| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Það er loksins komið að fyrsta leik okkar manna í ensku úrvalsdeildinni !  Mótherjinn er West Ham United á Anfield og hefst leikurinn klukkan 12:30 sunnudaginn 12. ágúst.

Spennan hefur verið að magnast hjá okkur stuðningsmönnum eftir því sem liðið hefur á undirbúningstímabilið og ekki skemmir fyrir að liðið hefur verið að spila vel og vinna góða sigra.  Nú er hinsvegar komið að alvörunni og gestirnir hafa heldur betur bætt við sig leikmönnum í sumar og þar er nýr stjóri í brúnni.

Manuel Pellegrini tók við Hömrunum í sumar eftir að ljóst var að David Moyes fengi ekki að vera lengur við stjórnvölinn, eins og margir vita stýrði Pellegrini Manchester City fyrir ekki mörgum árum og gerði þá meðal annars að meisturum.  Þar hefur stjórn félagsins væntanlega friðað marga stuðningsmenn en mikil mótmæli voru á heimaleikjum liðsins undir lok síðasta tímabils.  Hafi stuðningsmennirnir verið ánægðir með nýja stjórann ættu þeir að vera enn ánægðari með kaup félagsins en alls komu 10 leikmenn inn áður en félagaskiptaglugginn lokaði.  Helst ber að nefna þá Felipe Anderson sem kom frá Lazio, Jack Wilshere og Lucas Perez frá Arsenal og Andriy Yarmolenko sem kom frá Dortmund.  Sex leikmenn héldu á braut og ætti mórallinn nú eitthvað hafa batnað við það að Patrice Evra fór en önnur þekkt nöfn sem fóru frá félaginu voru James Collins og Cheikhou Kouyate.

Meiðsli eru þó einhver í herbúðum West Ham og kemur það fáum á óvart að fyrsta nafn á meiðslalistanum er Andy Carroll, aðrir sem eru meiddir og spila ekki á sunnudaginn eru Manuel Lanzini, Winston Reid og Edmilson Fernandes.

En hvað sem kaupum West Ham í sumar líður vita auðvitað allir að Liverpool seildist ofaní veskið í sumar og gekk frá mikilvægum viðbótum við leikmannahópinn.  Markvarðastaðan ætti nú ekki lengur að vera vandræðastaða eftir að Alisson mætti á svæðið frá Roma og breiddin hefur verið aukin til muna á miðjunni með komu þeirra Naby Keita, Xerdan Shaqiri og Fabinho.  Sá síðastnefndi á nú við einhver smávægileg meiðsli að stríða og er tæpur fyrir leikinn á sunnudaginn.  Sem fyrr eru svo vandræði með að manna miðvarðastöðurnar.  Virgil van Dijk er heill heilsu og spilar klárlega en þeir Joe Gomez, Joel Matip og Ragnar Klavan eru allir eitthvað að ströggla með meiðsli.  Gomez var hvíldur gegn Torino á þriðjudagskvöldið með West Ham leikinn í huga og við sjáum til hvort hann sé klár í slaginn.  Til að bæta gráu ofaná svart mætti Dejan Lovren svo meiddur til æfinga eftir sumarfrí.  Liverpool Echo flutti fréttir af því í dag að meiðsli hans eru í magavöðvum og spilaði hann síðustu þrjá leiki Króata á HM frekar mikið kvalinn.  Lovren heldur til Hollands til að hitta sérfræðing vegna þessara meiðsla og vonandi verður hann ekki lengi frá.


Þríeykið ógnarsterka Mané, Salah og Firmino verða mættir til að kvelja varnarlínu West Ham og gleðja vonandi okkur stuðningsmenn áfram.  Jordan Henderson gæti þurft að spila vegna áðurnefndra meiðsla Fabinho og svo er James Milner auðvitað með risastóran skurð á enni og kannski of snemmt að tefla honum fram.  En við þekkjum nú fyrirliðann okkar vel og vitum að hann er alltaf klár í slaginn, það ætti því ekki að vera mikið vesen að stilla upp miðjunni með Henderson, Keita og Wijnaldum.

Það verður rífandi stemmning á Anfield í fyrsta leik tímabilsins og það er líka ansi langt síðan að félagið fékk að spila fyrsta leik tímabilsins á heimavelli.  Góð byrjun í deildinni er mikilvæg liðið þarf að sýna strax að það ætlar sér að vera með í titilbaráttunni !

Spáin að þessu sinni er sú að 3-1 sigur vinnst.  Liverpool skorar fyrstu tvö mörkin en gestirnir koma smá óróa á stuðningsmenn heimamanna í stúkunni með því að minnka muninn.  En á síðustu 10 mínútum leiksins kemur þriðja markið og sigurinn þar með tryggður.

Fróðleikur:

- Þeir Alisson, Naby Keita og Xerdan Shaqiri munu líklega spila sinn fyrsta deildarleik fyrir félagið.  Verði Fabinho klár í slaginn má leiða líkum að því að hann byrji og bætist þá í hóp áðurnefndra leikmanna.

- Sigri Liverpool í leiknum verður það sigurleikur númer 500 í ensku úrvalsdeildinni.

- Á síðsta tímabili vannst 4-1 sigur á West Ham á Anfield þar sem þeir Emre Can, Mohamed Salah, Sadio Mané og Roberto Firmino gerðu mörkin.

- Það er loksins búið að úthluta Alisson og Fabinho treyjunúmerum en markvörðurinn verður númer 13 líkt og í æfingaleikjum og sama gildir um Fabinho sem mun vera númer 3 í vetur.

- Liverpool hefur ekki byrjað tímabilið á heimavelli síðan tímabilið 2014-2015.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan