| Sf. Gutt

Ótrúleg kvöldstund!


Enn ein ótrúleg kvöldstund á Anfield Road bættist í annála Liverpool Football Club. Evrópumeistararnir komust áfram í Deildarbikarnum eftir 5:5 tíu marka jafntefli og 5:4 vítaspyrnusigur gegn Arsenal. 

Liverpool fékk óskabyrjun og náði forystu á 6. mínútu. Alex Oxlade-Chamberlain átti þá fyrirgjöf frá hægri. Shkodran Mustafi renndi sér á boltann og ætlaði að bjarga en sendi þess í stað boltann í eigið mark. Liverpool spilaði mjög vel í byrjun en Arsenal jafnaði á 19. mínútu. Alex missti boltann á miðjunni og eftir að  Caoimhin Kelleher hafði varið af stuttu færi fékk Lucas Torreira boltann eftir frákastið og skoraði. Markið hefði þó ekki átt að standa vegna rangstöðu. Sjö mínútum seinna skoraði Arsenal aftur. Vörn Liverpool svaf á verðinum eftir aukaspyrnu við vítateiginn og þó svo að Caoimhin næði að verja vel varð marki ekki forðað því Gabriel Martinelli náði frákastinu og skoraði af stuttu færi. Tíu mínútum seinna misstu leikmenn Liverpool boltann í öftustu vörn og Gabriel skoraði aftur við markteiginn. 

Liverpool var komið í vonda stöðu en komst aftur inn í leikinn á 43. mínútu þegar Harvey Elliott var felldur í vítateignum og dæmt var víti. James Milner tók vítið og skoraði af öryggi eins og hans er von og vísa. Liverpool hefði svo átt að jafna á lokaandartökum hálfleiksins en Divock Origi skallaði yfir úr upplögðu færi. 

Kannski héldu einhverjir að menn myndu róast í síðari hálfleik en þeir hinir sömu höfðu rangt fyrir sér. Eftir níu mínútur náði Arsenal aftur tveggja marka forystu. James Milner átti of lausa sendingu aftur á Caoimhin. Arsenal nýtti sér mistökin og Ainsley Maitland-Niles skoraði af stuttu færi eftir góða sendingu Mesut Ozil. Fjórða markið sem vörn Liverpool færði Arsenal á silfurfati. Evrópumeistararnir lögðu ekki árar í bát þótt útlitið væri svart og fjórum mínútum seinna náði Alex Oxlade-Chamberlain boltanum af varnarmanni rétt utan við vítateiginn. Hann komst fram fyrir mótherjann og þrykkti boltanum svo á lofti upp undir þverslána fyrir framan Kop stúkuna. Frábært skot hjá Alex! Fjórum mínútum seinna jafnaði Liverpool metin. Varamaðurinn Curtis Jones sendi fram á Divock Origi sem sneri baki í markið við vítateigslínuna. Belginn tók snilldarlega við boltanum, sneri sér eldsnöggt við og þrumaði í markið. Staðan jöfn og átta mörk komin! Það var rétt svo að áhorfendur hefðu tölu á mörkunum!

Stuðningsmenn Liverpool gerðu sér nú vonir um að Rauði herinn næði frumkvæðinu en svo varð ekki. Á 70. mínútu náði Joe Willock bylmingsskoti af um 30 metra færi sem Caoimhin átti ekki möguleika á að verja. Enn voru Skytturnar komnar yfir. Leikmenn Liverpool reyndu hvað þeir gátu til að jafna en ekkert gekk. Venjulegur leiktími var liðinn en það var ekki allt búið enn. Neco Williams fékk boltann hægra megin og gaf góða sendingu fyrir markið. Við vítapunktinn henti Divock sér á loft og klippti boltann í markið. Allt gekk af göflunum! Magnað mark hjá Divock og það mátti ekki seinna vera því nokkrum andartökum seinna var flautað til leiksloka. 

Eins og reglur Deildarbikarsins eru orðnar var ekki leikin framlenging heldur farið í vítaspyrnukeppni sem fór fram fyrir framan Kop stúkuna. James Milner, Adam Lallana og Rhian Brewster skoruðu úr fyrstu þremur spyrnum Liverpool. Það sama gerðu þeir Héctor Bellerín, Mattéo Guendouzi og Gabriel Martinelli fyrir Skytturnar. Dani Ceballos tók fjórðu spyrnu Arsenal og skaut föstu skoti úti við stöng en Caoimhin Kelleher sá við honum og varði frábærlega. Divock Origi og Ainsley Maitland-Niles skoruðu úr næstu spyrnum. Staðan 4:4 en Liverpool átti eina spyrnu eftir. Það stóð upp á Curtis Jones að taka hana. Unglingurinn var ískaldur og skoraði með föstu skoti í stöng og inn vinstra megin. Stuðningsmenn Liverpool trylltust af fögnuði. Rauði herinn heldur áfram í Deildarbikarnum!

Ótrúleg kvöldstund á Anfield Road! Ekkert nýtt í því en þessi verður lengi í minnum höfð. Tíu mörk og vítaspyrnukeppni þar sem tveir af ungliðum Liverpool réðu úrslitum. Fullur völlur og rafmagnað andrúmsloft. Unglingarnir sem voru að taka sín fyrstu skref hjá Liverpool eiga aldrei eftir að gleyma þessu kvöldi!

Mörk Liverpool: Shkodran Mustafi, sm, (6. mín.), James Milner, víti, (43. mín.), Alex Oxlade-Chamberlain (58. mín.) og Divock Origi (62. og 90. mín.).

Mörk Liverpool í vítaspyrnukeppninni: James Milner, Adam Lallana, Rhian Brewster, Divock Origi og Curtis Jones. 

Gul spjöld: Rhian Brewster og Adam Lallana. 

Mörk Arsenal: 
Lucas Torreira (19. mín.), Gabriel Martinelli (26. og 36. mín.),  Ainsley Maitland-Niles (54. mín.) og Joe Willock (70. mín.).

Mörk Arsenal í vítaspyrnukeppninni: Héctor Bellerín, Mattéo Guendouzi, Gabriel Martinelli og Ainsley Maitland-Niles. Dani Ceballos mistókst að skora. 

Gul spjöld: Joe Willock, Sead Kolasinac og Bukayo Saka.

Áhorfendur á Anfield Road: 52.694.


Maður leiksins: Curtis Jones. Ungliðinn kom inn á sem varamaður og stóð fyrir sínu á miðjunni. Hann sýndi svo stáltaugar þegar hann kom Liverpool áfram með því að skora úr fimmtu vítaspyrnunni í vítakeppninni fyrir framan Kop stúkuna. 

Jürgen Klopp: Ég man ekki hvenær ég skemmti mér jafn vel á knattspyrnuleik. Ég naut eiginlega hverrar sekúndu í leiknum. Ég er svo glaður fyrir hönd þessara stráka að þeir geti munað eftir fyrstu kvöldstund sinni á Anfield alla ævi.

Fróðleikur

-  James Milner, Alex Oxlade-Chamberlain og Divock Origi eru allir komnir með þrjú mörk á leiktíðinni. 

- Divock Origi og Adam Lallana skoruðu báðir í annað sinn í vítaspyrnukeppni á sparktíðinni. Divock skoraði í leiknum um Stórbikarinn og Adam í Skjaldarleiknum. 

- Neco Williams lék sinn fyrsta leik með aðalliði Liverpool.  

- Billy Koumetio og Yasser Larouci voru í fyrsta sinn í aðalliðshóp Liverpool. 

- Harvey Elliott varð yngstur leikmanna Liverpool til að spila á Anfield Road. Hann var 16 ára og 209 daga gamall. 

- Það hafa verið skoruð 25 mörk í þremur síðustu leikjum Liverpool og Arsenal í Deildarbikarnum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan