| Sf. Gutt

Klaufalegt tap


Liverpool tapaði þriðja deildarleik sínum á leiktíðinni. Liðið tapaði 2:1 á furðulegan hátt fyrir Arsenal í London. Tapið var mjög klaufalegt svo ekki sé meira sagt. Bæði mörk Arsenal voru þeim færð á silfurfati. 

Liverpool stillti upp sínu sterkasta liði og byrjaði leikinn mjög vel. Snemma leiks ætlaði markmaður Arsenal að sparka frá marki. Það tókst ekki betur en svo að hann sparkaði boltanum í Roberto Firmino og af honum fór boltinn í stöngina og framhjá. Liverpool komst svo yfir á 20. mínútu. Boltinn vannst á miðjunni og eftir gott spil fékk Andrew Robertson boltann vinstra megin. Hann sendi boltann fyrir á Sadio Mané sem skoraði örugglega frá markteig.

Liverpool réði lögum og lofum en upp úr þurru hleyptu þeir Arsenal inn í leikinn á 32. mínútu. Eftir hroðaleg mistök Virgil van Dijk fékk Alexandre Lacazette boltann. Hann lét ekki happ úr hendi sleppa og skoraði. Mínútu fyrir hálfleik átti Alisson Becker kæruleysislega sendingu. Alexandre náði boltanum, gaf á Reiss Nelson sem skoraði af stuttu færi. Arsenal komnir yfir eftir hroðalega mistök tveggja af traustustu leikmönnum Liverpool. Ótrúlega staða í hálfleik miðað við yfirburði Liverpool sem voru algjörir. 

Liverpool sótti frá upphafi til enda í síðari hálfleik. Arsenal lá í vörn og varði forystu sína með kjafti og klóm. Emiliano Martinez varði vel frá Mohamed Salah og í viðbótartíma átti Trent Alexander-Arnold skot utan teigs sem fór í varnarmenn og stefndi í markið en Emiliano náði að klóra í boltann og verja. Þetta tryggði sigur Arsenal. 

Liverpool spilaði býsna vel á köflum og hafði mikla yfirburði ef litið er til þess hversu mikið liðið var með boltann. Arsenal skoraði til dæmis úr einu skotum sínum á rammann. Verst var að tapa með svona slæmum mistökum. En meistaratitillinn er löngu tryggður og það er það sem mestu og öllu skiptir!

Arsenal: Martinez, Holding, Luiz, Tierney, Soares (Maitland-Niles 76. mín.), Torreira (Ceballos 57. mín.), Xhaka, Nelson (Willock 58. mín.), Pepe, Lacazette (Aubameyang 58. mín.) og Saka. Ónotaðir varamenn: Bellerin, Sokratis, Mustafi, Kolasinac og Macey.

Mörk Arsenal: Alexandre Lacazette (32. mín.) og Reiss Nelson (44. mín.).

Gult spjald: Lucas Torreira, Granit Xhaka og Dani Ceballos. 

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Van Dijk, Gomez, Robertson, Oxlade-Chamberlain (Keita 61. mín.), Fabinho, Wijnaldum (Shaqiri 83. mín.), Firmino (Minamino 61. mín.), Mané og Salah (Origi 83. mín.). Ónotaðir varamenn: Adrian, Lovren, Jones, Elliot og Williams.

Mark Liverpool: Sadio Mané (20. mín.).

Gult spjald: Trent Alexander-Arnold.

Maður leiksins: Naby Keita. Hann kom mjög sterkur til leiks og var drífandi á miðjunni.

Jürgen Klopp: Ég er vonsvikinn og reiður út af ákveðnum atriðum. Leikurinn var samt góður og viðhorf leikmanna var gott. En við slökuðum á einbeitingunni og þess vegna töpuðum við leiknum.  

Fróðleikur

- Þetta var þriðja deildartap Liverpool á leiktíðinni. 

- Liverpool getur nú ekki slegið stigamet. Manchester City á metið sem er 100 stig frá leiktíðinni 2017/18.

- Sadio Mané skoraði 21. mark sitt á leiktíðinni. 

- Mohamed Salah spilaði sinn 150. leik með Liverpool. Hann er búinn að skora 94 mörk.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan