| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur okkar manna er á heimavelli gegn Watford. Leikurinn hefst klukkan 20:00 miðvikudagskvöldið 27. febrúar.

Eftir markalaust jafntefli gegn Manchester United á sunnudaginn var situr Liverpool í efsta sæti deildarinnar með stigi meira en Manchester City. Það má auðvitað lítið útaf bregða í þeim leikjum sem liðið á eftir og því verður að gera kröfu um að þrjú stig náist í næsta leik. Það er þó skarð fyrir skildi að Roberto Firmino verður væntanlega ekki með gegn Watford en hann þurfti að fara af leikvelli í fyrri hálfleik gegn United og yfirgaf leikvanginn á hækjum. Jürgen Klopp sagði á blaðamannafundi í dag að Firmino verður þó mjög líklega klár í slaginn gegn Everton um helgina og lokaði nú ekki alveg á það að hann gæti tekið einhvern þátt í næsta leik. Ég tel þó ólíklegt að tekin verði áhætta með Brasilíumanninn og að hann fái tíma til að gera sig 100% kláran fyrir nágrannaslaginn. Naby Keita er búinn að jafna sig af veikindum og er tilbúinn að spila, vonum að það sé komið gott af því að leikmenn liðsins séu endalaust að ná sér í allar pestir og missa þannig af mikilvægum leikjum. Dejan Lovren er svo enn frá ásamt Joe Gomez og Alex Oxlade-Chamberlain. Hjá gestunum er aðeins einn leikmaður á sjúkralista, Kiko Femenia og þeir mæta til leiks fullir sjálfstrausts eftir að hafa gjörsigrað Cardiff City á útivelli í síðasta leik. Þeir verða þó án bakvarðarins Holebas sem tekur út leikbann, hann hefur verið einn af þeirra bestu mönnum það sem af er tímabils.

Byrjunarlið Klopp verður eins og myndin hér fyrir neðan sýnir samkvæmt minni spá. Shaqiri fær tækifæri frá byrjun og hann þarf að koma sér aftur í gang eftir að hafa lítið sýnt undanfarið. Daniel Sturridge og Divock Origi hafa ekki komið nógu sterkir inn til að fá tækifæri á því að leiða sóknina að þessu sinni. En Klopp stýrir þessu og mín ágiskun gæti verið kolröng, það kemur bara í ljós.


Fyrri leikur liðanna á tímabilinu á heimavelli Watford lauk með 0-3 sigri okkar manna og það má alveg endurtaka leikinn núna. Watford hafa ekki sótt mörg stig á Anfield í gegnum árin en þeirra fyrsti leikur þar í Úrvalsdeild árið 1999 endaði þó með sigri. Síðan þá hafa þeir spilað fjóra leiki á Anfield í deildinni og tapað þeim öllum. Mohamed Salah hefur einnig verið duglegur að skora gegn Watford en hann er með sex mörk í þremur leikjum gegn þeim. Vonandi reimar hann á sig skotskóna að nýju fyrir þennan leik og bætir í sarpinn.

Eins og áður sagði má lítið útaf bregða í toppbaráttunni og hver einasti leikur er nú afskaplega mikilvægur. Það er ljóst að Watford munu verjast á öllum sínum mönnum og þeir hafa ábyggilega lært eitthvað af því að horfa á leiki Liverpool gegn Bayern Munchen og Manchester United. Ekkert gekk í sóknarleiknum í þessum tveim leikjum en nú hlýtur stíflan að bresta, það bara getur ekki verið að liðið skori ekki mark þriðja leikinn í röð. Varnarleikurinn hefur hingað til ekki verið stór höfuðverkur en van Dijk og félagar þurfa þó að passa sig á sóknarlínu Watford sem getur verið ansi skæð. Ég treysti því þó að þeir haldi markinu hreinu á heimavelli.

Spáin að þessu sinni er sú að Liverpool vinnur 2-0 sigur. Fyrra markið kemur seint í fyrri hálfleik eftir að taugar stuðningsmanna hafa þanist vel út fram að því. Seinna markið drepur svo leikinn snemma í síðari hálfleik.

Fróðleikur:

- Mohamed Salah er markahæstur Liverpool manna í deildinni með 17 mörk.

- Troy Deeney er markahæstur Watford manna með sjö mörk í deildinni.

- Liverpool eru á toppi deildarinnar eftir 27 leiki með 66 stig.

- Watford eru í 7. sæti með 40 stig eftir 27 leiki.

- Mohamed Salah vantar eitt mark uppá til að ná 50 deildarmörkum fyrir félagið.

- Jordan Henderson spilar að öllum líkindum sinn 230. deildarleik fyrir félagið.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan