| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur er gegn nýliðum Brentford á útivelli. Leikurinn fer fram laugardaginn 25. september klukkan 16:30.

Það er aldrei létt verkefni að mæta nýliðum í deildinni á útivelli snemma tímabils. Brentford hafa byrjað best af þessum þremur liðum sem komu upp síðastliðið vor og eru með 8 stig eftir fyrstu fimm umferðirnar, þar á meðal var flottur sigur á Arsenal í fyrstu umferð. Okkar manna bíður því spennandi og erfitt verkefni í þessum leik.

Jürgen Klopp fór yfir stöðuna á leikmannahópnum fyrir leikinn eins og vant er. Þar sagði hann að Naby Keita og Thiago verði væntanlega frá fram yfir landsleikjahlé. Meiðsli Keita eru minna alvarleg en hann verður þó pottþétt ekki með um helgina og mögulega gæti hann verið klár í slaginn gegn Manchester City um næstu helgi. Roberto Firmino er svo byrjaður að æfa á ný eftir sín meiðsli en er engu að síður spurningamerki fyrir þennan leik. Trent Alexander-Arnold missti af síðasta deildarleik en er tilbúinn núna og James Milner er það einnig eftir að hafa misst af Deildarbikarleik í vikunni. Loks má svo nefna að Neco Williams er einnig byrjaður að æfa á ný eftir meiðsli en verður nú væntanlega ekki í leikmannahópnum núna. Svo er það auðvitað Harvey Elliott sem verður lengi frá eins og margoft hefur komið fram. Hjá heimamönnum í Brentford eru þrír leikmenn á meiðslalista. Rico Henry, Mads Sörensen og Joshua Dasilva og eru þeir tveir síðastnefndu ekki klárir í þennan leik, en Henry ætti að hrista af sér smávægilegt hnjask eftir sigurinn á Úlfunum um síðustu helgi.

Það er sem fyrr bæði erfitt og létt að spá fyrir um byrjunarlið gestanna í leiknum. Gera má fastlega ráð fyrir því að öftustu fimm verða þeir Alisson, Alexander-Arnold, Matip, van Dijk og Robertson. Miðjan verður skipuð þeim Fabinho, Henderson og Oxlade-Chamberlain, fremstu þrír þeir Jota, Mané og Salah. Það er kannski aðeins léttara að spá fyrir um hvernig miðjan verður skipuð enda eru núna þrír miðjumenn meiddir og munar um minna, þó gæti Curtis Jones komið inn í stað Oxlade-Chamberlain. Þetta er að sjálfsögðu birt án ábyrgðar !

Liðin hafa ekki mæst oft í sögunni enda ekki verið í sömu deild síðan árið 1947 en það var ákkúrat árið sem Brentford voru síðast í efstu deild á Englandi. Leikirnir eru 15 talsins í öllum keppnum og hafa Brentford aðeins unnið 3 þeirra. Síðasti leikur liðanna var á því herrans ári 1989 í 6. umferð FA bikarsins á Anfield. Liverpool sigraði þann leik 4-0 með mörkum frá Steve McMahon, John Barnes og Peter Beardsley sem skoraði síðustu tvö mörk leiksins. Hjá Brentford er fyrrum liðsmaður Liverpool, Spánverjinn Sergi Canos. Hann náði því að spila 10 mínútur með aðalliði Liverpool í maí árið 2016. Seinna um sumarið var hann svo seldur til Norwich þar sem hlutirnir gengu ekki alveg upp og í janúar 2017 var hann seldur til Brentford þar sem hann hefur heldur betur blómstrað. Hann spilar sem vængbakvörður vinstra megin og er öskufljótur. Við vonum að hann hitti ekki á sinn besta dag í þessum leik, þó það sé vissulega ánægjulegt að sjá fyrrum leikmenn félagsins ganga vel annarsstaðar.

Spáin að þessu sinni er sú að okkar menn ná að halda haus í rífandi stemmningu á Brentford Community Stadium. Lokatölur verða 0-2 með mörkum í sitthvorum hálfleiknum.

Fróðleikur:

- Mohamed Salah er markahæstur Liverpool manna í deildinni með fjögur mörk.

- Ivan Toney er markahæstur hjá Brentford með tvö mörk það sem af er.

- Salah spilar líklega 210. leik sinn fyrir félagið í öllum keppnum.

- Joel Matip gæti spilað deildarleik númer 100 fyrir félagið.

- Alex Oxlade-Chamberlain gæti spilað deildarleik númer 80 fyrir félagið.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan