| Sf. Gutt

Ætla að sanna mig hjá Liverpool!


Jon Flanagan hefur ekki gefið upp alla von um að hann geti komist í lið Liverpool á nýjan leik. Hann ætlar að koma sterkur til baka úr láninu hjá Burnley. 

,,Ég hef verk að vinna hjá Burnley til loka leiktíðarinnar en þegar því er lokið vil ég snúa aftur og sanna mig hjá Liverpool. Trúin á sjálfan mig er minn helsti styrkleiki. Í gegnum tíðina hef ég náð að breyta áliti manna á mér og vinna mér sæti í sterku liði Liverpool."


Jon var lánaður til Burnley fyrir leiktíðina en hefur ekki spilað ýkja mikið. Meiðsli hafa eitthvað verið að stríða honum og svo hefur hann ekki náð að festa sig í sessi í liðinu. Jon var frábær í liði Liverpool leiktíðina 2013/14 og vann sér þá fast sæti í liðinu sem bakvörður og lofaði sannarlega góðu. Hann náði meira að segja að komast í enska landsliðið og leika einn landsleik þá um sumarið. En slæm meiðsli ollu því að hann missti af næstu leiktíð eins og hún lagði sig. Á síðasta keppnistímabili spilaði hann aðeins átta leiki og var ekki jafn góður og fyrir meiðslin. Það er því ekki gott að segja hvort hann á eftir að ná fyrri styrk. Það er þó öruggt að hann á eftir að leggja allt í sölurnar til að komast aftur í liðið sitt.

Jon Flanagan er, eins og allir vita alinn upp hjá Liverpool. Hann hefur spilað 50 leiki og skorað eitt mark.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan