| Sf. Gutt

Úr leik

Liverpool er úr leik í FA bikarnum eftir 2:0 tap fyrir Chelsea á Stamford Bridge. Slæmt tap en það þýðir ekki að fást um það.

Liði Liverpool var breytt eins og venja hefur verið fyrir leiki í FA bikarnum og aðeins Curtis Jones og Neco Williams fengu tækifæri af ungu leikmönnunum. Mohamed Salah og Roberto Firmino voru á bekknum en Sadio Mané hóf leikinn. 

Liverpool byrjaði vel og Sadio Mané fékk færi í teignum snemma leiks en hann náði ekki góðu skoti og boltinn fór beint á Kepa Arrizabalaga. Chelsea komst svo yfir á 11. mínútu. Willian átti fast skot úr teignum sem Adrián San Miguel varði vel. Hann hóf sókn með því að kasta út á Neco Williams. Hann spilaði aftur til baka og í kjölfarið missti Fabinho Tavarez boltann rétt fyrir utan vítateiginn. Willian fékk boltann og fékk frítt skot við vítateiginn. Skotið var fast en fór beint á Adrián og af hendi hans og í markið! Hroðaleg mistök. Fyrst hjá Fabinho og svo Adrián. Heimamenn komnir á bragðið!

Liverpool gaf ekkert eftir og eftir 20 mínútur trúði ekki nokkur maður því að Chelsea væri ennþá yfir. Kepa varði þá þrívegis af stuttu færi í sömu sókninni. Fyrst frá Sadio, svo Divock Origi og loks Curtis Jones. Algjörlega ótrúlegt! Um tíu mínútum seinna ógnaði Sadio aftur en Kepa varði enn einu sinni. Staðan óbreytt í hálfleik. 

Liverpool var meira með boltann eftir hlé en gekk illa að komast í færi. Chelsea voru miklu beinskeyttari og fengu góð færi. Eftir rétt rúman klukkutíma átti Mason Mount skot beint úr aukaspyrnu en boltinn fór í slána. Á 64. mínútu var Liverpool í sókn sem Chelsea braut á bak aftur. Ross Barkley fékk boltann á sínum eigin vallarhelmingi. Hann tók á rás fram að vítateig Liverpool þaðan sem hann reyndi skot. Ross smellhitti boltann og Adrián kom engum vörnum við. Heimamenn komnir tveimur mörkum yfir!

Pedro slapp einn í gegn litlu síðar en Adrián varði frá honum. Stundarfjórðungi fyrir leikslok átti Olivier Giroud skot sem Adrián varði meistaralega með því að slá boltann upp í þverslána. Roberto og Mohamed komu til leiks en Liverpool fékk ekki eitt einasta færi það sem eftir lifði leiks. Chelsea heldur áfram en Liverpool er úr leik! Enn eina leiktíðina kemst Liverpool alltof stutt í þessari merkilegu keppni. 

Chelsea: Arrizabalaga, Azpilicueta, Rüdiger, Zouma, Alonso, Kovacic (Mount 42. mín.), Gilmour, Barkley, Willian (Jorginho 51. mín.), Giroud (James 90. mín.) og Pedro. Ónotaðir varamenn: Caballero, Batshuayi, Tomori og Anjorin

Mörk Chelsea: Willian (13. mín.) og Ross Barkley (64. mín.).

Liverpool:
 Adrián, Williams, Gomez, van Dijk, Robertson, Lallana (Salah 80. mín.), Fabinho, Jones (Milner 70. mín.), Minamino, Mané og Origi (Firmino 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Lonergan, Oxlade-Chamberlain, Matip og Chirivella.

Gul spjöld: Fabinho Tavarez, James Milner og Sadio Mané.

Áhorfendur á Stamford Bridge: 40.103.

Maður leiksins:
Neco Williams. Ungi bakvörðurinn var mjög sterkur í leiknum. Hann lék vel bæði í vörn og sókn. Þessi ungi Veilsverji er geysilega efnilegur.  

Jürgen Klopp:
 Við spiluðum mjög illa á móti Watford en þessi frammistaða var ekki slæm. Ég hef ekki áhyggjur af frammistöðunni í kvöld. Svona er knattspyrnan. Þegar maður gerir alvarleg mistök þá tapast leikir.

Fróðleikur

- Liverpool hefur aldrei komist lengra en í 5. umferð FA bikarsins á valdatíð Jürgen Klopp.

- Liverpool hefur nú tapað þremur af síðustu fjórum leikjum. 

- Fabinho Tavarez lék sinn 70. leik með Liverpool. Hann hefur skorað tvö mörk. 



 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan