| Sf. Gutt

Ennþá fullt hús

Liverpool er ennþá með fullt hús stiga eftir fimm umferðir í deildinni. Rauði herinn gerði góða ferð á nýja Wembley og vann þar sigur 1:2 á Tottenham Hotspur.

Samkvæmt áætlun hefðu Tottenham Hotspur og Liverpool átt að vígja nýja White Hart Lane í dag en framkvæmdir við leikvanginn eru komnar á eftir áætlun. Liðin leiddu því saman hesta sína á nýja Wembley. Boltinn lá þar í markinu eftir innan við mínútu. James Milner sendi fyrir frá hægri og eftir að Roberto Firmino og Sadio Mané höfðu hlaupið að boltanum fór hann í markið. Dæmd var rangstaða og var rétt dæmt. Liverpool var sterkari aðilinn framan af leik og á 22. mínútu náði Mohamed Salah boltanum á miðjum vallarhelmingi Spurs. Hann tók á rás inn í vítateginn en þar varði Michel Worm. Mohamed skaut uppi en hafði trúlega átt að skjóta með jörðinni. 

Leikurinn var heldur rólegur og lítið bar til tíðinda þar til sex mínútur voru til hálfleiks. James tók þá horn frá vinstri. Boltinn barst á höfuðið á Georginio Wijnaldum sem skallaði að marki. Michel sem hafði ekki komist að boltanum var kominn á marklínuna og náði að koma boltanum frá en það var of seint því boltinn var kominn inn fyrir marklínuna. Dómarinn fékk staðfestingu í gegnum tæknibúnað sinn en það var varla þörf á því þar sem boltinn var kominn vel inn fyrir línuna. Markið tryggði verðskuldaða forystu Liverpool í hálfleik. 

Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn vel og á 48. mínútu sendi Andrew Robertson fyrir frá vinstri og datt boltinn ofan á þverslána. Rétt á eftir komst Sadio í færi eftir undirbúning Mohamed. Hann sneri sér snöggt við í vítateginum og skaut en Michel varði. Í kjölfarið ógnaði Spurs í fyrsta sinn í leiknum. Lucas Moura tók góða rispu inn í vítateginn en skot hans fór í utanverða stöngina og framhjá. Þar hefði Lucas getað gert betur og það kom sér vel því á 54. mínútu skoraði Liverpool sitt annað mark. Góð sókn fram vinstri kantinn endaði með því að Sadio komst inn í vítateginn og sendi fyrir. Varnarmaður ætlaði að koma boltanum í burtu en hann fór í stöngina innanverða og þvert fyrir markið. Michel náði ekki boltanum og Roberto Firmino smellti boltanum í markið á marklínunni. 

Vænleg forysta Liverpool hefði átt að stækka en góð færi fóru forgörðum. Á 63. mínútu braust Sadio fram. Hann sendi á Naby Keita en Michel sló skot hans yfir. Litlu síðar varð Roberto að fara út af eftir að mótherji slæmdi hendi í auga hans. Á 81. mínútu komst Mohamed í færi eftir að James vann boltann en Michel varði vel. Mohamed hefði getað gefið boltann á félaga sem var í betra færi. Sagan endurtók sig rétt á eftir en Michel varði aftur og enn þegar Sadio skaut. 

Eitt af þessum góðu færum hefðu innsiglað sigurinn löngu fyrir leikslok og það kom í bakið í viðbótartíma þegar Erik Lamela skoraði úr þröngu færi eftir að boltinn barst til hans eftir horn frá vinstri. Spurs vildi ranglega fá víti í allra síðustu sókninni en sem betur fer landaði Liverpool sigri. Liverpool var mun betri aðilinn þegar allt er tekið og hefði átt að vinna mun stærri sigur. Sigurinn var of naumur en stigin þrjú voru fyrir öllu. 

Liverpool fór á toppinn og vann sinn fimmta leik í röð. Þó liðið hafi kannski ekki leikið neinn leik eins vel og liðið getur þá tala tölurnar sínu máli. Það er ekki hægt að biðja um meira en fimm sigra í fimm leikjum!

Mark Tottenham Hotspur: Erik Lamela (90. mín.).

Mörk Liverpool: Georginio Wijnaldum (39. mín.) og Roberto Firmino (54. mín.).

Maður leiksins: James Milner. Þessi ótrúlegi leikmaður var úti um allan völl frá upphafi til enda. Hann átti þátt í fyrra markinu og fór fyrir liðinu með frábæru fordæmi. 

Fróðleikur

- Liverpool hefur unnið fimm fyrstu leiki sína í deildinni. 

- Þetta er aðeins í þriðja sinn í sögunni sem Liverpool vinnur fyrstu fimm deildarleiki sína.

-  Georginio Wijnaldum skoraði fyrsta mark sitt á leiktíðinni. 

- Roberto Firmino skoraði annað mark sitt og hefur skorað í tveimur leikjum í röð. 

- Georginio skoraði í fyrsta sinn í útileik í deildinni eftir að hann kom til Englands. Fram að þessu höfðu öll deildarmörk hans fyrir Newcastle United og Liverpool verið skoruð á heimavelli. 

- Trent Alexander-Arnold lék sinn 50. leik fyrir Liverpool. Hann hefur skorað þrjú mörk. 

- Liverpool vann sinn fyrsta sigur á nýja Wembley eftir tvö úrslitaleikjatöp, eitt tap í undanúrslitum og eins tapaði liðið þar á síðustu leiktíð fyrir Tottenham. Það var kominn tími á sigur á Wembley.

Hér er viðtal við Jürgen Klopp sem tekið var eftir leikinn.   





TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan