| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Það er komið að síðasta heimaleiknum í riðlakeppni Meistaradeildar. Hollenska liðið Ajax er mótherjinn og okkar mönnum dugar stig til að tryggja sig í 16-liða úrslitin.

Undanfarin ár hefur það verið hálfgerð brekka fyrir Liverpool að koma sér upp úr sínum riðli en í ár byrjuðu okkar menn heldur betur vel og unnu fyrstu þrjá leiki sína. Bakslag, kannski skiljanlegt útaf meiðslum og leikjaálagi, kom þó í síðustu viku þegar Atalanta mættu á Anfield og hirtu stigin þrjú sem í boði voru. Nú má ekki misstíga sig aftur en það verður auðvitað fróðlegt að sjá hvernig Jürgen Klopp stillir upp í kvöld.

Eins og allir vita er meiðslalistinn langur og sá nýjasti á þeim lista er James Milner sem klárlega verður ekki með. Jordan Henderson spilaði seinni hálfleikinn gegn Brighton um helgina og er sem betur fer leikfær enda fer miðjan að verða ansi þunnskipuð ef svona heldur áfram. Gini Wijnaldum hefur svo nánast spilað alla leiki það sem af er tímabili plús alla landsleiki Hollendinga og hann þarf að fá hvíld fyrr en seinna. En það gerist væntanlega ekki í kvöld þegar svona mikilvægur leikur er fyrir dyrum. Joel Matip var hvíldur um helgina, skv. fréttum frá félaginu var það ekki vegna meiðsla og hann ætti því að stilla sér upp í miðverði ásamt Fabinho. En staðan á Fabinho er reyndar þannig að hann hefur spilað fullmikið, nýkominn til baka úr meiðslum og því er spurning hvort tekin verði áhætta með hann. Mohamed Salah var tekinn útaf snemma gegn Brighton og hlýtur að vera æstur í að skora í þessum leik þar sem hann virtist vel pirraður yfir því að vera tekinn útaf um helgina. Sadio Mané byrjaði á bekknum og hlýtur að byrja í kvöld. Þetta mun alltsaman koma í ljós þegar nær dregur leik en mín spá fyrir byrjunarlið kvöldsins er svona:


Ajax hafa verið á góðu skriði undanfarið og sigruðu síðasta leik sinn í deildinni 0-5 á útivelli gegn Emmen og náðu einnig að hvíla eitthvað af sínum helstu kanónum. Eftir tíu leiki í hollensku deildinni er Ajax á toppnum með 27 stig af 30 mögulegum og markatöluna 42-5, sem verður að teljast ansi gott. Þeir ætla sér að mæta á Anfield og hirða stigin þrjú sem í boði eru. Það versta er að einhver ónota tilfinning læðist að manni að það geti alveg eins gerst miðað við vandræði Liverpool undanfarið.

Spáin að þessu sinni er sú að áframhald í keppninni verður tryggt með 1-1 jafntefli. Liverpool skorar fyrsta mark leiksins en gestirnir jafna skömmu síðar. Lokamínúturnar verða svo ansi stressandi þegar hollenska liðið reynir allt hvað það getur til að skora sigurmarkið á móti þreyttum rauðliðum, en tekst það sem betur fer ekki.

Fróðleikur:

- Diogo Jota er markahæstur hjá Liverpool í Meistaradeild það sem af er með fjögur mörk.

- Markaskorun Ajax í riðlakeppninni hefur dreifst nokkuð jafnt en Dusan Tadic hefur hingað til skorað tvö mörk á meðan fimm aðrir leikmenn eru með eitt mark hver.

- Fyrir leik kvöldsins eru okkar menn á toppi riðilsins með níu stig, Ajax hafa sjö stig.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan