leik. Joel Matip, Curtis Jones, Thiago og Diogo Jota komu inn í stað Ibrahima Konaté, Naby Keita, Jordan Henderson og Luis Díaz sem allir settust á bekkinn. Roberto Firmino var ekki í leikmannahópnum en að öllu óbreyttu ætti hann að ná að æfa að fullu í vikunni og vera þá klár í slaginn um helgina.

Leikurinn fór rólega af stað og lítið að frétta framan af. Um miðbik hálfleiksins þurfti svo að stöðva leikinn í nokkrar mínútur þar sem læknateymi beggja liða þurftu að veita einum áhorfanda í Kop stúkunni aðstoð en það virtist hafa leyst farsællega og leik var haldið áfram. Þegar líða fór að hálfleik gerðu heimamenn sig líklegri og hefðu með smá heppni getað skorað allavega eitt mark. Matip skallaði í slána eftir aukaspyrnu Alexander-Arnold frá vinstri og Inter björguðu svo í horn. Uppúr horninu átti van Dijk svo skalla sem stefndi í markið en varnarmaðurinn sem fylgdi honum fékk boltann í höfuðið og vissi sennilega minnst um það að hann hafði bjargað marki. Hinumegin kom hættulegasta færi Ítalanna þegar þeir fengu aukaspyrnu við hægra vítateigshornið, boltanum var spyrnt fyrir inná markteig þar sem Alisson þurfti að vera snöggur að átta sig til að slá boltann frá. Síðasta spyrna hálfleiksins var svo skot frá Alexander-Arnold beint úr aukaspyrnu sem fór ekki mjög langt framhjá markinu. Eitt atvik sem vert er að minnast á gerðist einnig undir lok hálfleiksins þegar Alexis Sanchez fór með takkana ansi harkalega í Thiago uppvið hné en dómarinn gaf aðeins gult spjald fyrir. Markalaust í hálfleik.



Það var meira fjör í seinni hálfleik og Mohamed Salah fór illa með dauðafæri í teignum. Thiago sendi innfyrir á Jota sem reyndi að ná til boltans en Handanovic í markinu hoppaði út til að slá boltann frá. Salah fékk boltann og skaut strax en boltinn hafnaði í stönginni hægra megin. Martinez fékk svo flott færi fyrir gestina þegar hann var allt í einu nánast óvaldaður í teignum en einhvernveginn komst varnarmaður fyrir skotið, sem var reyndar slakt til að byrja með. En skömmu síðar gerðust hlutirnir. Slæm sending upp völlinn frá Matip endaði í fótum mótherja sem kom boltanum á Martinez. Hann var ekkert að gaufa við hlutina og þrumaði boltanum beint uppí samskeytin fjær. Glæsilegt mark og Inter menn komnir í séns. Sá séns var svo nánast útilokaður skömmu síðar þegar Alexis Sanchez fékk sitt annað gula spjald fyrir að fara frekar harkalega í Fabinho í baráttu um boltann. Inter menn voru ekki ánægðir með þetta spjald því Sanchez vann boltann fyrst en dómarinn breytti auðvitað ekki ákvörðun sinni. Eftir þetta ógnuðu Inter menn lítið og bestu færin voru heimamanna. Salah skaut aftur í stöng, í þetta sinn þá vinstri þegar hann skaut viðstöðulaust eftir flotta sendingu innfyrir frá Mané. Rétt fyrir leikslok bjargaði svo Vidal á ótrúlegan hátt þegar Luis Díaz fékk boltann í markteignum og hugðist skjóta innanfótar í markið. Hreint magnað að ekki skyldi hafa tekist að skora en mörkin tvö sem skoruð voru á San Siro reyndust gulls ígildi og þrátt fyrir súrt tap á heimavelli er Liverpool komið áfram í keppninni.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Matip, van Dijk, Robertson, Jones (Keita, 65. mín.), Fabinho, Thiago (Henderson, 65. mín.), Salah, Jota (Díaz, 83. mín.), Mané. Ónotaðir varamenn: Adrián, Kelleher, Konaté, Gomez, Tsimikas, Milner, Oxlade-Chamberlain, Elliott, Minamino.

Gul spjöld: Robertson, Jota og Mané.

Inter Milan: Handanovic, Skriniar, de Vrij (D'Ambrosio, 45. mín.), Bastoni, Dumfries (Darmian, 75. mín.), Vidal, Brozovic (Gagliardini, 75. mín.), Calhanoglu (Vecino, 83. mín.), Perisic, Martínez (Correa, 75. mín.), Sánchez.

Mark Inter Milan: Martínez (61. mín.).

Gul spjöld: Bastoni, Vidal, Gagliardini.

Rautt spjald: Sánchez.

Maður leiksins: Það var hálf dauft yfir flestum leikmönnum liðsins í þessum leik og erfitt að velja einhvern einn sem stóð sig hvað best. Það er kannski helst að nefna Alexander-Arnold sem var mikið í boltanum og ógnaði auðvitað með sínum frábæru horn- og aukaspyrnum.

Jürgen Klopp: ,,Listin í knattspyrnu er að tapa réttu leikjunum. Ég hata auðvitað að tapa en ef það var einhver leikur sem við höfðum efni á að tapa þá var það þessi því aðalmarkmiðið í keppninni er að komast áfram. Ég er auðvitað ekki hæstánægður með kvöldið, en ánægður samt með að við erum komnir áfram því þegar drátturinn var ljós vissum við að verkefnið væri mjög erfitt. En þegar báðir leikir eru teknir saman erum við áfram og áttum það skilið að mínu mati."

Fróðleikur:

- Sadio Mané spilaði sinn 50. Meistaradeildarleik.

- Rétt rúmt ár er síðan Liverpool tapaði síðast heimaleik en það var 7. mars 2021 þegar Fulham unnu 0-1 sigur.

- Jordan Henderson hefur nú spilað 430 leiki fyrir félagið í öllum keppnum.

- Dregið verður í 8-liða úrslitin þann 18. mars næstkomandi.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan