| Grétar Magnússon

Sigur á erkifjendunum

Okkar menn unnu yndislegan 2-0 sigur á Manchester United í dag, lokatölur 2-0 og mörkin voru skoruð snemma og mjög mjög seint í leiknum. Sextán (!) stiga forysta Liverpool á toppnum er staðreynd eftir leiki helgarinnar.

Byrjunarliðið kom auðvitað ekkert á óvart hjá Jürgen Klopp og ánægjulegt var að sjá Fabinho og Joel Matip setjast á bekkinn. Alex Oxlade-Chamberlain byrjaði á miðjunni ásamt Henderson og Wijnaldum, eins og áður sagði voru aðrar stöður eins og við var búist. United gátu ekki náð Marcus Rashford í stand í tæka tíð og byrjuðu með Anthony Martial uppá topp. Varnarlega stilltu þeir upp að því er virtist Luke Shaw í þriggja miðvarða vörn með Wan-Bissaka og Williams í bakvarða stöðunum. Ljóst að Óli Gunnar Solskjaer hugðist leika svipaðan leik og fyrr á tímabilinu með margra manna vörn og pirra Liverpool menn með því.

Leikurinn byrjaði kannski svolítið í stressi því bæði lið voru ekki að finna samherja með sendingum sínum og boltinn gekk liða á milli. En sem betur fer róaði Virgil van Dijk taugarnar á 14. mínútu. Alexander-Arnold tók hornspyrnu frá hægri og Hollendingurinn stóri skallaði boltann í netið frá markteig. Varnarleikur United manna ekki burðugur þarna og svo virtist sem að Brandon Williams væri að passa van Dijk en Harry Maguire reyndi var einnig í baráttunni en auðvitað vann besti maðurinn baráttuna og staðan orðin 1-0. Ekki þurftum við að bíða lengi eftir öðru marki, á 25. mínútu fengu heimamenn aðra hornspyrnu og allt virtist vera að renna út í sandinn þegar Salah sendi háan bolta inná markteig. Van Dijk hoppaði upp í baráttu við de Gea og Spánverjinn náði ekki til boltans. Varnarmaður United reyndi að hreinsa frá en Mané vann boltann, sendi hann á Firmino sem skaut hnitmiðuðu skoti í fjærhornið. Sjónvarpsdómgæslan fór í gang þrátt fyrir að Craig Pawson, dómari, hefði ekki séð ástæðu til að dæma á van Dijk. Markið var afturkallað og staðan enn 1-0.

VAR tók annað mark af okkar mönnum þegar Wijnaldum fékk sendingu innfyrir en var rangstæður, það var þó ansi tæpt en lítið við því að segja þannig séð. Alls fengu okkar menn átta hornspyrnur í fyrri hálfleik og yfirburðirnir heilt yfir þó nokkrir en bara eins marks forysta enn sem komið var.Yfirburðirnir héldu áfram þegar seinni hálfleikur byrjaði og de Gea varði glæsilega flott skot frá Henderson sem stefndi í hornið fjær. Spánverjinn náði að koma nóg við boltann þannig að hann small í stönginni. Gestirnir náðu eitthvað aðeins að koma skipulagi á sinn leik eftir því sem leið á hálfleikinn og besta færi þeirra fékk Martial þegar hann var nánast einn á teignum og þrumaði boltanum vel yfir markið. United voru meira með boltann og eilítið grimmari í sínum aðgerðum en það skapaðist sem betur fer ekki mikil hætta uppvið mark Liverpool. Pressan varð þó alltaf meiri og meiri eftir því sem leið á leikinn og margir stuðningsmenn heimamanna höfðu það á tilfinningunni að það gæti nú alveg lekið inn mark til að jafna leikinn. En Mohamed Salah sá til þess að svo varð ekki. Hornspyrna frá United mönnum skapaði ekki hættu í uppbótartíma og Alisson var fljótur að átta sig þegar hann greip boltann. Þrumaði honum upp völlinn á Salah sem var kominn einn í gegn. Varnarmaður United reyndi að trufla hann en Salah er kannski smár en afskaplega knár, hélt kúlinu og skaut boltanum framhjá de Gea. Niðurstaðan 2-0 sigur sem var auðvitað gríðarlega vel fagnað á Anfield !

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Gomez, van Dijk, Robertson, Henderson, Wijnaldum, Oxlade-Chamberlain (Lallana, 66. mín.), Salah, Mané (Fabinho, 83. mín.), Firmino (Origi, 83. mín.). Ónotaðir varamenn: Adrián, Matip, Jones, Minamino.

Mörk Liverpool: Virgil van Dijk (14. mín.) og Mohamed Salah (90+3 mín.).

Gult spjald: Salah.

Manchester United: de Gea, Lindelöf, Maguire, Shaw (Dalot, 87. mín.), Wan-Bissaka, Fred, Matic, Williams (Greenwood, 74. mín.), Pereira (Mata, 74. mín.), James, Martial. Ónotaðir varamenn: Romero, Bailly, Jones, Lingard.

Gul spjöld: de Gea, Shaw og Matic.

Áhorfendur á Anfield: 52.916.

Maður leiksins: Virgil van Dijk setti tóninn snemma leiks með flottu marki og stóð sig eins og venjulega frábærlega í vörninni. Hélt ró sinni þegar United ógnuðu með fyrirgjöfum og hreinsaði frá og stýrði vörninni af sinni alkunnu snilld.

Jürgen Klopp: ,,Þetta er mikill léttir, ég var mjög ánægður með 85-90% af leiknum, við vorum mjög góðir. Við stýrðum leiknum, sérstaklega í fyrri hálfleik. Orkan sem leikmenn settu í leikinn var ótrúleg. Á venjulegum degi hefðum við skorað þrjú mörk í fyrri hálfleik og fram að 65. mínútu hefðum við átt að vera búnir að auka forystuna."

,,En United eru auðvitað gott lið, spiluðu aðeins meiri fótbolta og við þurftum að verjast. Það voru smá mistök hér og þar, við notuðum ekki boltann nógu vel og leikurinn var opinn. En svo skoruðum við einstaklega flott mark í lokin og tilfinningin var góð."

Fróðleikur:

- Mohamed Salah skoraði sitt fyrsta mark gegn Manchester United.

- Salah jafnaði þar með Sadio Mané í markaskorun í deildinni sem og öllum keppnum. Báðir hafa skorað 11 mörk í deild og 15 alls.

- Tveir sigurleikir hafa náðst í röð gegn United á Anfield en síðast náðist þegar þegar þrír leikir unnust í röð frá september 2008 til mars 2011.

- Liverpool varð fyrsta liðið síðan Arsenal árið 2001-02 til að skora í fyrstu 22 leikjum tímabilsins.

- Liðið hefur haldið hreinu í síðustu sjö leikjum í deildinni, það hefur ekki gerst síðan árið 2006.

- Alisson átti stoðsendingu á Salah í seinna marki leiksins en síðast þegar markmaður félagsins lagði upp mark var það árið 2010 þegar Pepe Reina lagði upp mark gegn Sunderland.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan