| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Liverpool vs Leeds United

Annað kvöld leikur Liverpool leik sem hefur verið mjög umtalaður síðustu vikurnar. Á annan í jólum var leik Liverpool og Leeds United frestað en nú er komið að því að leikurinn geti farið fram. Ástæðan fyrir því að leikurinn hefur verið svo umtalaður er sú að þetta er leikurinn sem Liverpool hefur átt inni á Manchester City. Eftir leikinn annað kvöld verða liðin búin að leika jafn marga leiki. Með sigri Liverpool verður liðið aðeins þremur stigum á eftir Englandsmeisturunum.


Það er skammt stórra högga á milli hjá Liverpool. Liðið vann fækilegan sigur á Inter Milan fyrir viku. Á laugardaginn vannst nauðsynlegur sigur á Norwich City. Svo er þessi mikilvægi leikur við Leeds United annað kvöld og á sunnudaginn úrslitaleikurinn um Deildarbikarinn við Chelsea. Það voru gerðar sjö breytingar liðinu fyrir leikinn á móti Norwich. Það slapp allt til og Liverpool vann 3:1 reyndar eftir að hafa lent undir. Ég á von á því að liðið sem gengur til leiks annað kvöld verði nær því að vera sterkasta lið sem völ verður á. Roberto Firmino og Diogo Jota eru meiddir en aðrir sterkustu menn liðsins eru til taks. 


Leeds United er í fallbaráttu. Liðið er rétt fyrir ofan allra neðstu liðin og það má lítið út af bera. Liðið spilar oft mjög góða knattspyrnu og það eru góðir leikmenn í röðum liðsins en vörnin hefur verið veikasti hluti þess. Vonandi verður vörnin áfram mistæk og Liverpool á að geta fært sér það í nyt. Þeir leikmenn Liverpool sem verða valdir til leiks ættu að vera mjög einbeittir og liðið ætti þess vegna að eiga góðan leik. Hver vill missa af sæti í úrslitaleik af því hann spilaði ekki nógu vel í næsta leik á undan? Ég spái því að Liverpool vinni 2:0. Sadio Mané og Luis Díaz skora mörkin. 

YNWA!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan