| Sf. Gutt

Stórsigur í æfingaleikLiverpool vann stórsigur 7:2 á Blackpool í æfingaleik á Anfield í dag. Liverpool lenti tveimur mörkum undir en sneri taflinu hressilega við eftir hálfleik. 


CJ Hamilton og Jerry Yates, sem skoraði úr víti, komu gestunum yfir. Vítið var dæmt á Alisson Becker sem braut klaufalega af sér þegar engin hætta var á ferð. Liverpool var í vandræðum lengi vel en stuttu fyrir hálfleik kom Joël  Matip Liverpool inn í leikinn með hörkuskallaskalla eftir fyrirgjöf James Milner. Þetta var fyrsti leikur hans eftir meiðslin sem hann varð fyrir í sumar.  

Englandsmeistararnir tóku öll völd í síðari hálfleik og spilaði liðið mun betur en fyrir hlé. Sadio Mané og Roberto Firmino skoruðu með stuttu millibili strax eftir hlé. Sadio skoraði af stuttu færi þegar hann fylgdi eftir eigin skoti sem fór í þverslá. Roberto skoraði með laglegri hælspyrnu eftir sendingu Takumi Minamino. Harvey Elliott, sem kom inn á sem varamaður, og Takumi sáu um tvö næstu mörk. Skot Harvey fór í stöng og inn. Takumi skoraði úr miðjum vítateig eftir sendingu Roberto. Undir lokin skoruðu svo varamennirnir Divock Origi og Sepp van den Berg. Báðir skoruðu af stuttu færi. Curtis Jones, sem kom inn á, lagði upp markið fyir Divock. Sepp skoraði með skalla eftir að Harvey hafði lyft boltanum fyrir markið. Stórsigur en Liverpool lék alls ekki nógu vel í fyrri hálfleik en þeim mun betur í þeim síðari. 


Neil Critchley, fyrrum þjálfari hjá Liverpool, er framkvæmdastjóri Blackpool. Einn leikmanna Blackpool, Jordan Williams, ólst upp hjá Liverpool. Hann er nýkominn til Blackpool. Jordan lék einn leik með aðalliði Liverpool. 

Liverpool: Alisson, Hoever, Matip, Koumetio, Milner, Fabinho, Keita, Minamino, Mané, Salah og Firmino. Varamenn: Adrián, Karius, Jones, Origi, Phillips, Clarkson, Elliott og Van den Berg.

Mörk Liverpool:  Joël  Matip (43. mín.), Sadio Mané (52. mín.), Roberto Firmino (54. mín.), Harvey Elliott (69. mín.), Takumi Minamino (71. mín.), Divock Origi (85. mín.) og Sepp van der Berg (88. mín.). 

Mörk Blackpool: CJ Hamilton (15. mín.) og Jerry Yates, víti, (31. mín.).


Æfingaleikjum Liverpool er þar með lokið. Liverpool vann Stuttgart og svo aftur í dag. Liðið gerði jafntefli við Red Bull. Svo var það Skjaldarleikurinn sem tapaðist í vítaspyrnukeppni. Trúlega má segja hann blöndu af æfingaleik og alvöru. Landsliðsmenn Liverpool eru nú að spila víða um Evrópu. Deildarkeppnin hefst svo eftir viku. Þá hefst alvaran fyrir alvöru!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan