| Sf. Gutt

Tap í fyrsta leik ársins


Englandsmeistarar Liverpool hófu árið 2021 með því að tapa. Liverpool tapaði 1:0 fyrir Southampton á útivelli og annan leikinn í röð náðu Englandsmeistararnir ekki að skora mark. 

Thiago Alcantara kom inn á miðjuna og Jordan Henderson var færður aftur í stöðu miðvarðar. Þessi ráðstöfun kom á óvart enda hafa ungliðarnir, sem hafa spilað sem miðverðir, staðið sig vel. 

Leikurinn hefði ekki getað byrjað verr hjá Liverpool. Southampton fékk aukaspyrnu rétt utan við vítateig vinstra megin. James Ward-Prowse lyfti boltanum yfir varnarvegg Liverpool. Trent Alexander-Arnold missti af Danny Ings sem náði að lyfta boltanum yfir Alisson Becker í stöngina og inn í markið í horninu fjær. Kostulegt mark. Vel útfærð aukaspyrna en vörn Liverpool svaf á verðinum og svo fylgdi góður skammtur af heppni með þessu hjá Southampton. Aðeins tvær mínútur búnar!

Liverpool gekk illa að komast inn í leikinn og þó svo liðið væri mikið með boltann hvorki né rak. Þegar fimm mínútur voru til hálfleiks missti Liverpool boltann. Nathan Tella lék fram og skaut frá rétt utan teigs en boltinn fór rétt framhjá.  Á lokamínútu hálfleiksins fékk Liverpool loksins færi. Sadio Mané sendi fyrir frá vinstri á Mohamed Salah sem skallaði yfir.  

Það var meiri kraftur í Liverpool eftir hlé og liðið sótti linnulaust. Það gekk þó ekkert að skapa færi. Georginio Wijnaldum átti reyndar skot sem fór í hendi á heimamanni en til furðu, eða ekki, var ekki dæmt víti. Tvö tilköll til að fá víti fengu ekki heldur undirtektir eftir að heimamenn höfðu sótt að Mohamed og Sadio. Í báðum tilfellum hefði vel verið hægt að dæma víti. En Liverpool náði loksins skoti á markramma Southampton þegar stundarfjórðungur var eftir en skot Sadio var ekki fast og var varið af öryggi. Þegar sjö mínútur voru eftir náðu heimamenn skyndisókn. Yan Valery komst framhjá Alisson sem kom út úr vítateignum en Jordan bjargaði skoti hans við marklínuna. Ekki gekk rófan og Liverpool tapaði! 

Liverpool spilaði ekki vel frekar en í síðustu tveimur leikjum. Þegar illa gengur er djöfullegt að hlutirnir falli ekki með og að fá ekki víti í leiknum er rannsóknarefni. Það stendur þó upp úr að Liverpool þarf, þó liðið leiði deildina, að rífa sig í gang. Nokkur lið eru skammt undan. Ef verja á titilinn þarf að snúa gengi liðsins við og það strax. Það eru þó aðeins þrír leikir frá því liðið vann metsigur á útivelli. Áfram með smjörið!

Mark Southampton: Danny Ings (2. mín.).

Gul spjöld: Ryan Bertrand.

Gul spjöld: Thiago Alcantara, Andrew Robertson og Xherdan Shaqiri.

Maður leiksins: Sadio Mané reyndi hvað hann gat til að ógna vörn Southampton en með litlum árangri. Senegalinn var alltaf að. 

Jürgen Klopp: Við getum breytt því hvernig við spiluðum. Við munum einbeita okkur að breyta því til betri vegar."Fróðleikur

- Liverpool tapaði í annað sinn í deildinni. 

- Liverpool hefur nú ekki skorað í tveimur deildarleikjum í röð. Það gerðist síðast vorið 2018. 

- James Milner spilaði á 35. afmælisdegi sínum. 

- Danny Ings skoraði 50. mark sitt í efstu deild. Hann skoraði þrjú fyrir Liverpool. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan