| Sf. Gutt

Meiðslafréttir

Það er sjaldan gaman að fara yfir meiðsalistann. Alla vega ekki þegar það er að bætast á hann. Listinn er óþarflega langur um þessar mundir. Joe Gomez er meiddur á kálfa. Hann er að lagast en ekki orðinn góður. Ekkert nýtt í þessu. Joe er óheppinn og hefur verið að meiðast af og til frá því hann kom til Liverpool.


James Milner tognaði aftan í læri á móti Manchester United. Hann er á batavegi en er ekki orðinn leikfær. 

Naby Keita er á sama báti og James. Hann tognaði aftan í læri gegn Brighton. Hann er að lagast en er ekki farinn að æfa. 


Roberto Firmino tognaði líka aftan í læri. Tognunin var slæm og ekki er reiknað með að Roberto geti spilað fyrr en um miðjan desember.

Curtis Jones varð fyrir augnskaða á æfingu á dögunum. Óljóst er hvenær hann getur farið að æfa aftur. 

Óljóst er hvort Jordan Henderson og Andrew Roberton geti spilað á móti Arsenal á laugardaginn. Þeir meiddust báðir í landsleikjahrotunni. Ekki alvarlega þó að talið er. 

Ekki þarf að taka fram að Harvey Elliott er á meiðslalistanum. Hann er kominn af stað í endurhæfingu og gengur vel. Ef batinn verður samkvæmt áætlun og góður gæti pilturinn spilað eitthvað á leiktíðinni. 

 
Jákvæðar fréttir eru af Sadio Mané. Hann fór af velli í landsleik á dögunum eftir að hafa orðið fyrir hnjaski í síðu. Hann er orðinn leikfær.


Sama má segja um Divock Origi. Hann fór af velli í leik Wales og Belgíu. Hann var eitthvað stirður en getur spilað næsta leik. 

Thiago Alcântara var meiddur fyrir landsleikjahlé en kom þó inn á gegn West Ham United. Hann er nú búinn að fá góða hvíld og er tilbúinn í slaginn. 

Svona eru þá meiðslamálin á þessum tímapunkti. Vonandi bætist ekki á listann.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan