| Grétar Magnússon

Sigur !

Þrátt fyrir að enn og aftur þyrfti að breyta vörninni vegna meiðsla miðvarða vannst góður 2-0 sigur á Southampton. Vonin um að komast í fjórða sæti deildarinnar lifir, þó veik sé.

Þegar byrjunarliðið var tilkynnt kom semsagt í ljós að Ozan Kabak gat ekki verið með vegna meiðsla. Sömu sögu var að segja af James Milner, Naby Keita og Ben Davies. En við erum nú orðin vön því að sá síðastnefndi komist bara alls ekki í liðið, hver svosem ástæðan fyrir því er. Rhys Williams kom inn og skipaði vörnina ásamt þeim Phillips, Alexander-Arnold, Robertson og Alisson. Á miðjunni voru Thiago, Fabinho og Wijnaldum, frammi fékk svo Jota tækifæri á kostnað Firmino en Salah og Mané voru á sínum stað.

Gestirnir frá suðurströndinni héldu boltanum betur í byrjun leiks þó án þess að skapa sér hættuleg færi. Fyrsta markverða færið var hinsvegar heimamanna þegar Mané fékk langa sendingu innfyrir frá Alexander-Arnold og þrumaði að marki en skotið fór rétt yfir. Salah fékk svo fínt færi hægra megin í teignum en Fraser Forster varði vel þó færið hafi verið þröngt, uppúr hornspyrnu skallaði svo Nat Phillips rétt framhjá. Forster var svo aftur vel á verði þegar Jota skaut að marki eftir að hafa sólað nokkra varnarmenn Southampton. Salah var næstur á blað en Forster virtist vera kominn í stuð og hleypti engum boltum framhjá sér. Gini Wijnaldum náði svo skalla að marki eftir hornspyrnu en boltinn fór í slána og yfir, þarna var maður nú farinn að kannast við kunnuglegt stef sem hefur verið í gangi allt tímabilið. Færanýtingin slök og markramminnn að bjarga mótherjunum í þokkabót. Þegar hálftími var u.þ.b. liðinn fengu gestirnir svo úrvals færi þegar Nathan Tella fékk sendingu innfyrir hægra megin, hann var með heilmikið pláss og renndi boltanum inn á teiginn þar sem Che Adams var kominn einn gegn Alisson sem varði mjög vel. Alexander-Arnold náði boltanum en hann og Thiago gátu ekki ákveðið sig hvor ætti að taka boltann, Stuart Armstrong hirti hann af þeim, skaut að marki en Alisson var vel staðsettur og greip boltann.

Andartökum síðar lá boltinn í marki gestanna. Salah var með boltann úti fyrir vítateig vinstra megin og hann lyfti boltanum snyrtilega á fjærstöngina þar sem Mané skallaði í markið af stuttu færi. Við stuðningsmenn önduðum aðeins léttar. Það sem eftir lifði hálfleiks hélt Forster áfram að verja ágætlega í marki gestanna og Alisson þurfti að vera vel á verði þegar Tella náði skalla að marki frá markteig. Staðan í hálfleik 1-0 og við vitum nú að það er ekki næg forysta fyrir okkar menn ef miðað er við síðustu leiki.

Seinni hálfleikur var svo auðvitað taugatrekkjandi fyrir þá sem horfðu á, eftir því sem leið á náðu okkar menn ekki að bæta við marki og óttinn við að gestirnir myndu jafna varð nánast áþreifanlegur. Bæði lið fengu færi til að skora og við getum þakkað Alisson fyrir að hafa átt frábæran leik í markinu því færi Southampton manna voru nokkur alveg hreint ágæt. Það kom mark í lok leiks en sem betur fer var það réttu megin. Firmino (sem kom inná sem varamaður á 79. mínútu fyrir Jota) og Alexander-Arnold voru duglegir í pressunni á vallarhelming gestanna. Firmino náði boltanum og renndi honum inn á Thiago sem lék aðeins nær teignum og skaut hnitmiðuðu skoti í hægra hornið. Fyrsta mark hans fyrir félagið og því var að sjálfsögðu vel fagnað ásamt þeirri staðreynd að nú væri sigurinn í höfn!Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Phillips, R. Williams, Robertson, Thiago, Fabinho, Wijnaldum, Salah (Oxlade-Chamberlain, 87. mín.), Jota (Firmino, 79. mín.), Mané (Jones, 90+3. mín.). Ónotaðir varamenn: Adrián, Koumetio, N. Williams, Tsimikas, Shaqiri, Woodburn.

Mörk Liverpool: Sadio Mané (31. mín.) og Thiago (90. mín.).

Southampton: Forster, Walker-Pieters, Bednarek, Vestergaard, Stephens, Walcott (Diallo, 66. mín.), Ward-Prowse, Armstrong, Redmond, Adams (Djenepo, 79. mín.), Tella (Obafemi, 66. mín). Ónotaðir varamenn: McCarthy, Salisu, Ramsay, N'Lundulu, Ferry, Jankewitz.

Gult spjald: Nathan Redmond.

Maður leiksins: Augljóst val að þessu sinni. Alisson hélt markinu hreinu og varði allt sem á markið kom.

Jürgen Klopp: ,,Þeir voru vel skipulagðir og spiluðu af ákefð. Þeir áttu sín færi og besta færi þeirra í leiknum kom eftir mistök okkar en við áttum stign þrjú skilið. Við skoruðum gott mark í fyrri hálfleik en við erum eiginlega orðnir vanir því að klára svo ekki leikina eftir að komast yfir. Við þurftum því að berjast áfram og skoruðum flott mark í lokin sem var mikill léttir. Hvað sæti meðal efstu fjögurra liðanna varðar má segja að við séum enn í baráttunni. Þetta er ekki óyfirstíganlegt en erfitt. Við höldum áfram að reyna og sjáum hvert það leiðir okkur."

Fróðleikur:

- Liverpool héldu markinu hreinu á Anfield í fyrsta sinn í níu leikjum.

- Mohamed Salah lagði upp mark Sadio Mané, kunnugleg sjón vissulega en þó aðeins í fyrsta sinn á tímabilinu sem það gerist.

- Thiago skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið og varð þar með leikmaður númer 140 til að skora úrvalsdeildarmark fyrir Liverpool.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan