| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool tekur á móti Spartak Moskvu á Anfield á miðvikudagskvöld. Leikurinn er lokaleikur liðsins í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í ár - og má ekki tapast.

Liverpool er á toppi E riðils með 9 stig og 10 mörk í plús. Sevilla er í 2. sæti með 8 stig og Spartak Moskva er í 3. sæti með 6 stig. Liverpool nægir jafntefli til að komast í 16 liða úrslitin - og gæti svosem komist áfram þrátt fyrir tap, en þá yrði Maribor að skella Sevilla á Ljudski Stadion. Einhvernveginn finnst mér ólíklegt að það gerist. 

Ef lið enda jöfn að stigum gilda innbyrðis viðureignir, sem þýðir að þrátt fyrir glimrandi góða markatölu okkar manna kemst Spartak upp úr riðlinum með sigri. Það má alls ekki gerast, en einhvernveginn er það nú svo að maður getur aldrei treyst á að Liverpool klári svokallaða skyldusigra. Svo er líka eitthvað furðulegt við þetta Spartak lið, hvernig Rússarnir gátu valtað yfir Sevilla 5-1 en gert 1-1 jafntefli í báðum leikjunum við Maribor er allavega ansi kúnstugt. 
Við þekkjum ágætlega dramatíska lokaleiki í riðlakeppni, síðast þegar við vorum með (2014-2015) lékum við úrslitaleik við Basel á köldu desemberkvöldi á Anfield - ekki svo sællar minningar. Í nóvember 2002 missteig Liverpool liðið sig líka í lokaleik gegn Basel og sat eftir með sárt ennið. Tveimur árum síðar var svo grunnurinn að Istanbul ævintýrinu lagður með einum dramatískasta leik sem menn muna eftir á Anfield, þegar Steven Gerrard skoraði á lokamínútunum gegn Olympiakos og kom Liverpool upp úr riðlakeppninni á elleftu stundu. 

En að nútímanum. Eftir nokkra daga án teljandi meiðslavandræða er staðan á hópnum allt í einu orðin dálítið vandræðaleg. A.m.k. í vörninni. Joel Matip er meiddur og verður líklega frá út árið, Gomez hefur verið veikur og Klavan eitthvað slappur. Svo er Clyne auðvitað meiddur líka þannig að úrvalið af varnarmönnum er frekar takmarkað þessa dagana - og var það nú kannski ekki beysið fyrir. 

Við skulum vona að bæði Klavan og Gomez verði klárir fyrir miðvikudaginn, þá þarf ekki að treysta á Can og Wijnaldum í miðju varnarinnar, eins og á móti Brighton. Ekki það að þeir stóðu sig báðir ljómandi vel, en mótspyrnan var kannski ekkert svakaleg. 

Karius verður í markinu og Klopp mun örugglega tjalda því besta sem hann telur sig eiga til, enda gríðarlega mikið í húfi. Coutinho, Firmino, Mané og Salah verða held ég alveg örugglega með frá byrjun. 

Það er ákveðið móment með Liverpool í augnablikinu og vonandi endist það eitthvað aðeins. Það væri hrikalegur skellur að þurfa að fara í bévítans Evrópudeildina eftir áramót.

Ég spái 1-0 sigri í hrútleiðinlegum leik. Ragnar Klavan skorar markið. 

YNWA!   
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan