| Grétar Magnússon

Góður sigur á Turf Moor

Liverpool vann góðan 0-3 sigur á Burnley í síðasta útileik sínum og eru þar með komnir í fjórða sæti deildarinnar. Tveir leikmenn skoruðu sín fyrstu mörk á tímabilinu.

Það kom fátt á óvart í byrjunarliði Jürgen Klopp en Gini Wijnaldum kom inn á miðjuna í stað Curtis Jones. James Milner og Alex Oxlade-Chamberlain voru í leikmannahópnum á ný og settust á bekkinn. Leikurinn byrjaði fjörlega og bæði lið fengu mjög góð færi, þá aðallega gestirnir. Á fyrstu þrem mínútum þurftu Burnley að vera á tánum, Ben Mee blokkaði skot frá Salah í teignum, skömmu síðar reyndi Alexander-Arnold sendingu inná teiginn sem hrökk af varnarmanni og til Mané sem var óvaldaður á markteig en hann skaut framhjá. 3500 stuðningsmenn heimamanna reyndu að gefa sínum mönnum aukinn kraft og leikmenn Burnley færðu sig uppá skaftið. Á 27. mínútu fengu þeir úrvals færi þegar há sending fram völlinn skoppaði yfir alla og skyndilega var Chris Wood kominn í flott skotfæri á markteig en hann hitt sem betur fer ekki markið. Hinumegin fékk svo Thiago svipað dauðafæri eftir flott samspil við Salah í teignum en Spánverjinn skaut rétt framhjá. Skömmu síðar komst Salah einn innfyrir, móttakan var góð en varnarmenn eltu hann uppi og hann þrumaði yfir markið. Áfram héldu færi að koma sem ekki voru nýtt en á 43. mínútu var ísinn loksins brotinn. Mané sendi upp vinstri kantinn á Robertson sem var í fínni stöðu nálægt endamörkum. Hann sendi lágan bolta inná teiginn þar sem Firmino kom á ferðinni og setti boltann snyrtilega í markið. Gríðarlega mikilvægt að skora rétt fyrir hálfleik !

Seinni hálfleikur var kannski aðeins minna fjörugur en eftir góða byrjun heimamanna tvöfölduðu gestirnir forystuna á 52. mínútu. Mané sýndi flotta takta á teignum, komst upp að endamörkum og sendi fyrir þar sem Nat Phillips reis manna hæst og stangaði boltann í netið. Fyrsta mark Phillips fyrir félagið og hann fagnaði því að sjálfsögðu vel með liðsfélögum sínum. Eftir þetta héldu Burnley menn boltanum betur og reyndu að minnka muninn. Næst komust þeir þegar Mee skallaði boltann að marki eftir hornspyrnu, boltinn fór yfir Alisson og var á leiðinni í markið þegar Phillips bjargaði meistaralega á línu með því að skalla frá. Hægt og rólega fjaraði svo undan sóknaraðgerðum heimamanna og Liverpool menn virtust sáttir með að halda forystunni. Skömmu fyrir leikslok skoraði svo Alex Oxlade-Chamberlain glæsilegt mark en hann hafði skömmu áður komið inná af bekknum. Hann fíflaði varnarmenn Burnley í teignum og þrumaði svo boltanum í nærhornið, algjörlega óverjandi skot. Lokatölur 0-3 og fjórða sæti deildarinnar er nú í höndum Liverpool. Sigur gegn Crystal Palace gulltryggir það sæti endanlega ! Við vonum svo sannarlega að það gerist.Burnley: Norris, Lowton, Tarkowski, Mee, Taylor, Guðmundsson, Westwood, Cork (Vydra, 76. mín.), McNeil, Brownhill, Wood. Ónotaðir varamenn: Peacock-Farrell, Barnes, Rodriguez, Pieters, Nartey, Dunne, Richardson, Driscoll-Glennon.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Phillips, R. Williams, Robertson, Thiago, Fabinho, Wijnaldum (Milner, 86. mín.), Salah, Firmino (Oxlade-Chamberlain, 81. mín.), Mané (Tsimikas, 90+2 mín.). Ónotaðir varamenn: Adrián, Koumetio, N. Williams, Jones, Shaqiri, Origi.

Mörk Liverpool: Roberto Firmino (43. mín.), Nat Phillips (52. mín.) og Alex Oxlade-Chamberlain (88. mín.).

Maður leiksins: Nat Phillips er það klárlega að þessu sinni. Hann vex með hverjum leik og tapar varla skallabolta. Hann verðskuldaði svo sannarlega að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið og sá svo til þess að Burnley menn kæmust ekki inní leikinn á mikilvægu augnabliki með björgun á línu.

Jürgen Klopp: ,,Þetta var undanúrslitaleikur sem við þurftum að vinna og það gerðum við. Ekkert er komið á hreint ennþá en við bættum stöðu okkar og nú er úrslitaleikur fyrir höndum. Þetta er það sem við þurftum og áttum skilið því frammistaðan var frábær. Nú þurfum við að jafna okkur fljótt, við erum með þunnskipaðan leikmannahóp í nokkrum stöðum og sumir leikmenn þurfa að vera vafnir í bómul fram á sunnudag. Ég get ekki beðið eftir 10.000 stuðningsmönnum á Anfield. En ég minni á að ekkert er komið á hreint ennþá - Palace eru með sterkt lið."

Fróðleikur:

- Nat Phillips skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið.

- Alex Oxlade-Chamberlain skoraði sitt fyrsta mark á leiktíðinni.

- Roberto Firmino skoraði sitt 9. deildarmark.

- Liverpool hafa ekki tapað leik þegar Firmino skorar fyrsta markið (12 sigrar og 2 jafntefli) og síðustu 11 leikir þar sem hann hefur skorað fyrst hafa unnist.

- Firmino skoraði í þriðja sinn í röð á Turf Moor og er annar leikmaðurinn í deildinni sem gerir það.

- Firmino hefur skorað þrjú mörk í síðustu þrem leikjum og er það jafnmikið og í síðustu 19 leikjum þar á undan.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan