| Grétar Magnússon

Suðurstrandarsigur

Liverpool sótti þrjú stig með stæl á suðurströnd Englands þegar 0-4 sigur vannst á Bournemouth.

Jürgen Klopp gerði að sjálfsögðu breytingar á byrjunarliðinu frá leiknum við WBA.  Joe Gomez, Alex Oxlade-Chamberlain og Jordan Henderson komu inn í stað þeirra Trent Alexander-Arnold, Emre Can og Sadio Mané.  Leikurinn byrjaði svo kröftuglega af hálfu gestanna og á 10. mínútu var Firmino felldur fyrir utan vítateig hægra megin.  Coutinho tók aukaspyrnuna og skaut boltanum efst í stöngina í nærhorninu og boltinn skoppaði svo út í vítateiginn.  Coutinho óheppinn þarna.  Skömmu síðar fékk Salah flotta sendingu inn á teiginn frá Henderson, móttakan var frábær og hann lék inná teiginn þar sem hann náði skoti á markið en boltinn fór yfir.  Á 20. mínútu sýndi Coutinho svo ótrúlega takta þegar hann fékk boltann vinstra megin á vallarhelmingi Bournemouth, lék áfram í átt að teignum, fíflaði töluvert marga mótherja og skaut svo hnitmiðuðu skoti úr teignum í bláhornið.  Virkilega vel gert hjá litla Brasilíumanninum þarna og staðan orðin 0-1.  Sex mínútum síðar var staðan orðin 0-2.  Frábær samleikur Henderson, Salah og Firmino endaði með því að skot frá þeim síðastnefnda fór af varnarmanni og afturfyrir markið.  Coutinho tók hornspyrnuna, á nærstöng fór boltinn af einum leikmanni upp í loft og virtist vera á leiðinni útaf við endalínu hinumegin en Firmino var ekki á sama máli.  Hann náði að lyfta boltanum aftur inná markteiginn þar sem Dejan Lovren skutlaði sér fram og skallaði boltann í markið.

Minnugir þess hvað gerðist á þessum velli á síðasta tímabili fengu leikmenn Liverpool svo harkalega viðvörun þegar Defoe komst einn gegn Mignolet en skot hann hafnaði í innanverðri stönginni og skoppaði svo útfyrir endalínu.  Þarna skall hurð nærri hælum og leikmenn Bournemouth hefðu svo sannarlega fengið vind í seglin ef þeir hefðu minnkað muninn þarna.  En leikmenn Liverpool héldu áfram að spila frábærlega sín á milli og Salah fékk dauðafæri eftir skemmtilegan samleik við Coutinho uppvið vítateig.  Coutinho lyfti boltanum innfyrir þar sem Salah skaut í fyrsta en Begovic varði mjög vel í markinu og hélt boltanum.  Mínútu fyrir hálfleik brást Salah hinsvegar ekki bogalistin þegar hann fékk sendingu upp hægri kantinn frá Oxlade-Chamberlain.  Hann lék boltanum inná teiginn og nú var skotið hans hnitmiðað og boltinn söng í fjærhorninu.  Staðan var því 0-3 þegar flautað var til hálfleiks.


Seinni hálfleikur var ekki ólíkur þeim fyrri en mörkin voru þó færri.  Jermain Defoe ógnaði Bournemouth megin með skoti utarlega vinstra megin en Mignolet varði vel.  Á 66. mínútu skoruðu svo Liverpool menn síðasta mark leiksins og þar var Firmino að verki.  Coutinho sendi boltann fyrir markið frá vinstri og Firmino skallaði boltann framhjá Begovic.  Firmino var fyrir innan þegar sendingin kom en línuvörðurinn flaggaði ekki og markið stóð.  Klopp gerði svo þrjár breytingar síðustu 20 mínútur leiksins.  Adam Lallana var fyrstur varamanna á vettvang og var ánægjulegt að sjá hann aftur á vellinum.  Fimm mínútum síðar kom svo Solanke inná fyrir Firmino og undir lokin fékk Danny Ings nokkrar mínútur í stað Coutinho.  Öruggum sigri var siglt í höfn og ánægjulegt að sjá liðið aftur á sigurbraut.

Bournemouth:  Begovic, A Smith, Francis, Aké, Daniels (S Cook, 56. mín.), Ibe, L Cook, Surman, Pugh (Fraser, 45. mín.), King (Stanislas, 31. mín.), Defoe.  Ónotaðir varamenn:  Boruc, Gosling, Arter, Afobe.

Gult spjald:  Nathan Aké.

Liverpool:  Mignolet, Gomez, Lovren, Klavan, Robertson, Henderson, Wijnaldum, Oxlade-Chamberlain, Coutinho (Ings, 87. mín.), Salah (Lallana, 71. mín.), Firmino (Solanke, 76. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Karius, Milner, Alexander-Arnold, Mané.

Mörk Liverpool:  Philippe Coutinho (20. mín.), Dejan Lovren (26. mín.), Mohamed Salah (44. mín.) og Roberto Firmino (66. mín.).

Gult spjald:  Adam Lallana.

Maður leiksins:  Philippe Coutinho spilaði frábærlega og skoraði flottasta mark leiksins auk þess að leggja upp eitt.  Þegar Coutinho spilar svona vel þarf oftast ekki að spyrja að úrslitum leiksins.

Jürgen Klopp:  ,,Ég er virkilega ánægður með allt í leiknum, við byrjuðum mjög vel því við vissum hvernig þeir spila ef þeir fá sinn tíma.  Við vorum agaðir, mér líkaði vel hvernig við vörðumst í ákveðnum aðstæðum og taktískt séð vorum við mjög góðir.  Það er ekki hægt að skora endalaust því allir leikir eru erfiðir.  Fyrsta markið var frábært og það þriðja fannst mér vera í heimsklassa."

Fróðleikur:

- Mohamed Salah hefur nú skorað 20 mörk í öllum keppnum á tímabilinu og er það í fyrsta sinn sem leikmaður Liverpool nær því á einu tímabili síðan þeir Luis Suarez og Daniel Sturridge gerðu það tímabilið 2013-14.

- Salah varð einnig fyrsti leikmaður Liverpool til að skora 20 mörk áður en jólin ganga í garð síðan tímabilið 1986-87 þegar Ian Rush náði þeim áfanga.

- Roberto Firmino skoraði sitt sjötta deildarmark á leiktíðinni og hefur hann skorað 13 mörk í öllum keppnum.

- Coutinho skoraði sitt fimmta deildarmark og það tíunda í öllum keppnum.

- Dejan Lovren skoraði sitt fyrsta deildarmark á leiktíðinni.

Hér má sjá myndir úr leiknum.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan