| Grétar Magnússon

Í undanúrslit !

Liverpool gerði sér lítið fyrir og sigraði Manchester City 1-2 í seinni leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar.  Leikurinn byrjaði á verstan máta en í seinni hálfleik sneru gestirnir dæminu við og tryggðu sér sigurinn.

Liðsuppstilling Jürgen Klopp kom engum á óvart og sem betur fer var Mohamed Salah klár í slaginn ásamt Andy Robertson.  Gini Wijnaldum tók stöðu Jordan Henderson eins og við var búist en að öðru leyti var liðið skipað sömu leikmönnum og í fyrri leiknum.  Pep Guardiola stillti upp mjög sóknarsinnuðu liði með þrjá varnarmenn, fyrirliðinn Vincent Kompany var ekki með ásamt Ilkay Gündogan og þeir Raheem Sterling og Bernardo Silva komu inn í byrjunarliðið.  Það kom svo kannski svolítið á óvart að Sergio Aguero byrjaði á bekknum.

En Gabriel Jesus fékk menn til að hætta að spá í því eftir tvær mínútur.  Karius kastaði boltanum út til van Dijk sem var búinn að gefa honum merki um að taka því rólega.  Sterling pressaði van Dijk strax og hann sendi slaka sendingu inná völlinn og datt út við hliðarlínu í kjölfarið.  Hollendingurinn vildi fá aukaspyrnu en dómarinn var ekki á sama máli, City unnu boltann og ein sending sendi Sterling innfyrir hægra megin.  Hann sá hlaup Jesus á teignum, sendi boltann til hans og Jesus átti ekki í neinum vandræðum með að skora.  Óskabyrjun heimamanna og útlitið langt frá því að vera bjart fyrir gestina svo snemma leiks.

Eftir þetta voru City menn auðvitað mun meira með boltann og reyndu hvað þeir gátu til að skapa sér færi.  Varnarlína Liverpool hélt þeim þó að mestu í skefjun og Karius var vel á verði fyrir aftan þegar heimamenn reyndu skot fyrir utan teig.  Bernardo Silva komst næst því að skora þegar hann átti skot úr teignum sem fór í varnarmann og rétt framhjá fjærstönginni, skömmu síðar þrumaði hann svo að marki fyrir utan teig en boltinn small í stönginni.  Dejan Lovren rétt kom við boltann á leiðinni og það var kannski mikilvæg snerting sem setti boltann í stöngina frekar en í markið.  Rétt fyrir hálfleik var svo umdeilt atvik þegar sending kom inná teiginn og Karius kýldi boltann í burtu.  Boltinn fór í hnéð á Milner og barst þar til Sané sem skoraði.  Rangstaða var dæmd þar sem Sané var fyrir innan en það var ekki réttur dómur þar sem boltinn barst til hans frá mótherja.  Það gafst svo tími fyrir fyrsta og eina færi Liverpool í þessum fyrri hálfleik þegar gott samspil Salah og Oxlade-Chamberlain sendi þann síðarnefnda innfyrir en færið var þröngt og skotið yfir.  Pep Guardiola var svo sendur upp í stúku af dómara leiksins þegar hann var búinn að flauta til hálfleiks.  Stjóri City skiljanlega ósáttur með að fá ekki markið dæmt hjá Sané.


Allt annað Liverpool lið mætti til leiks í seinni hálfleik sem byrjaði þó eins og við var að búast með City meira með boltann reynandi að skapa sér færi.  Hið mikilvæga útivallarmark kom svo á 56. mínútu.  Wijnaldum fékk boltann á eigin vallarhelming og fann Oxlade-Chamberlain fyrir framan sig.  Hann átti góða sendingu fram á Salah sem sá hlaup hjá Mané.  Mané var áræðinn og brunaði inní vítateig þar sem varnarmenn City reyndu að ná til boltans.  Það virtist vera brotið á honum en ekkert flaut heyrðist, boltinn barst til Ederson sem náði ekki taki á honum og Salah var fyrstur til að átta sig, náði snertingunni og vippaði svo boltanum framhjá Otamendi og í markið.  Ótrúleg fagnaðarlæti brutust út fyrir aftan markið þar sem stuðningsmenn Liverpool voru samankomnir og auðvitað fögnuðu liðsmenn Liverpool markinu innilega.


City menn gáfust ekki upp og héldu áfram að reyna en það var þó ekki til neins.  Varnarskipulag Liverpool hélt og það var Firmino sem átti síðasta orðið í leiknum.  Hann pressaði Otamendi úti vinstra megin, vann af honum boltann, lék áfram inní teiginn og sendi svo boltann snyrtilega framhjá Ederson í stöngina og inn !  Staðan orðin 1-2 og ljóst að Liverpool er komið áfram í undanúrslit Meistaradeildar !

Manchester City:  Ederson, Walker, Otamendi, Laporte, Fernandinho, De Bruyne, Silva (Aguero, 66. mín.), Sterling, Bernardo Silva (Gündogan, 74. mín.), Jesus, Sané.  Ónotaðir varamenn:  Bravo, Kompany, Delph, Zinchenko, Foden.

Mark Manchester City:  Gabriel Jesus (2. mín.).

Gul spjöld:  Ederson og Bernardo Silva.

Liverpool:  Karius, Alexander-Arnold (Clyne, 81. mín.), Lovren, van Dijk, Robertson, Oxlade-Chamberlain, Wijnaldum, Milner, Salah (Ings, 89. mín.), Firmino (Klavan, 81. mín.), Mané.  Ónotaðir varamenn:  Mignolet, Moreno, Woodburn, Solanke.

Mörk Liverpool:  Mohamed Salah (56. mín.) og Roberto Firmino (77. mín.).

Gul spjöld:  Alexander-Arnold, van Dijk, Firmino og Mané.

Áhorfendur á Etihad leikvanginum:  53.461.

Maður leiksins:  Eftir svona frammistöðu er kannski erfitt að velja einn leikmann en James Milner hljóp manna mest í leiknum og var sem fyrr óþreytandi á miðjunni.  Hans framlag var gríðarlega mikilvægt og þó svo að hann hafi ekki skorað mörkin þá er hann maður leiksins að þessu sinni.  Ótrúlegt en satt þá lagði hann þó ekki upp mark í leiknum en hann er með flestar stoðsendingar allra í Meistaradeildinni það sem af er tímabils.

Jürgen Klopp:  ,,Við skoruðum fimm mörk gegn Man City og fengum bara á okkur eitt mark.  Svona tölum er yfirleitt ómögulegt að ná.  Strákarnir fundu lausn í seinni hálfleik.  Við áttum kannski tvo eða þrjá möguleika í þeim fyrri og það var því auðvelt fyrir mig og þá að sjá möguleikana sem voru fyrir hendi.  Við þurftum þó að komast í gegnum mikinn hvirfilbyl eftir þessa byrjun."

Fróðleikur:

- Mohamed Salah og Roberto Firmino skoruðu sín níundu mörk í Meistaradeildinni á tímabilinu.

- Liverpool komst í undanúrslit Meistaradeildarinnar (og áður Evrópukeppni meistaraliða) í 10. sinn.

- Liverpool er fyrsta liðið sem vinnur þrjá sigurleiki á einu og sama tímabilinu gegn liði stýrt af Pep Guardiola.

- Dregið verður í undanúrslit föstudaginn 13. apríl næstkomandi.

Hér má sjá myndir úr leiknum.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan