| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Það er bikar í boði fyrir sigur í næsta leik ! Liverpool og Chelsea mætast í úrslitum Deildarbikarsins sunnudaginn 27. febrúar klukkan 16:30.

Spennan er heldur betur að magnast og við höfum verið að hita upp alla vikuna með ýmsum fróðleik um liðin sem leika til úrslita og sögu Liverpool í keppninni. Nú einbeitum við okkur að leiknum sjálfum en eins og áður á tímabilinu sat Pep Lijnders fyrir svörum á blaðamannafundi fyrir leik. Lijnders flutti auðvitað fréttir af stöðu leikmanna og þar ber hæst að Roberto Firmino verður ekki með en Diogo Jota gæti mögulega náð sér góðum í tæka tíð. Portúgalinn hefur verið að gera æfingar sem ekki virðast hafa ýft upp meiðslin en lesa má úr orðum Lijnders að það verði ansi tæpt að hann verði í leikmannahópnum. Þar með eru meiðslavandræði liðsins upp talin sem er mjög gott mál en engu að síður vont að tveir leikmenn úr fremstu víglínu séu meiddir. Kaupin á Luis Díaz hafa svo sannarlega reynst vel svo ekki sé meira sagt. Hjá Chelsea eru aðeins fleiri leikmenn að glíma við meiðsli en aðeins einn þeirra, Ben Chilwell, verður ekki með. Reece James er byrjaður að æfa á ný og stjóri Chelsea, Thomas Tuchel, sagði að allt liti vel út með hann en þessi leikur gæti engu að síður komið aðeins of snemma fyrir bakvörðinn. Callum Hodson-Odoi, Hakim Ziyech og Mateo Kovacic eru svo allir líklegir til að hafa náð sér af smávægilegum meiðslum eftir leik Chelsea í miðri viku í Meistaradeildinni. Bæði lið munu því geta, því sem næst, stillt upp sínum sterkustu liðum.

Þá vandast nú málin með að spá fyrir um byrjunarliðin en eitt er víst Liverpool megin að Caoimhin Kelleher mun byrja í markinu. Vörnin verður svo líklega skipuð þeim Trent Alexander-Arnold, Joel Matip, Virgil van Dijk og Andy Robertson. Fabinho hlýtur að byrja og fyrirliðinn Jordan Henderson er mjög líklegur einnig, þá er bara ein staða eftir á miðjunni og þar tippa ég á að Thiago verði með. Spánverjinn er með mikla reynslu þegar kemur að stórum leikjum og sú ró og yfirvegun sem kemur með honum á miðjunni er nauðsynleg í svona leik. Fremstu þrír verða svo Luis Díaz, Sadio Mané og Mohamed Salah.

Chelsea megin rennum við frekar blint í sjóinn en giskum á að Edouard Mendy byrji í markinu. Miðverðir verða Cesar Azpilicueta, Antonio Rudiger og Thiago Silva. Ég ætla að gerast svo kræfur að spá því að Reece James byrji enda er hann mikilvægur leikmaður fyrir þá bláu. Hann hefur misst af mörgum leikjum á tímabilinu og liðið hefur saknað hans alveg klárlega. Hinumegin í vængbakverði verður svo Marcos Alonso. N'Golo Kanté og Jorginho verða á miðjunni og frammi þeir Mason Mount, Kai Havertz og Romelu Lukaku. Við vonum að Tuchel sjái ekki ástæðu til að láta Kovacic byrja því mér hefur fundist hann ávallt eiga góða leiki gegn Liverpool og skemmst er að minnast drauma marksins sem hann skoraði í leik liðanna í byrjun ársins. Það vantar alls ekki uppá breiddina hjá þeim bláu og ef James byrjar ekki verður Azpilicueta í vængbakverði og Andreas Christensen í miðvarðarstöðu. Svo gæti alveg verið að Christian Pulisic byrji sem einn af fremstu þrem en hann hefur verið að spila vel það sem af er ári. En þetta mun að sjálfsögðu alltsaman koma í ljós á leikdegi.

Eins og áður sagði höfum við hitað vel upp fyrir leikinn í vikunni og hér má lesa um viðureignir liðanna í þessari keppni í gegnum árin. Chelsea hafa þar yfirhöndina með fjóra sigra í sjö leikjum á móti þrem sigrum okkar manna. Liðin hafa svo leikið heima og heiman í deildinni þar sem báðir leikir enduðu jafnir. Það má því fastlega gera ráð fyrir því að leikurinn verði stál í stál og litlu atriðin gætu skipt miklu máli þegar upp er staðið. Tilhugsunin um að lyfta bikar eftir sigur á Chelsea er virkilega góð en margt þarf að ganga upp til þess að svo megi verða.

Spáin að þessu sinni er sú að Liverpool vinnur 2-1 sigur í venjulegum leiktíma. Varla þarf að taka það fram að þetta verður hörkuleikur. Eins og úrslitaleikja er von og vísa byrjar hann frekar rólega þar sem bæði lið vilja ekki taka mikla áhættu. Í seinni hálfleik gerast hlutirnir og öll mörkin líta dagsins ljós þar. Við vonum svo sannarlega það besta !

Vert er að minnast á það að Liverpoolklúbburinn á Íslandi verður að sjálfsögðu með góða stemmningu á Spot, heimavelli okkar. Við minnum fólk á að mæta snemma og hægt er að bóka borð í síma 5565600. Kahoot getraun verður á skjá þar sem allir geta svarað skemmtilegum spurningum í símanum sínum og miðaleikurinn verður auðvitað á sínum stað. Miðinn kostar 200 krónur en einnig verður Gullpottur í boði þar sem miðaverðið er 1.000 krónur, hver og einn má kaupa hámark tvo miða. Hér á vefnum okkar verður leikur þar sem öllum gefst kostur á að giska á rétt úrslit miðað við venjulegan leiktíma. Arnar trúbador kemur og hitar upp með nokkrum góðum Liverpool lögum þannig að við getum klárlega lofað alvöru stemmningu.

Fróðleikur:

- Takumi Minamino er markahæstur Liverpool manna í Deildarbikarnum með fjögur mörk.

- Kai Havertz er markahæstur Chelsea manna með tvö mörk.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan