| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Liverpool vs Sheffield United

Komið er að næsta deildarleik eftir hinn grannaslaginn um síðustu helgi. Leik sem Liverpool átti með réttu að vinna og leik sem einn allra besti leikmaður Liverpool og deildarinnar meiddist illa í. Svo illa að hann verður frá verkum í nokkra mánuði. Hvernig gat það gerst að Jordan Pickford skyldi leggja í svona atlögu að Virgil van Dijk? Hvernig gat það gerst að Jordan var ekki rekinn af velli? Hvernig gat það gerst að sigurmark Liverpool skyldu vera dæmt af? Stuðningsmenn Liverpool og reyndar stór hluti knattspyrnuáhugamanna um allan heim veltu þessum spurningum fyrir sér eftir leikinn og jafnvel fram á þennan dag og eflaust lengur. Ennþá óskast almennileg svör!

Það svo sem þýðir ekki nokkurn skapaðan hlut, með þetta frekar en annað, að ergja sig yfir því sem orðið er. En eftir stendur að þessi myndbandsdómgæsla er mislukkuð og hún hefur skaðað íþróttina. Með það hafði ég rétt fyrir mér. Það er alltaf gaman að hafa rétt fyrir sér en ég er ekkert sérstaklega ánægður með að ég skyldi hafa rétt fyrir mér með þetta. 


En áfram með smjörið! Liverpool er með tveimur stigum minna en liðið ætti að hafa og Virgil van Dijk spilar ekki með Liverpool næstu mánuði. Þessu verður ekki breytt.  Jákvætt var að Liverpool spilaði mjög vel gegn Everton og hefur nú leikið heilan áratug gegn þeim Bláu án þess að tapa! Mikið afrek!


Reyndar er Liverpool búið að leika einn leik eftir leikinn við Everton. Liðið sýndi styrk og þrautsegju í Amsterdam og vann Ajax 0:1 í Meistaradeildinni. Mjög vel af sér vikið. Fabinho Tavarez þótti leysa stöðu Vigil með sóma og víst hefur Brasilíumaðurinn spilað vel sem miðvörður þegar hann hefur verið settur í þá stöðu. Sem fyrr er það þannig að þeir sem spila leikina eru mikilvægustu mennirnir á þeim tímapunkti! Maður kemur í manns stað!

Liverpool mætir Sheffield United á Anfield Road annað kvöld. Sheffield United kom mjög á óvart á síðasta keppnistímabili. Liðinu var ekki spáð góðu gengi en það sýndi og sannaði að það gat vel spjarað sig í efstu deild. Liðið var lengst af meðal efstu liða og endaði þar. Liðið hefur átt erfitt uppdráttar frá því í sumar og nú er það eitt þriggja með aðeins eitt stig.


Liverpool ætti því að geta unnið góðan sigur. En Sheffield United er þrautseigt lið og þar á bæ berjast menn þó illa gangi í leikjum. Liverpool þurfti sannarlega að hafa fyrir sigrunum gegn liðinu á síðasta keppnistímabili en þeir höfðust! Liverpool vinnur 3:0 sigur. Sadio Mané skorar tvö mörk og Diogo Jota eitt!

YNWA!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan