| Grétar Magnússon

Fyrirliðinn með nýjan samning

Jordan Henderson hefur skrifað undir nýjan samning við Liverpool, til næstu fjögurra ára.

Henderson hefur verið hjá félaginu í 10 ár en í júní síðastliðnum fagnaði hann áratugs veru eftir að hafa verið keyptur frá Sunderland. Síðan þá hefur hann spilað 394 leiki og skorað 30 mörk. Hann hefur unnið nánast allt sem hægt er að vinna á þessum 10 árum en árið 2012 vannst deildarbikarinn, árið 2019 Meistaradeildin og árið 2020 úrvalsdeildin, Ofurbikar Evrópu og Heimsmeistarakeppni félagsliða.

Hann var svo valinn knattspyrnumaður ársins í Englandi tímabilið 2019-20, leikmaður ársins hjá enska landsliðinu árið 2019 og leikmaður ársins hjá Liverpool tímabilið 2019-20. Fyrr á þessu ári hlaut hann svo orðu frá bresku krúnunni fyrir framlag sitt til knattspyrnu og góðgerðamála en Henderson var duglegur að láta til sín taka þegar Covid-19 faraldurinn lagði allt í dvala í Englandi.

Fyrirliðinn var að sjálfsögðu ánægður með að hafa skrifað undir nýjan samning og hafði þetta að segja: ,,Það er augljóslega mikill heiður að fá að vinna áfram hjá félaginu og ég er mjög stoltur. Það er gott að klára þetta mál loksins og einbeita sér að því að horfa fram veginn og hvað framtíðin ber í skauti sér."

,,Ég er auðvitað á allt öðrum stað núna en þegar ég gekk fyrst hingað inn. Ég hef vaxið og lært mikið á tíma mínum hér og get þakkað fullt af fólki fyrir það. Ég hef notið hverrar mínútu, líka þegar ég horfi til baka til erfiðu stundanna þá naut ég þess samt að vera hluti af þessu félagi. Því lengur sem ég get verið hér, því betra fyrir mig, ég hef alltaf sagt að ég vilji vera hér eins lengi og mögulegt er. Þetta er ótrúlega mikilvægt fyrir mig og fjölskylduna mína og ég vona að félagið og stuðningsmennirnir séu að hugsa það sama."

,,Á hverju ári er sama staðan, ný áskorun sem er stærri en sú fyrri og næsta tímabil alltaf mikilvægara. Ég er jafn hungraður í velgengni og áður, jafn hungraður og ég var fyrir tíu árum síðan. Ég vil sanna fyrir fólki að ég á skilið að vera hér og gef allt mitt á hverjum degi hér fyrir stuðningsmennina og alla sem starfa hér. Ef við leggjumst öll á eitt finnst mér við eiga góða möguleika á því að njóta áfram velgengni."


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan