| Sf. Gutt

Alisson Becker skoraði sigurmark Liverpool!


Alisson Becker skráði nafn sitt á spjöld sögu Liverpool Football Club með sigurmarki á lokaandartökum leiks sem lengi verður í minnum hafður. Brasilíski markmaðurinn varð fyrsti markmaður í sögu Liverpool til að skora í opinberum leik. Markið tryggði Liverpool nauðsynlegan sigur 1:2 á West Bromwich Albion. Það er stundum sagt að eitt og annað hafi ekki sést áður í knattspyrnunni. Í þetta sinn er engu ofaukið þegar sagt er að annað eins hafi ekki áður sést í gervallri sögu Liverpool! 

Sigur Liverpool á Manchester United á fimmtudagskvöldið gaf meisturunum alla möguleika á að ná einu af fjórum efstu sætum deildarinnar. En til þess þurfti að vinna þá þrjá leiki sem eftir voru í deildinni. Enn bættist á meiðslalista Liverpool þegar ljóst varð fyrir leikinn að Diogo Jota gæti ekki spilað og reyndar ekki meira á leiktíðinni. Sadio Mené kom inn í liðið í hans stað. Ungliðinn Curtis Jones kom inn á miðjuna. 

Liverpool lenti í vanda eftir aðeins stundarfjórðung. Hal Robson-Kanu slapp inn fyrir vörn Liverpool hægra megin og skoraði framhjá Alisson Becker. Liverpool lék alls ekki jafn vel og á Old Trafford og náði sér ekki á strik. Um miðjan hálfleikinn fékk Sadio Mané fyrsta færi Liverpool en hann skaut framhjá eftir undirbúning Thiago Alcantara sem var magnaður á miðjunni. Liverpool náði svo að jafna á 33. mínútu. Sadio vann boltann við vítateiginn og kom honum á Mohamed Salah. Egyptinn tók boltann viðstöðulaust með vinstri og skot hans hafnaði úti við stöng vinstra megin. Stórvel gert hjá Mohamed. 

Liverpool náði góðri rispu eftir markið og rétt á eftir lagði Sadio upp færi fyrir Roberto Firmino með hælspyrnu. Roberto var óheppinn því boltinn hafnaði í stöng og hættan leið hjá. Heimamenn ógnuðu svo strax í kjölfarið. Hal komst inn í vítateginn en Trent Alexander komst fyrir skot hans. Vel gert hjá Trent. Staðan jöfn í hálfleik. 

Liverpool sótti linnulítið í í síðari hálfleik en opin færi létu á sér standa. Heimamenn voru harðir á sínu og vörðust vel. Þeir áttu líka nokkrar skyndisóknir og Hal komst einn inn í teig úr einni, á 77. mínútu, en Alisson kom út á móti honum og varði vel. Hinu megin lék Thiago sig í færi en skot hans fór rétt framhjá. Á 83. mínútu kom Trent sér í færi inni í teig en skot hans úr fínu færi fór hátt yfir. 

Þegar þrjár mínútur voru eftir ógnaði Thiago með góðu skoti en Sam Johnstone varði. Á lokamínútunni lagði Mohamed upp stórgott færi fyrir Georginio Wijnaldum en varamaðurinn hitti ekki markið. Það virtist sama hvað reynt var. 

Fjórum mínútum var bætt við venjulegan leiktíma. Sá tími leið þegar Liverpool vann hornspyrnu frá vinstri. Þegar Trent var að búa sig í að taka hornið tóku einhverjir eftir að Alisson Becker kom skokkandi inn í vítateiginn. Trent tók spyrnuna og það ótrúlega gerðist. Boltinn fór beinustu leið á höfuðið á Alisson sem skallaði boltann af öryggi út í hægra hliðarnetið. Sam hreyfði hvorki legg né lið í markinu. Enginn af þeim 21 leikmanni sem horfði á boltann þenja netið trúði sínum eigin augum hvað þá allar þær milljónir sem horfðu á leikinn í sjónvarpi úti um allan heim. Alisson Becker hafði skorað! Tilfinningaflóðið í kjölfarið var ólýsanlegt! Allir þekkja þann harm sem Alisson og fjölskylda hans hafa þurft að bera eftir að faðir hans drukknaði fyrr á árinu. Ólýsanlegt!

Leikmenn Liverpool gengu gersamlega af göflunum og allir tengdir Liverpool á varamannabekknum gengu berserksgang! Allir sem til sáu höfðu orðið vitni að ævintýri. Alisson hafði tryggt Liverpool sigur á allra síðustu stundu. Um leið skráði hann sig í annála Liverpool því markmaður hafði aldrei áður skorað mark fyrir Liverpool í opinberum leik. Hver einasti maður sem varð vitni að þessu ævintýri mun aldrei gleyma því!

Liverpool á tvo deildarleiki eftir. Liðið verður að vinna þá til að ná einu af Meistaradeildarsætunum. Það leit út fyrir jafntefli á the Hawthorns þegar leiktíminn var að fjara út. Þá kom Alisson til sögunnar. Leikmenn Liverpool verða að sjá svo um í síðustu tveimur leikjunum að þetta ævintýralega mark hljóti þá þýðingu sem það á skilið. Til þess þarf að vinna síðustu tvo leikina. Það má ekki láta þetta happ úr hendi sleppa!

West Bromwich Albion: Johnstone, Furlong, Ajayi, Bartley, Townsend, Phillips, Gallagher, Yokuslu (Livermore 75. mín.), Diangana (Maitland-Niles 73. mín.), Costa Pereira og Robson-Kanu (Grant 82. mín.). Ónotaðir varamenn: Robinson, Diagne, Peltier, Button, O'Shea og Gardner-Hickman.

Mark WBA:
Hal Robson-Kanu (15. mín.). 

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Phillips, R. Williams (Wijnaldum 84. mín.), Robertson, Thiago, Fabinho, Jones (Shaqiri 59. mín.), Salah, Firmino og Mané. Ónotaðir varamenn: Adrián, Tsimikas, Origi, Woodburn, Clarkson, N. Williams og Koumetio.

Mörk Liverpool: Mohamed Salah (33. mín.) og Alisson Becker (90. mín.).

Áhorfendur á The Hawthorns: Engir. 


Maður leiksins: Alisson Becker. Það skiptir engu máli hvað á eftir að draga á daga Alisson hér eftir. Hann verður alltaf talinn ódauðlegur í sögu Liverpool hér eftir! Sigurmark á síðustu andartökum gríðarlega mikilvægs leiks! Fyrsti markmaður Liverpool til að skora mark! Svo varði hann reyndar á mjög mikilvægum tímapunkti þegar rúmar tíu mínútur voru eftir. Eitt fallegasta ævintýri í sögu Liverpool FC!

Fróðleikur

- Alisson Becker varð fyrstur markmanna til að skora í gervallri sögu Liverpool Football Club. 

- Þetta var fyrsta markið sem hann skorar á keppnisferli sínum. 

- Mohamed Salah skoraði 31. mark sitt á keppnistímabilinu.

- Markið var númer 125 á ferli Mohamed hjá Liverpool. 

- Roberto Firmino var fyrirliði Liverpool í fyrsta sinn.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan