| Heimir Eyvindarson

Tap í Napoli

Liverpool tapaði í kvöld fyrir Napoli á útivelli í annarri umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Sigur heimamanna verður því miður að teljast sanngjarn. 

Það er í sjálfu sér ekki mikið um þennan leik að segja. Liverpool byrjaði ágætlega og menn virkuðu sprækir fyrstu 10-15 mínúturnar. Á 16. mínútu settist Keita á völlinn og stóð ekki aftur á fætur, var keyrður út af vellinum á börum og inná kom Henderson. Vont að missa Keita svo snemma leiks, en vonandi er hann ekki alvarlega meiddur. Við þurfum að fá hann í gang.

Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks gerðist eiginlega ekkert, svo ég muni. Óttalegt miðjuþóf á báða bóga. 

Seinni hálfleikurinn var svo eiginlega hrein eign heimamanna, þá sjaldan að Liverpool komst eitthvað áleiðis var Ospina í marki Napoli vel á verði. 

8 mínútum fyrir leikslok átti varamaðurinn Dries Mertens skot í slána af markteig, eftir snarpa sókn Napoli. Þar var Liverpool þrælheppið að boltinn skyldi ekki vera 3-4 millimetrum neðar. 

Á 90. mínútu kláraði Insigne síðan leikinn fyrir heimamenn þegar hann ýtti boltanum yfir marklinuna framhjá varnarlausum Alisson. Ein af aðeins of mörgum þungum sóknum heimamanna á lokamínútunum. 

Niðurstaðan í Napoli 1-0 sigur heimamanna. Ansi súrt að tapa, en ennþá súrara hvað liðið virkaði andlaust. Það hefði verið hálfgerður þjófnaður að ná stigi úr þessum leik, en það má samt ekki gleyma því að það munaði minnstu að það tækist. Þar munaði mest um Alisson og Gomez sem voru einna skástu menn Liverpool í kvöld. 

Vonandi nær liðið að hrista þetta af sér fyrir leikinn gegn City á sunnudaginn. Það er engan veginn heimsendir að tapa þessum leik og svo vitnað sé í Klopp sjálfan þá skiptir mestu máli hvernig menn bregðast við í framhaldinu. 

Liverpool: Alisson, TAA, Van Dijk, Gomez, Milner (fabinho á 76. mín.), Wijnaldum, Keita (Henderson á 16. mín.), Mané (Sturridge á 87. mín.), Firmino og Salah. Ónotaðir varamenn: Mignolet, Shaqiri, Moreno, Lovren. 

Maður leiksins: Alisson. Varði nokkrum sinnum vel og gat ekkert gert að markinu. Lítið meira um það að segja.

Jürgen Klopp: ,,Ég veit ekki afhverju við vorum svona slakir í kvöld, en það er augljóst að þetta var ekki nógu gott. Við vorum alls ekki nógu góðir, hvorki varnarlega né sóknarlega. Ég verð að taka það að miklu leyti á mig, leikurinn spilaðist alls ekki eins og hann átti að spilast, en ég þarf að horfa á hann aftur til að átta mig betur á því hvað fór úrskeiðis."

 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan