| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Liverpool v. Manchester City

Hér heima á Íslandi er hefð fyrir því að fjölskyldur borða saman klukkan sex á aðfangadagskvöld og aftur að kveldi síðasta dags ársins. Nú setur stórleikur suður á Englandi strik í matarreikninginn. Það fer nú kannski ekki allt úr skoðum hér heima á Íslandi þó svo að Liverpool eigi að spila á móti Manchester City klukkan hálf sex á Gamlársdag. Reyndar er það ótrúleg vanvirðing við stuðningsmenn knattspyrnuliða, í því landi sem leikið er, að það eigi að spila leik síðdegis á Gamlársdag. Það er stutt á milli Liverpool og Manchester en sama er! Enn eitt dæmið um hvernig sjónvarpsstöðvar stjórna orðið knattspyrnunni!

En burt séð frá því öllu þá verður mikið undir á Anfield á morgun. Liverpool og Manchester City eru að berjast við að halda í við Chelsea sem er á ótrúlegri sigurbraut. Liðið hefur unnið síðustu 12 deildarleiki sína og síðustu vikur hafa næstu lið mátt hafa sig öll við að missa Chelsea ekki enn lengra frá sér. Liverpool og Manchester City eru næstu lið og þess vegna er leikurinn gríðarlega mikilvægur.  


Bæði lið unnu í síðustu umferð og nú er að sjá hvað gerist á morgun. Það var kannski búist við meiru af Manchester City enda miklar kröfur gerðar til nýja framkvæmdastjórans Pep Guardiola. City hefur hikstað af og til síðustu vikurnar en samt er liðið ekki lengra á eftir Chelsea og Liverpool en raun ber vitni. Framherjinn Sergio Aguero snýr aftur í liðið eftir leikbann og endurkoma hans á eflaust eftir að styrkja liðið. Um tíma voru bundnar vonir við að Philippe Coutinho yrði orðinn leikfær hjá Liverpool en svo verður ekki. Hann er þó farinn að æfa. Joel Matip er líka frá eins og í síðustu leikjum.
Liverpool vann báða deildarleikina á móti Manchester City á síðasta keppnistímabili en tapaði í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik Deildarbikarsins. Mestar líkur eru á jöfnum leik en ef eitthvað er þá ætti að vera meira sjálfstraust í liði Liverpool. Jürgen Klopp virðist á réttri leið með liðið og nú við áramót er mikil bjartsýni ríkjandi hjá stuðningsmönnum Liverpool. Sú bjartsýni mun ekki minnka eftir 2:1 sigur Liverpool. Jordan Henderson og Roberto Firmino skora mörkin sem auka á áramótagleðina hjá okkur stuðningsmönnum Liverpool!

Gleðilegt nýtt ár!

YNWA!TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan