| Heimir Eyvindarson

7 marka sigur og 16 liða úrslitin tryggð


Liverpool tryggði sér í kvöld sæti í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar með 7-0 sigri á Spartak Moskvu á Anfield. "The Fab Four" voru allt í öllu og eru komnir með 46 mörk í vetur.

Klopp gerði fimm breytingar á liðinu frá Brighton leiknum um helgina. Karius kom í markið, Moreno, Gomez og Klavan í vörnina og Mané inn í sóknina.

Það var mikið í húfi í kvöld fyrir bæði lið. Sigur hefði getað tryggt Rússunum annað sætið og Liverpool þurfti aðeins eitt stig til að gulltryggja sig í 16 liða úrslitin. Spennustigið hjá Dzikhya í vörn Spartak var greinilega aðeins of hátt því það voru ekki liðnar nema 3 mínútur af leiknum þegar hann færði okkar mönnum vítaspyrnu á silfurfati. Coutinho sendi þá frekar sakleysislegan bolta á Salah inní teignum og Dzikhya ákvað að rífa Egyptann niður. Dómarinn gat lítið annað gert en að dæma víti.

Coutinho, fyrirliði kvöldsins, fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Horfði aldrei á boltann, tók gabbhreyfingu til að koma markmanninum af stað og klíndi boltanum svo í hornið. Fagmannlega gert.

Þremur mínútum síðar má alveg halda því fram að Can hafi verið heppinn að sleppa með gult spjald eftir háskalega tæklingu úti á miðjum velli. Gula spjaldið þýðir hinsvegar að hann verður í banni í fyrri leiknum í 16 liða úrslitunum.

Á 15. mínútu skoraði Coutinho aftur og þvílíkt gull af marki sem það var. Lovren vann boltann í vörninni og sendi hann á Mané á miðjum vellinum. Hann sendi á Salah, Salah sendi á Firmino sem smellti svo gullsendingu fyrir markið á Coutinho sem kom á ferðinni og afgreiddi boltann í bláhornið. Frábært spil og glæsileg afgreiðsla.
Aðeins fjórum mínútum síðar var staðan svo orðin 3-0. Eftir að sending frá Mané fór í bakið á varnarmanni Spartak lúðraði Firmino boltanum í bláhornið, algjörlega óverjandi fyrir markvörð Spartak. Staðan 3-0 eftir 19 mínútur og Rússarnir vissu ekkert hvaðan á þá stóð veðrið.

Salah og Mané áttu báðir fín færi í fyrri hálfleik sem þeir náðu ekki að nýta, en staðan í leikhléi var nokkuð þægileg samt sem áður. 

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks fór Moreno meiddur af velli og Milner kom inn í hans stað. Eftir fimm mínútna leik í seinni hálfleik var hann kominn með tvær stoðsendingar og áður en leikurinn var úti voru þær orðnar þrjár. Geri aðrir betur. 

Á 47. mínútu sendi Coutinho út á vænginn á Milner sem sendi glæsilegan bolta á fjærstöngina. Þar tók Mané við honum viðstöðulaust í næstum axlarhæð og hamraði hann upp í þaknetið. Alveg ótrúlega flott afgreiðsla hjá Senegalanum. 
Á 50 mínútu sendi Milner síðan ágætu sendingu á Coutinho sem fullkomnaði þrennuna með heldur skrautlegu marki, skaut í hönd varnarmanns Spartak og þaðan í netið en fékk markið skráð á sig og hirti boltann í leikslok. Aðeins þriðja þrenna Liverpool leikmanns í Meistaradeildinni frá upphafi. 

Á 76. mínútu skoraði Mané öðru sinni, í þetta sinn eftir sendingu frá Sturridge sem kom inn fyrir Firmino fimm mínútum áður. Boltinn frá Sturridge var aðeins fyrir aftan Mané, en honum tókst að koma honum í netið. Staðan 6-0.

Á 81. mínútu hefði dómarinn alveg getað dæmt víti þegar markvörður Spartak tók Sturridge niður í teignum, en hann dæmdi ekkert. Hefur sjálfsagt ekki viljað auka enn frekar á þjáningar Rússana. 

Fimm mínútum síðar kom þriðja stoðsendingin frá Milner þegar hann skallaði boltann fyrir fætur Salah í teignum. Egyptinn var ískaldur, sneri fyrst á varnarmann Spartak með vinstri og setti boltann svo í bláhornið með hægri. Frábærlega gert.

Lokatölur leiksins 7-0 fyrir Liverpool. Það er kannski ánægjulegast við þennan sigur hvað leikmenn nýttu færin sín vel. Ég er ekki með tölfræði kvöldsins á hreinu en ég held að Liverpool hafi ekki átt mikið meira en 10-15 skottilraunir í kvöld. Að ná að skora úr u.þ.b. helmingi skotanna er stórkostleg bæting á færanýtingu frá sem því sem var fyrr i haust.   

Liverpool: Karius, Gomez, Lovren (TAA á 60. mín.), Klavan, Moreno (Milner á 44. mín.), Can, Wijnaldum Coutinho, Mané, Firmino (Sturridge á 71. mín.), Salah. Ónotaðir varamenn: Mignolet, Henderson, Oxlade-Chamberlain, Solanke. 

Mörk Liverpool: Coutinho á 4., 15. og 50. mín., Mané á 47. og 76. mín. Firmino á 19. mín. og Salah á 86. mín., 

Gult spjald: Can

Maður leiksins: Firmino, Mané, Salah og Coutinho eru í rauninni alveg fáránlega góðir leikmenn. Það var frábært að sjá hvað þeir unnu vel hver fyrir annan og hvað þeir eru illviðráðanlegir þegar þeir fara á ferðina. Það er samt ekki annað hægt en að taka Coutinho út og velja hann mann leiksins. Þrenna í kvöld og algjörlega frábær leikur hjá Brassanum. Annars var allt liðið gott og annars staðar á vellinum var kannski ánægjulegast að sjá hvað Gomes kom vel út, bæði í hægri bakverðinum og í miðverðinum. Virkilega góð frammistaða hjá öllum í kvöld og sæti í 16 liða úrslitunum tryggt. Orðið allt of langt síðan. 

Jürgen Klopp: ,,Þetta var virkilega góð frammistaða. Mér fannst liðið allt standa sig mjög vel, við gerðum örlitla breytingu á uppsetningunni til að fá betra jafnvægi í liðið, lögðum upp með 4-1-1 og mér fannst það heppnast mjög vel. Mané, Coutinho, Salah og Firmino voru frábærir frammi, Can og Wijnaldum höfðu öll völd á miðjunni, Karius kom til bjargar þegar á þurfti að halda o.s.frv. Frábær frammistaða hjá öllum. Ég er virkilega ánægður." 

Fróðleikur: 

-Liverpool skoraði 23 mörk í E riðli, ekkert enskt lið hefur skorað fleiri mörk í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Fyrra metið átti Manchester United, 21 mark. 

-Aðeins eitt lið hefur skorað fleiri mörk í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í sögunni. Það er PSG, sem náði 25 mörkum í ár. 

-"The Fab Four", Coutinho, Salah, Firmino og Mané, hafa nú skorað 46 mörk fyrir Liverpool á leiktíðinni. Salah er kominn með flest mörkin, alls 18. Þar af 7 í Meistaradeildinni (6 í riðlakeppninni og eitt í undankeppninni).

-Vítið sem Liverpool fékk á 3. mínútu var fyrsta vítið sem Liverpool fær á Anfield á þessari leiktíð. 

-Coutinho skoraði úr vítinu, eftir 3,51 mínútu. Liverpool hefur aldrei áður skorað svo snemma í Meistaradeildinni. 

-Þrennan hjá Coutinho var fyrsta þrenna hans fyrir Liverpool. Hann varð þar með þriðji leikmaður Liverpool í sögunni til að skora þrennu í Meistaradeildinni. Hinir tveir eru Yossi Benyaoun sem skoraði þrjú mörk í 8-0 sigrinum gegn Besiktas í nóvember 2007 og Michael Owen, sem skoraði þrennu á Anfield í október 2002. Gegn Spartak Moskvu.

-Liðin sem Liverpool getur mætt í 16 liða úrslitunum eru Batern Munchen, Real Madrid, Juventus, Shaktar Donetsk, Basel og Porto. Liverpool mun leika fyrri leikinn á útivelli 13. eða 14. febrúar. 

-Þetta var í 6. sinn sem Liverpool og Spartak mætast í Evrópukeppni. Í október 1992 mættust liðin í tveimur leikjum í Evrópukeppni bikarhafa. Spartak vann báða leikina, 4-2 í Moskvu og 2-0 á Anfield. Í riðlakeppni Meistaradeildarinnar haustið 2002 snerist taflið við og Liverpool sigraði báða leikina, 3-1 í Moskvu og 5-0 á Anfield.

-Frá því að Jürgen Klopp tók við Liverpool hefur liðið nú spilað 21 Evrópuleik og einungis tapað tvisvar. 

-Liverpool hefur ekki tapað Evrópuleik á Anfield síðan liðið tapaði 3-0 fyrir Real Madrid haustið 2014. 

-Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan