| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Stórleikur ársins! Þó þetta sé fyrsti leikur ársins þá fer hann trúlega í flokk með þeim stærri á þessu Herrans ári sem er nýhafið. Í það minnsta er mikilvægi hans gríðarlega mikið á þessum tímapunkti!

Manchester City er bæði Englands- og Deildarbikarmeistari frá síðustu leiktíð. Liðið varð Englandsmeistari með glæsibrag og sló hvert metið af öðru. Liðið hóf þessa leiktíð á svipuðum nótum en Liverpool náði að hanga í þeim og í síðustu umferðum hefur Liverpool snúið blaðinu við og náð góðri forystu. Hún var níu stig um tíma en seint annað kvöld gæti hún verið níu stig, sjö eða fjögur stig. Mikilvægi leiksins á Ethihad leikvanginum er því sem fyrr segir gríðarlega mikið. En sama hvernig leikurinn fer þá er mikið eftir til vors og það ræðst ekki annað kvöld hvaða lið verður Englandsmeistari. Hægstæð úrslit fyrir Liverpool gefa liðinu þó mikið upp á framhaldið næstu vikur og mánuði. 


Bæði Jürgen Klopp og Pep Guardiola hafa hrósað tilvonandi andstæðingum sínum síðustu dagana. Víst er að báðir hafa rétt fyrir sér með að liðin eru frábær og vel mönnum skipuð. Þau skildu án marka á Anfield Road í haust en Liverpool hafði þrívegis betur gegn Manchester City á síðasta ári. Tvívegis í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar og svo í deildinni snemma árs. Mnchester City vann svo stórsigur í fyrri deildarleiknum á heimavelli á síðasta keppnistímabili. Miðað við þessa fimm síðustu leiki liðanna getur allt gerst annað kvöld. 

Ég spái því að Liverpool styrki stöðu sína á toppi deildarinnar með 1:2 sigri í Manchester. Roberto Firmino og Sadio Mané skora mörkin. Betri byrjun en sigur á þessu nýja ári er ekki hægt að hugsa sér!

YNWA!
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan