| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Liverpool hefur leik í enska deildarbikarnum á miðvikudagskvöldið þegar Chelsea mæta í heimsókn á Anfield. Leikurinn hefst klukkan 18:45.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig Jürgen Klopp stillir upp byrjunarliðinu að þessu sinni en á blaðamannafundi fyrr í dag staðfesti hann að Simon Mignolet byrji í markinu. Að öðru leyti gaf hann ekkert upp um byrjunarliðið og bætti við að hann fengi ekkert að vita um lið Chelsea fyrirfram og hví ætti hann því að segja frá sínu liði ?

Það er þó ansi líklegt að leikmenn eins og Fabinho, Xerdan Shaqiri, Alberto Moreno, Nathaniel Clyne og Daniel Sturridge fái tækifæri til að byrja leikinn. Klopp sagði að Dejan Lovren væri líklega klár í slaginn en hann hefur æft að fullu síðustu daga, þá er Virgil van Dijk ennþá að finna fyrir sársauka í rifbeinum eftir leik helgarinnar og ólíklegt er að hann verði með. Dominic Solanke er einnig klár í slaginn og væntanlega sest hann á bekkinn að þessu sinni. Þeir Divock Origi og Adam Lallana eru svo enn að koma sér í stand eftir sín meiðsli og verða ekki klárir fyrir þennan leik. Gestirnir glíma við einhver vandræði sín megin hvað meiðsli varðar en Antonio Rüdiger, Pedro og Ruben Loftus-Cheek eru á meiðslalistanum og verða ekki tiltækir.

Liðin hafa mæst nokkrum sinnum í þessari keppni í gegnum tíðina en fyrsti leikur liðanna í deildarbikarnum var árið 1977 þar sem Liverpool vann 2-0 sigur á Anfield. Árið 2000 vannst svo 2-1 sigur einnig á Anfield en næst mættust liðin í sjálfum úrslitaleiknum árið 2005 á Þúsaldarvellinum í Cardiff. Var þetta byrjunin á mikilli leikjahrinu milli liðanna sem oftar en ekki drógust liðin saman í Meistaradeild og bikarkeppnum eftir þetta. Þessi leikur tapaðist í framlengingu 2-3 og óþarfi að rifja meira upp frá leiknum. 2-0 sigur vannst svo árið 2011 í fimmtu umferð keppninnar og í janúar 2015 mættust liðin í undanúrslitum. Fyrri leikurinn á Anfield endaði 1-1 og sá síðari tapaðist 1-0 og Chelsea þar með komnir í úrslit keppninnar.

Þegar horft er svo til leikja liðanna á Anfield í öllum keppnum undanfarin ár má sjá að Chelsea hafa yfirleitt náð góðum úrslitum og því þarf að breyta nú. Síðustu fjórir leikir liðanna hafa endað með 1-1 jafntefli (þrír í deild og einn í deildarbikar) og fara þarf aftur til ársins 2012, nánar tiltekið í maí til að finna leik sem Liverpool vann á heimavelli gegn Chelsea. Sá leikur kom einmitt strax í kjölfarið á úrslitaleik FA bikarsins þar sem Liverpool menn hefndu ófaranna á Wembley. Ef við förum 10 ár aftur í tímann eru leikir liðanna á Anfield 13 talsins og hafa Liverpool aðeins unnið þrjá þeirra, sex hafa endað jafnir og Chelsa unnið fjóra. Það er því eins og áður sagði löngu kominn tími á að breyta þessari slöku tölfræði yfir viðureignir liðanna undanfarin ár.

Þrátt fyrir að báðir stjórar komi til með að breyta liðum sínum eitthvað í þessum leik má búast við skemmtilegri viðureign. Undir stjórn Maurizio Sarri hafa Chelsea sett meiri sóknarþunga í sinn leik og hafa þeir byrjað tímabilið vel eins og okkar menn. Úrslitin 1-1 kæmu kannski ekki á óvart í ljósi sögunnar en sú breyting hefur þó verið gerð á deildarbikarnum fyrir þetta tímabil að liðin fara beint í vítaspyrnukeppni nú að loknum venjulegum leiktíma í stað 30 mínútna framlengingar áður.

Spáin að þessu sinni er sú að okkar menn halda áfram sigurgöngu sinni á tímabilinu og vinna 2-1 sigur. Erfitt er að segja til um markaskorara þar sem vonlaust er að segja til um liðsuppstillinguna en eigum við ekki að skjóta á að Shaqiri og Sturridge skori mörkin ?Fróðleikur:

- Sadio Mané er markahæstur leikmanna Liverpool á tímabilinu til þessa með fjögur mörk.

- Eden Hazard er markahæstur Chelsea megin með fimm mörk.

- Liðin tvö eiga tvo dýrustu markverði sögunnar í þeim Alisson og Kepa Arrizabalaga en Chelsea slógu met Liverpool í sumar eins og frægt er orðið. Líklega verða þessir tveir þó ekki á milli stanganna í þessum leik.

- Liverpool hefur unnið alla sína leiki það sem af er tímabili, sjö talsins.

- Chelsea eru einnig taplausir í sjö leikjum en gerðu jafntefli í síðasta leik sínum í deildinni.

- Daniel Sturridge hefur verið iðinn við markaskorun í deildarbikarnum á ferli sínum hjá Liverpool en hann hefur skorað átta mörk í jafnmörgum leikjum.

- Á síðasta tímabili féll Liverpool úr leik á þessu stigi keppninnar þegar liðið tapaði gegn Leicester City á útivelli 2-0.

- Chelsea fóru alla leið í undanúrslit keppninnar í fyrra en féllu úr leik gegn Arsenal.

- Liðin mætast svo aftur um næstu helgi í deildinni, þá á heimavelli Chelsea.TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan