| Grétar Magnússon

Spáð í spilin (Uppfært)

Næsti leikur okkar manna er á heimavelli gegn Huddersfield og verður flautað til leiks klukkan 14:00 að íslenskum tíma, laugardaginn 28. október.

Fréttin hefur verið uppfærð með feitletruðum texta neðar í fréttinni.

Það þekkja flestir sögu Jürgen Klopp og David Wagner stjóra Huddersfield en þeir eru miklir vinir og Wagner var t.a.m. svaramaður Klopp í brúðkaupi hans.  Öllum ætti nú samt að vera ljóst að þeir tveir leggja vinskapinn til hliðar í u.þ.b. tvo klukkutíma á laugardaginn.

Huddersfield er gamalt stórveldi í enskri knattspyrnu og saga þess og Liverpool er nokkuð tengd.  Aðallega vegna þess að Bill Shankly stýrði Huddersfield áður en hann tók við Liverpool í desember árið 1959.  Liðin mættust einmitt á heimavelli Huddersfield þann 28. nóvember og þá var Liverpool búið að bjóða Shankly samning.  Hann ákvað að stýra Huddersfield ekki þann dag og leikurinn vannst 1-0.  Tveim dögum síðar sagði hann upp störfum og flestir þekkja nú söguna eftir það, a.m.k. hvað Liverpool varðar.

Liðin hafa aldrei mæst í ensku úrvalsdeildinni eins og gefur að skilja þar sem Huddersfield eru jú að spila í þeirri deild í fyrsta sinn í sögu félagsins.  Síðast mættust liðin í gömlu 1. deildinni þann 12. febrúar árið 1972 þar sem Liverpool sigruðu 0-1 á útivelli.  Liðin hafa þó mæst einu sinni síðan þá en það var í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar árið 1999.  Leikið var á heimavelli Huddersfield og Liverpool sigruðu 0-2 með mörkum frá Titi Camara og Dominic Matteo.

Mikið hefur verið rætt um varnarleik liðsins í vikunni eftir ansi lélega frammistöðu gegn Tottenham.  Dejan Lovren, sem tekinn var af velli eftir hálftíma leik, er sennilega að glíma við sögulega lágt sjálfstraust eftir þennan leik og óvíst hvort að hann byrji í vörninni með Matip.  Liverpool Echo voru með könnun á vef sínum á fimmtudaginn um hvaða miðvarðapar ætti að byrja leikinn og þar fengu þeir Matip og Joe Gomez 83% atkvæða sem sýnir hinn almenna vilja stuðningsmannana.  En hvað gerir Klopp ?  Vill hann setja Lovren aftur inn og treysta á að sjálfstraustið styrkist við það eða þorir hann ekki að tefla fram leikmanni sem hann veit að getur svo sannarlega misst hausinn á mikilvægum augnablikum í leikjum ?  Þetta kemur allt í ljós þegar byrjunarliðið verður tilkynnt.  Staða Simon Mignolet hefur einnig verið mikið rædd eins og svo oft áður og það kæmi nú svosem ekki á óvart ef hann stæði ekki á milli stanganna á morgun.  Klopp á erfiðar ákvarðanir fyrir höndum og hann er svosem ekki öfundsverður af þeim.

Engin ný meiðsli ættu að hafa skotið upp kollinum í leikmannahópnum þannig að ekkert slíkt ætti að hafa áhrif á val Klopp að þessu sinni.  Reyndar gat Gini Wijnaldum ekki leikið gegn Tottenham vegna smávægilegra meiðsla sem hann hlaut á æfingu en hann hefur jafnað sig af þeim.  Huddersfield, sem unnu frábæran sigur á Manchester United á heimavelli um síðustu helgi, eru með fimm leikmenn á sjúkralistanum.  Það eru þeir Kachunga, Billing, Hefele, Palmer og Stankovic, aðeins Kachunga er talinn líklegur til að ná þessum leik.

Nýjustu fregnir herma að Philippe Coutinho verði ekki með þar sem hann á við einhver smávægileg meiðsli að stríða.  Þeir sem bundu svo vonir við að Danny Ward myndi byrja í markinu munu ekki fá ósk sína uppfyllta þar sem hann er meiddur í baki.

Spáin að þessu sinni er sú að okkar menn hafa nú sigur í þessum leik en eins og svo oft áður gegn litlum liðum á Anfield verður það erfitt.  Eigum við ekki að segja að gestirnir skori snemma leiks en það tekst að jafna metin fyrir hálfleik.  Sigurmarkið kemur svo í seinni hálfleik, lokatölur 2-1.

Fróðleikur:

- Þeir Joel Matip, Mohamed Salah og Roberto Firmino eru einu leikmenn liðsins sem hafa komið við sögu í öllum níu deildarleikjum liðsins á tímabilinu.

- Salah er markahæstur það sem af er með 9 mörk í öllum leikjum, fimm í deild og fjögur í Meistaradeild.

- Þeir Laurent Depoitre, Aaron Mooy og Steve Mounie hafa allir skorað tvö mörk fyrir Huddersfield á tímabilinu.

-  Aðeins munar einu stigi á liðunum í deildinni.  Liverpool eru í níunda sæti með 13 stig og Huddersfield sitja í 11. sæti með 12 stig.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan