| Grétar Magnússon

Greiðslur fyrir Harvey Elliott

Úrskurðað var í gær að Liverpool þarf að greiða Fulham allt að 4,3 milljónir punda fyrir Harvey Elliott en hann yfirgaf uppeldisfélag sitt í júlí árið 2019, þá 16 ára að aldri.

Félögin náðu ekki að komast að samkomulagi um bætur sem Liverpool þurfti að greiða og því fór málið fyrir ákveðna nefnd í þessum málum. Liverpool þarf að borga 1,2 milljónir punda strax ásamt 300.000 punda greiðslu þar sem hann hefur nú þegar skrifað undir sinn fyrsta atvinnumannasamning. Skrifi hann undir annan slíkan, þarf Liverpool að greiða 200.000 pund í viðbót.



Séu allar greiðslur taldar með gæti upphæðin orðið 4.300.000 pund en til þess þarf Elliott að spila 100 leiki með aðalliði Liverpool og leika einn leik með enska landsliðinu. Fulham fá einnig 20% af söluandvirði Elliott komi til þess að Liverpool selji hann frá sér.

Liverpool hafði upphaflega boðið Fulham 850.000 pund fyrir Elliott en Lundúnaliðinu þótti það tilboð móðgun og vildu fá 10 milljónir punda greiðslu strax og svo aðrar 10 til viðbótar með skilyrðum um fjölda leikja og slíkt.

Elliott hefur verið á láni hjá Blackburn Rovers í næst efstu deild Englands allt þetta tímabil og staðið sig mjög vel. Skorað fjögur mörk og lagt upp önnur níu í 24 leikjum. Hann hefur til þessa komið við sögu í átta leikjum með Liverpool og er yngsti byrjunarliðs leikmaðurinn í sögu félagsins.

Liverpool hafa sent frá sér tilkynningu um málið og virða niðurstöðu nefndarinnar. Málinu er því lokið og við vonum að Elliott standi undir þeim væntingum sem til hans eru gerðar. Ef marka má frammistöðu hans til þessa á tímabilinu er félagið með ansi efnilegan leikmann á sínum snærum en margt þarf að ganga upp til að hann verði framtíðarmaður í Liverpool liðinu.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan