| Grétar Magnússon

Bikarinn til Liverpool!

Liverpool og Chelsea spiluðu til þrautar í úrslitum Deildarbikarsins og grípa þurfti til vítaspyrnukeppni þar sem okkar menn stóðu uppi sem sigurvegarar!



Fátt kom á óvart í vali stjóranna á byrjunarliðum sínum en Jürgen Klopp þurfti að gera eina breytingu á liðinu því Thiago meiddist í upphitun og Naby Keita kom inná miðjuna í hans stað. Kelleher stóð í markinu, í vörninni voru þeir Alexander-Arnold, Matip, van Dijk og Robertson. Á miðjunni Fabinho, Henderson og Keita og frammi þeir Luis Díaz, Mané og Salah. Diogo Jota var í standi til að vera á bekknum og með honum þar voru Alisson, Konaté, Tsimikas, Milner, Oxlade-Chamberlain, Elliott, Minamino og Origi. Chelsea menn byrjuðu með Mendy í markinu, miðverðir voru þeir Rüdiger, Thiago Silva og Chalobah. Vængbakverðir voru Azpilicueta og Alonso, á miðjunni Kanté og Kovacic, þar fyrir framan Mount og Pulisic og fremstur Havertz.

Bláliðar byrjuðu leikinn mun betur og Liverpool menn virtust ekki alveg vera klárir í slaginn frá fyrsta flauti. Ekki var langt liðið á leikinn þegar Kelleher þurfti að verja vel frá Pulisic af stuttu færi, sannkallað dauðafæri alveg klárlega. En eftir u.þ.b. korters leik fóru þeir rauðu að ná betri tökum á boltanum og ró færðist yfir liðið. Alexander-Arnold átti frábæra sendingu innfyrir á Mané sem skallaði boltann mjög langt framhjá í fínni stöðu. Besta færi okkar manna í fyrri hálfleik kom svo um hann miðjan þegar Keita átti skot sem Mendy varði vel, Mané náði frákastinu og allt leit út fyrir að hann myndi þenja netmöskvana en Mendy varði glæsilega í horn. Undir lok hálfleiksins fékk svo Mount flott færi í teignum en hann hitti ekki markið og þar á undan hafði Kelleher varið frá Pulisic. Fyrri hálfleikurinn var því nokkuð jafn heilt yfir en liðunum tókst ekki að skora.

Seinni hálfleikur byrjaði svo eins og sá fyrri þar sem Chelsea menn voru sterkari. Fimm mínútur voru liðnar þegar Mount var á auðum sjó í teignum, hann skaut strax að marki og boltinn fór framhjá Kelleher en í innanverða stöngina og út. Þar skall hurð heldur betur nærri hælum og Liverpool menn máttu prísa sig sæla að vera ekki komnir undir. En okkar menn náðu aftur yfirhöndinni og Salah fékk flott færi þegar hann var sendur í gegn, hann lyfti boltanum yfir Mendy en Thiago Silva náði að hreinsa frá marki á ögurstundu, reyndar leit út fyrir að boltinn væri á leiðinni framhjá. Skömmu síðar var svo umdeilt atvik þegar Liverpool menn skoruðu að því er virtist fullkomlega löglegt mark. Alexander-Arnold tók aukaspyrnu og sendi á fjærstöngina þar sem Mané skallaði boltann fyrir markið, Matip kom á ferðinni og skallaði upp í þaknetið. Gríðarlegur fögnuður braust út en myndbandsdómgæslan vildi skoða atvikið betur. Virgil van Dijk virtist hindra einn varnarmanna Chelsea þegar spyrnan var tekin og niðurstaðan var rangstaða þó svo að hann hefði ekki haft bein áhrif á leikinn. Díaz fékk svo fínt færi vinstra megin í teignum en Mendy sá við honum. Chelsea menn komu boltanum tvisvar í netið en voru dæmdir rangstæðir, réttilega, í bæði skiptin og undir lok leiks skallaði van Dijk að marki eftir horn en Mendy varði. Hinumegin náði Lukaku lúmsku skoti að marki úr markteignum en Kelleher varði vel. Niðurstaðan eftir 90 mínútur var markalaus og gripið til framlengingar. Þess má svo að geta að Klopp gerði þrjár skiptingar í seinni hálfleik, inn komu þeir Milner, Elliott og Jota fyrir Henderson, Keita og Mané.

Áður en framlenging hófst gerði Klopp aðra skiptingu þegar Konaté kom inn fyrir Matip. Framlengingin var keimlík því sem áður hafði farið fram í leiknum. Lukaku skoraði mark sem var dæmt af vegna rangstöðu og var það eins tæpt og það gat orðið. Undir lokin var svo skipt um markmenn í Chelsea liðinu þar sem Kepa kom inn fyrir Mendy og var Spánverjinn klárlega hugsaður sem betri valmöguleiki fyrir vítaspyrnukeppnina sem allt stefndi í. Liðin náðu ekki að koma inn löglegu marki og gerðu sig því klára fyrir vítaspyrnukeppni.

Það er skemmst frá því að segja að allir leikmenn beggja liða skoruðu úr sínum spyrnum meira og minna allt af miklu öryggi. Kelleher var kannski nálægt því að verja tvær spyrnur en hafði ekki alveg hönd á bolta. Þegar allir tíu útileikmenn liðanna höfðu skorað var komið að markvörðunum. Kelleher skoraði úr sinni spyrnu af miklu öryggi og Kepa fór á punktinn. Hann lúðraði boltanum hátt yfir markið og það þýddi auðvitað að okkar menn höfðu tryggt sér sigur. Mikil fagnaðarlæti brutust að sjálfsögðu út og nýjasta titli félagins vel fagnað !



Chelsea: Mendy (Arrizabalaga, 120. mín.), Chalobah, Thiago Silva, Rüdiger, Azpilicueta (James, 57. mín.), Kanté, Kovacic (Jorginho, 105. mín.), Alonso, Mount (Lukaku, 74. mín.), Pulisic (Werner, 74. mín.), Havertz. Ónotaðir varamenn: Loftus-Cheek, Saúl, Hudson-Odoi, Sarr.

Gul spjöld: Kanté, Kovacic og Havertz.

Liverpool: Kelleher, Alexander-Arnold, Matip (Konaté, 90. mín.), van Dijk, Robertson, Henderson (Elliott, 79. mín.), Fabinho, Keita (Milner, 80. mín.), Salah, Mané (Jota, 80. mín.), Díaz (Origi, 97. mín.). Ónotaðir varamenn: Alisson, Tsimikas, Oxlade-Chamberlain, Minamino.

Gult spjald: Alexander-Arnold.

Maður leiksins: Þegar upp er staðið er ekki hægt annað en að velja Caoimhin Kelleher sem mann leiksins. Hann var frábær í leiknum og varði mjög vel þegar á þurfti að halda. Vítaspyrna hans var feikna örugg og reyndist svo sigurspyrnan í vítaspyrnukeppninni.


Jürgen Klopp: ,,Leikurinn var eins og tvö ljón að berjast, algjörlega brjálað. Þeir byrjuðu betur, við náðum svo tökum á leiknum en seinni hálfleikur var sama sagan. Þegar leið á leikinn voru bæði lið orðin þreytt og svo var vítaspyrnukeppnin eitt það ótrúlegasta sem ég hef séð. Það er frábært að standa uppi sem sigurvegarar eftir svona leik."

Fróðleikur:

- Liverpool vann Deildarbikarinn í 9. sinn. Ekkert lið hefur unnið þennan bikar eins oft og okkar menn.

- Þetta var 49. titill félagsins í sögunni og félagið er auðvitað það sigursælasta í enskri knattspyrnu, Manchester United hafa unnið 45 titla.

- Jürgen Klopp vann sinn fimmta bikar sem stjóri félagsins og sína fyrstu bikarkeppni á Englandi.

- Sex sinnum hefur þurft að útkljá Deildarbikarinn með vítaspyrnukeppni og Liverpool hafa tekið þátt í fjórum af þessum sex leikjum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan