| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Það er risaslagur á Spáni í kvöld þegar okkar menn mæta Real Madrid í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar. Leikurinn hefst klukkan 19:00, þriðjudaginn 6. apríl.

Aldrei þessu vant er bara allt gott að frétta af meiðslum leikmanna Liverpool og enginn hefur kennt sér meins eftir geggjaðan 0-3 sigur á Arsenal í fyrsta deildarleik eftir landsleikjahlé. Það verður því fróðlegt að sjá hvernig Jürgen Klopp stillir upp liðinu í þessum erfiða útileik enda bankar Diogo Jota fast á dyrnar eftir frábæra innkomu í síðasta leik og spurning hvort að Firmino setjist nú á bekkinn. Það er einnig líklegt að Gini Wijnaldum byrji þennan leik á kostnað James Milner en að öðru leyti býst ég við að Klopp hrófli ekki meira við byrjunarliðinu. Hjá Real er hinsvegar meira að frétta af meiðslavandræðum og ber þar helst að nefna að fyrirliðinn Sergio Ramos verður ekki með og missir hann væntanlega af seinni leiknum líka í næstu viku. Þá er einnig staðfest að Eden Hazard er ekki í 21 manna leikmannahópnum fyrir leikinn sem og Dani Carvajal en úrúgvæski miðjumaðurinn Federico Valverde er hinsvegar klár í slaginn á ný eftir meiðsli.

Ýmislegt hefur breyst síðan þessi lið mættust í úrslitaleik Meistaradeildar árið 2018 þar sem Real tryggðu sér sigur þriðja árið í röð og skildu svo sannarlega eftir óbragð í munni okkar Liverpool manna eftir þann leik. Fólskubrot Ramos á Salah ber þar auðvitað hæst og svo kórónaði Lloris Karius alltsaman með sínu klúðri þó það hafi reyndar verið staðfest að áðurnefndur Ramos hafi gefið honum vægan heilahristing fyrr í leiknum. Eftir þessi vonbrigði sýndu okkar menn hvað í þeim býr með því að vinna Meistaradeildina árið eftir og auðvitað deildina árið þar á eftir. Einhvernveginn finnst manni eins og að lið Real hafi veikst töluvert síðan liðin mættust síðast en við nánari skoðun má sjá að bara tveir leikmenn sem byrjuðu leikinn árið 2018 eru ekki lengur hjá félaginu (C. Ronaldo og K. Navas). Veikingin er ekki meiri en svo að leikmenn liðsins eru bara þrem árum eldri nú og Karim Benzema hefur heldur betur stigið upp eftir að hann komst úr skugganum á Ronaldo. Luka Modric, sem er orðinn 36 ára gamall hefur ekki slegið slöku við og er enn lykilmaður á miðjunni. Það má því vara sig á því að vanmeta spænska liðið ef einhver var þá farinn að gera það, þetta er ennþá gríðarlega sterkt lið með mikla reynslu.

Það er frekar erfitt að spá fyrir um þennan leik. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Kabak og Phillips tekst að glíma við Benzema sem er einn besti sóknarmaður heims, reynsla þessara tveggja er ekki beint að þvælast fyrir þeim á meðan Benzema kann öll trixin í bókinni. Eitthvað segir mér samt að okkar mönnum takist að ná í fín úrslit í þessum leik og við skulum segja að lokatölur verði 1-1 í hörkuleik.

Fróðleikur:

- Mohamed Salah er markahæstur okkar manna í Meistaradeildinni það sem af er með fimm mörk og 26 alls á tímabilinu.

- Karim Benzema hefur einnig skorað fimm mörk í Meistaradeildinni það sem af er tímabils og 24 mörk í öllum keppnum.

- Leikurinn fer fram á Alfredo Di Stefano leikvanginum þar sem vara- og unglingalið Real Madrid leika vanalega, vegna þess að endurbætur standa yfir á Santiago Bernabeu leikvanginum.

- Alex Oxlade-Chamberlain gæti spilað sinn 100. leik fyrir félagið í öllum keppnum.

- Þeir Gini Wijnaldum og James Milner eru á gulu spjaldi og verða því í banni í næstu viku fái þeir að líta gult spjald í kvöld.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan