| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Enska úrvalsdeildin hefst í kvöld þegar okkar menn taka á móti nýliðum Norwich á Anfield. Leikurinn hefst klukkan 19:00.

Mótherji kvöldsins er lið sem hefur undanfarin ár verið að flakka á milli úrvalsdeildar og næst efstu deildar Englands. Tímabilið 2011-12 spilaði liðið í úrvalsdeildinni eftir nokkura ára fjarveru og náði liðið að halda sér uppi næstu tvær leiktíðir en féllu svo vorið 2014. Þeir þurftu bara eitt tímabil til að koma sér upp aftur en vorið 2016 féllu þeir á ný og hafa verið í næst efstu deild síðan þá. Í maí árið 2017 fengu þeir hinn þýska Daniel Farke til að taka við liðinu og hefur hann náð góðum árangri með félagið þó reyndar hafi hans fyrsta tímabil endað með 14. sæti í deildinni. En á síðasta tímabili gekk allt upp og liðið stóð uppi sem sigurvegari deildarinnar. Farke hafði áður þjálfað varalið Dortmund í Þýskalandi en Norwich gripu tækifærið þegar samningamál hans voru í lausu lofti. Markahæsti leikmaður Norwich á síðasta tímabili var hinn finnski Teemu Pukki sem skoraði 30 mörk í öllum keppnum, þar af 29 mörk í deildinni í 43 leikjum.

En eins og venjan er vilja liðin sem fara upp styrkja sig meira til að takast á við hina krefjandi úrvalsdeild og í sumar komu nokkrir nýir leikmenn til Norwich. Meðal annara má þar nefna svissneska sóknarmanninn Josip Drmic sem kom frítt frá Borussia Mönchengladbach, kantmaðurinn Patrick Roberts kom á láni frá Manchester City og á lokadegi gluggans fengu þeir varnarsinnaða miðjumanninn Ibrahim Amadou frá Sevilla á láni. Heilt yfir eru kannski ekki mörg þekkt nöfn í leikmannahópi félagsins en margir kannast þó við nöfn eins og Tim Krul, sem er aðalmarkvörður liðsins, fyrirliðann og varnarmanninn Grant Hanley og miðjumanninn sterka Alexander Tettey. Á meiðslalistanum eru fjórir leikmenn, Christoph Zimmermann, Timm Klose, Louis Thompson og Alexander Tettey og líklega verður enginn þeirra með á Anfield. Þá er einnig ólíklegt að nýjasti leikmaðurinn, Ibrahim Amadou, spili leikinn þar sem hann hefur jú varla haft tækifæri til að æfa með nýjum liðsfélögum.



Er þá ekki rétt að snúa sér að aðalatriði kvöldsins sem eru okkar menn ? Undirbúningstímabilið var kannski ekki mjög farsælt hvað úrslit varðar en á sunnudaginn var gegn Manchester City sýndu leikmenn Liverpool sýnar bestu hliðar, aðallega í síðari hálfleik. Þrátt fyrir að leikurinn hafi tapast í vítaspyrnukeppni hefði liðið með smá heppni getað unnið leikinn nokkuð örugglega og ef marka má þennan leik sást að menn eru tilbúnir í verkefnið sem er framundan.

Ekki er hægt að tala mikið um nýja leikmenn eftir þetta sumar en Jürgen Klopp hefur nokkrum sinnum sagt að ekki hafi verið mikil þörf á því að styrkja hópinn og hefur hann jú eitthvað til síns máls. En við stuðningsmenn viljum hinsvegar alltaf sjá einhver ný andlit og spennandi nöfn sem gera tilkall til þess að vera í byrjunarliðinu. Niðurstaðan var að tveir ungir leikmenn voru keyptir, þeir Sepp van Der Berg og Harvey Elliott og þegar ljóst var að fylla þurfti skarð varamarkvarðar kom Spánverjinn Adrian á frjálsri sölu. Þetta fær okkur svosem ekki til að hoppa uppúr sófanum af spenningi en þessu verður ekki breytt héðan af og nú verðum við að fylkja okkur á bakvið liðið og vona það besta. Evrópumeistararnir hafa svo sannarlega ekki veikt leikmannahópinn í sumar heldur og vonandi tekst að veita Manchester City og öðrum liðum harða keppni í titilbaráttu.

Það er ekki mikið um forföll í leikmannahópnum. Klopp sagði á blaðamannafundi fyrir leikinn að Sadio Mané gæti mögulega verið með þrátt fyrir að hafa aðeins æft með liðinu frá því á mánudaginn. Nathaniel Clyne er svo alvarlega meiddur og verður lengi frá. Klopp á því vandasamt verkefni fyrir höndum með að velja byrjunarliðið og í rauninni leikmannahópinn í heild fyrir leik kvöldsins. Anfield bíður eftir því að geta hyllt leikmenn liðsins eftir frækinn sigur í Madrid í júní og stemmningin verður ábyggilega frábær í kvöld.

Liverpool hafa mætt Norwich átta sinnum á heimavelli í úrvalsdeildinni og niðurstaðan úr þeim leikjum er fimm sigrar, tvö jafntefli og eitt tap. Síðast mættust liðin á Anfield þann 20. september og enduðu leikar með 1-1 jafntefli. Þetta var einn af síðustu leikjum Brendan Rodgers sem stjóri félagsins enda hafði tímabilið byrjað frekar illa og sem dæmi má nefna að eftir þetta jafntefli sátu okkar menn í 13. sæti en Norwich í því 11.

Spáin að þessu sinni er sú að okkar menn vinna nokkuð öruggan sigur á nýliðunum þar sem lokatölur verða 3-0. Það getur vissulega verið varasamt að mæta nýliðum í fyrsta leik í deildinni en allir leikmenn Liverpool verða klárir í slaginn og gera sig ekki seka um neitt vanmat.

Fróðleikur:


- Jordan Henderson spilar að öllum líkindum sinn 240. úrvalsdeildarleik fyrir Liverpool í kvöld.

- Taki Joel Matip þátt í leiknum verður þetta hans 100. leikur í öllum keppnum fyrir félagið.

- Sadio Mané hefur skorað mark í fyrsta deildarleik liðsins síðustu þrjú keppnistímabil.

- Spili og skori Mané í kvöld getur hann jafnað met Teddy Sheringham sem skoraði mark í opnunarleik fjögur tímabil í röð.

- Liverpool töpuðu síðast sínum fyrsta leik í úrvalsdeildinni tímabilið 12/13, þá á útivelli gegn W.B.A.

- Liverpool hafa ekki tapað á Anfield í síðustu 40 leikjum.

- Í síðustu sex leikjum liðanna hafa verið skoruð 34 mörk.






TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan