| Grétar Magnússon

Nýr markvarðaþjálfari

Brasilíska goðsögnin Claudio Taffarel er nýjasta viðbótin í þjálfarateymi félagsins sem markvarðaþjálfari.

Taffarel, sem er 55 ára gamall bætist því í hópinn hjá þeim John Achterberg og Jack Robinson og verður áfram starfandi sem markvarðaþjálfari hjá landsliði Brasilíu samhliða starfi sínu hjá félaginu. Taffarel er einn frægasti markvörður sem Brasilía hefur átt en hann spilaði alls 101 landsleik fyrir þjóð sína. Árið 1994 fagnaði hann heimsmeistaratitlinum og fjórum árum síðar féllu silfurverðlaunin á HM honum í skaut. Á ferli sínum spilaði hann til að mynda með Parma og Galatasaray en árið 2003 lagði hann hanskana á hilluna.



Jürgen Klopp hafði þetta að segja um nýjasta manninn í teymi sínu: ,,Hugmynd okkar er að nú höfum við í mörgum stöðum bestu leikmennina sem við getum ímyndað okkur. Hvað markverði varðar þá erum við auðvitað með Alisson Becker sem fyrir okkur er sá besti í heimi. Við erum með Caoimhin Kelleher sem okkur finnst framúrskarandi leikmaður. Adrian hefur svo auðvitað sýnt gæði sín síðan hann kom til liðsins. Við erum svo einnig með nokkra unga eins og til dæmis Marcelo Pitaluga og Harvey Davies þannig að við erum þarna með fimm markmenn í mismunandi aldursflokkum sem er auðvitað frábært en við viljum gjarnan bæta fleirum við."

,,Við viljum byggja upp okkar eigin sýn í markvarðamálum því við erum öll sammála um að þetta sé öðruvísi leikur fyrir þá, þess vegna vildum við fá nýja sýn á hlutverkið. Við ræddum við Ali því tveir bestu markmenn heimsins í dag eru frá Brasilíu og við fundum lausn með því að fá Taffarel inn sem er mjög góð viðbót við teymið. Við trúm því að hann geti gefið okkur þessa nýju sýn og annað sjónarhorn. Við viljum í alvörunni vera mjög góður markvarðaskóli í heimsfótboltanum í dag og þess vegna bætist við mjög reynslumikill markvarðaþjálfari."

Eftir að Taffarel lagði hanskana á hilluna þjálfaði hann hjá Galatasaray í nokkur ár og svo aftur með stuttu millibili árin 2014 og 2015. Klopp telur að Taffarel muni passa fullkomlega inní teymi þeirra sem fyrir voru í markvarðaþjálfara teyminu.

,,Jack er auðvitað enn mjög ungur hvað starfsaldur varðar og fyrir hann er gott að öðlast meiri þekkingu á þessum málum. Hvar getur maður öðlast slíka reynslu ? Jú með því að setja upp mismunandi æfinga áætlanir og fljúga hingað og þangað um heiminn, en hér fáum við þessa reynslu og þekkingu beint til Kirkby. John er svo auðvitað mjög opinn fyrir nýjungum og tekur þessu fagnandi. Hann hefur hitt Taffarel áður með landsliði Brasilíu. John er einnig eins og alfræði orðabók þegar kemur að markvörðum, hann veit í rauninni allt um þessi mál. Að hafa Taffarel hér verður því mjög gott fyrir John og Jack, þeir skiptast á hugmyndum og greina hlutina saman. Taffarel er því bara viðbót við mjög mikilvægan þátt leiksins. Það er einnig mikilvægt að vera með mismunandi menningu á æfingasvæðinu. Við erum hér með hollensk, ensk, þýsk og nú brasilísk áhrif í þjálfarateyminu og það hjálpar alveg klárlega."
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan