| Grétar Magnússon

Góður sigur

Liverpool vann 3-1 sigur á Newcastle í 17. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Þetta var sigurleikur númer 2.000 hjá félaginu í efstu deild og hefur ekkert lið náð eins mörgum sigrum.

Fyrir leik fóru að berast út fréttir af því að Covid smit hefði komið upp í herbúðum Liverpool og voru nöfn Virgil van Dijk og Fabinho nefnd í því samhengi. Það var svo staðfest þegar byrjunarliðið var tilkynnt og jafnframt kom í ljós að Curtis Jones er einnig smitaður. Byrjunarlið Jürgen Klopp var því meira breytt en hann hafði ætlað en Ibrahima Konaté kom inn í staðinn fyrir van Dijk og Diogo Jota kom inn fyrir Fabinho, að öðru leyti var liðið óbreytt frá síðasta leik. Roberto Firmino var ný í hópnum og settist á bekkinn.

Uppskrift leiksins var svosem vituð fyrirfram, heimamenn myndu vera mun meira með boltann, gestirnir myndu treysta á skyndisóknir en flestir bjuggust nú við þægilegum sigri. Fyrstu mínúturnar voru auðvitað samkvæmt uppskrift og Jota fékk fyrsta færi leiksins þegar Salah sendi á hann með hælspyrnu í teignum en Dubravka í markinu varði. Newcastle menn náðu skyndisókn á 7. mínútu sem virtist hættulítil. Saint-Maximin fór upp vinstri kantinn, kom boltanum á samherja sem sendi fyrir en þar voru fáir Newcastle menn og Thiago kom boltanum í burtu beint fyrir utan teiginn. Jonjo Shelvey tók við boltanum, lék aðeins nær markinu og skaut svo góðu skoti sem söng í netinu alveg út við vinstri stöngina. Fallegt mark en alveg óþarfi að gefa gestunum þetta fína forskot. Liverpool menn vissu nú sem var að nóg var eftir af leiknum og héldu sínum leik áfram. Mané átti skot í stöng eftir sendingu frá Salah en var réttilega dæmdur rangstæður, Konaté skallaði framhjá eftir hornspyrnu og Jota þrumaði boltanum í hliðarnetið. Allt fínar tilraunir og það mátti alveg gera ráð fyrir því að næsta mark yrði heimamanna. Á 21. mínútu kom jöfnunarmarkið en eftir að hornspyrna hafði verið hreinsuð frá barst boltinn til Mané sem sendi fyrir markið þar sem Jota var á auðum sjó, Dubravka varði skalla hans en Portúgalinn fylgdi á eftir og þrumaði boltanum í netið. Gestirnir voru ekki par sáttir með að markið fengi að standa þar sem einn leikmaður þeirra lá í teignum. Dómarinn stöðvaði hinsvegar ekki leikinn og kvartanir þeirra féllu fyrir daufum eyrum.

Newcastle voru ekki langt frá því að jafna metin þegar Saint-Maximin komst inní sendingu frá Thiago inná miðjunni. Hann hljóp í átt að markinu og náði fínu skoti frá vítateigslínu sem Alisson varði vel. En næsta mark var heimamanna einnig. Mané komst inní slaka sendingu frá Shelvey til baka, varnarmaður virtist fella hann en Mané náði engu að síður að skjóta í litlu jafnvægi. Skotið var varið en Salah fylgdi á eftir og sendi boltann rakleiðis í markið. Eftir þetta fengu Liverpool menn fleiri hálffæri en tókst ekki að nýta þau. Staðan í hálfleik 2-1.

Seinni hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri og bæði lið fengu ágætis tækifæri. Eftir því sem leið á læddist að manni sá grunur að gestirnir myndu læða inn einu marki því lítið gekk uppvið markið hinumegin. Alexander-Arnold bjargaði til dæmis einu sinni mjög vel þegar sending kom frá hægri kanti ætluð Fraser sem hefði verið sloppinn í gegn en bakvörðurinn knái rétt náði að vera fyrri til í boltann. Newcastle menn vildu víti en það hefði ekki verið réttur dómur.


Firmino og Keita komu inná um miðjan seinni hálfleikinn með smá ferskleika í spilið þannig séð en lokamarkið kom þrem mínútum fyrir leikslok og var gullfallegt. Heimamenn fengu aukaspyrnu og boltanum var rennt til Firmino sem var með varnarmann í sér, hann potaði boltanum til hægri á Alexander-Arnold sem þrumaði boltanum í markið vel fyrir utan teiginn. Óverjandi skot og góðum 3-1 sigri var fagnað á Anfield.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Matip, Konaté, Robertson, Oxlade-Chamberlain (Keita, 74. mín.), Henderson, Thiago (Milner, 90. mín.), Salah (Firmino, 74. mín.), Jota, Mané. Ónotaðir varamenn: Kelleher, Pitaluga, N. Williams, Gomez, Tsimikas, Minamino.

Mörk Liverpool: Diogo Jota (21. mín.), Mohamed Salah (25. mín.) og Trent Alexander-Arnold (87. mín.).

Gult spjald: Henderson.

Newcastle: Dúbravka, Manquillo, Schär, Lascelles, Lewis (Ritchie, 15. mín.), Murphy, Hayden, Shelvey, Joelinton, Fraser (Willock, 87. mín.), Saint-Maximin (Wilson, 79. mín.). Ónotaðir varamenn: Clark, Hendrick, Almirón, Darlow, Gayle, S. Longstaff.

Mark Newcastle: Jonjo Shelvey (7. mín.).

Gul spjöld: Hayden, Joelinton og Fraser.

Maður leiksins: Trent Alexander-Arnold átti fínan leik, bjargaði marki með góðri tæklingu og skoraði svo fallegasta mark leiksins.

Jürgen Klopp: ,,Við þurftum að leggja mikið á okkur til að fá þrjú stig en svona er þessi deild. Mótherjinn er augljóslega að berjast fyrir lífi sínu í deildinni og lögðu hart að sér, voru vel skipulagðir og komust yfir. Þetta er því ágætis uppskrift af erfiðum leik en við náðum að vinna engu að síður, áttum það skilið líka."

Fróðleikur:

- Mohamed Salah skoraði sitt 15. deildarmark á leiktíðinni.

- Diogo Jota skoraði sitt níunda deildarmark og Trent Alexander-Arnold sitt annað mark.

- Liverpool vann sinn 2.000. sigur í efstu deild, liðið hefur spilað 4.227 leiki og þar af gert 1.047 jafntefli og tapað 1.180 leikjum.

- Jürgen Klopp vann sinn 150. sigur í úrvalsdeild með Liverpool með 12 leikjum færri spilaða en þegar Kenny Dalglish náði þessum áfanga.

- Mohamed Salah hefur nú skorað eða lagt upp mark í 15 deildarleikjum í röð og jafnaði þar með met Jamie Vardy frá árinu 2015.

- Diogo Jota spilaði sinn 50. leik fyrir félagið í öllum keppnum.

- Liverpool eru í 2. sæti deildarinnar með 40 stig eftir 17 leiki.

- Newcastle eru í 19. sæti með 10 stig.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan