| Sf. Gutt

Fullt hús!


Allt útlit er á því að knattspyrnuvellir verði fullir af áhorfendum þegar nýtt keppnistímabil hefst í næsta mánuði. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í dag um afléttingar á takmörkunum á samkomum. Í þeim afléttingum felst meðal annars að takmarkanir verða ekki lengur á fjöldasamkomum. Þar með verður hægt að hleypa áhorfendum inn á knattspyrnuleiki þannig að hægt verður að fylla velli og er það sannarlega gleðiefni.


Þetta verður geysileg breyting frá því sem var á síðasta keppnistímabili þegar knattspyrnuvellir voru tómir utan við nokkra leiki. Eins var leikið fyrir tómum áhorfendastæðum frá því í mars á síðasta ári þegar farsóttin tók völdin. 


Takmarkaður fjöldi áhorfenda var á síðustu tveimur umferðum Úrvalsdeildarinnar í vor. Eins voru nokkrir áhorfendur á leikjum á ákveðnum völlum í desember þegar góð tök voru talin vera kominn á faraldurinn. Á þeim tíma voru leyfðir 2000 áhorfendur á þremur leikjum á Anfield. 

En nú hafa bólusetningar smá saman myndað vörn gegn veirunni skæðu. Fullur sigur er þó ekki í höfn og hefur smitum verið að fjölga á Bretlandi upp á síðkastið. Samt hafa yfirvöld ákveðið að slaka á takmörkunum. 

Ein af ástæðum fyrir slöku gengi Liverpool á kafla á síðasta keppnistímabili var talin sú að engir áhorfendur voru á Anfield. Vissulega sátu öll félög við sama í borð í þessu efni en því verður þó ekki á móti mælt að stuðningsmenn Liverpool hafa verið 12. maðurinn í liði Liverpool og ekki síst núna síðustu árin!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan