| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Þá er síðasta landsleikjahléi ársins loksins lokið og næsti leikur er gegn Southampton á útivelli laugardaginn 19. nóvember.  Flautað verður til leiks kl. 15:00 að íslenskum tíma.

Eins og svo oft áður eru ekki mjög góðar fréttir af þeim leikmönnum sem voru að spila með landsliðum sínum í vikunni og um síðustu helgi.  Adam Lallana meiddist í vináttuleik gegn Spánverjum á þriðjudagskvöldið og talið er ólíklegt að hann verði klár í slaginn gegn sínum gömlu félögum.  Fréttir bárust svo af því í dag að Philippe Coutinho hafi sést fyrir utan spítala í Liverpool borg og þar með hafa farið af stað sögusagnir um að hann sé tæpur fyrir leikinn.  Hann spilaði jú báða leiki Brasilíu í liðinni viku og eftir langt ferðalag heim er ekki ólíklegt að hann þurfi á hvíld að halda.  Roberto Firmino var einnig í landsliðshópnum eins og flestir vita en hann spilaði ekki margar mínútur í fyrri leiknum og kom ekkert við sögu í þeim síðari.  En hvað sem því líður þá eru þessir tveir mikilvægu leikmenn, Lallana og Coutinho tæpir fyrir leikinn og enginn ætti að láta sér bregða ef þeir verða ekki með.

Margir leikmenn heimamanna í Southampton eru einnig í meiðslum en alls eru níu leikmenn liðsins á sjúkralista, þess má þó geta að sex þeirra eru taldir eiga ágætan möguleika á að ná leiknum en það eru þeir Dusan Tadic, Ryan Bertrand, Fraser Forster, Pierre Hojberg, Alex McCarthy og Cedric Soares.  Það væri vissulega skarð fyrir skildi hjá Southampton ef þessir leikmenn væru allir frá en væntanlega verður allt gert til þess að koma þeim í stand fyrir þennan leik.

Southampton sitja í 10. sæti deildarinnar með 13 stig á meðan okkar menn eru efstir með 26 stig.  Southampton hafa spilað 5 af 11 leikjum á heimavelli og hafa svosem ekki verið að gera neitt svakalega gott mót það sem af er.  Af 15 stigum mögulegum hafa þeir náð í 8 stig og þeir töpuðu síðasta heimaleik sínum gegn Chelsea 0-2.  Síðasti leikur hjá þeim fyrir landsleikjahlé var svo 2-1 tap fyrir Hull City.  Tveir tapleikir í röð í deildinni er væntanlega eitthvað sem þeir vilja breyta og leikmennirnir hugsa sér ábyggilega gott til glóðarinnar að gera toppliðinu skráveifu.  Margir muna eftir síðasta leik þessara liða í deildinni sem fór fram 20. mars.  Liverpool komst í 0-2 og þannig var staðan í hálfleik.  Allt breyttist svo til hins verra í síðari hálfleik og heimamenn sigruðu 3-2 þar sem Sadio Mané skoraði tvö markanna og misnotaði vítaspyrnu einnig.  Hann er nú sem betur fer í réttu liði og vonandi setur hann mark á sína gömlu félaga að þessu sinni.

Sé litið til síðustu sex leikja liðanna á heimavelli Southampton má sjá að fjóra leiki hafa Southampton unnið og tvo hefur Liverpool unnið.  Síðasti sigurleikur gegn þeim á útivelli var 22. febrúar árið 2015 þegar Coutinho skoraði glæsimark með langskoti sláin inn snemma leiks og Raheem Sterling skoraði svo í síðari hálfleik.  En við skulum leggja tölfræðina aðeins til hliðar og spá fyrir um leikinn.

Það verður þó að minnast á eitt mikilvægt atriði áður en spáin er kunngjörð og það er að dregið verður í skráningarleiknum okkar í Liverpoolklúbbnum á Íslandi í hálfleik.  Allt fer þetta að sjálfsögðu fram á heimavelli okkar, Spot í Kópavogi og eru glæsilegir vinningar í boði fyrir alla þá sem skráðu sig í klúbbinn fyrir 17. nóvember.  Auk þess eru drykkjarföng í boði á meðan birgðir endast og við hvetjum því alla sem hafa tök á að mæta snemma á Spot og mynda góða stemmningu.

En aftur að spánni.  Ég hallast að því að þetta verði erfiður leikur fyrir gestina og að heimamenn verði aldeilis klárir í slaginn til að koma sér aftur á sigurbraut í deildinni.  Það tekst þó ekki en hvorugu liðinu tekst að vinna sigur, eigum við ekki að segja að úrslitin verði 2-2 þar sem annaðhvort liðið mun jafna metin í blálokin á dramatískan hátt.  Auðvitað vonumst við þó eftir því eins og venjulega að þrjú stig fylgi Jurgen Klopp og hans mönnum heim á leið.

Fróðleikur:

- Southampton hafa skorað að meðaltali 1.09 mörk í leik það sem af er tímabils í deildinni.

- Liverpool hafa hinsvegar skorað 2.73 mörk að meðaltali í deildinni.

- Sadio Mané er markahæstur í deildinni með sex mörk en þeir Coutinho og Firmino hafa skorað einu marki færra.

- Markahæstur hjá Southampton er Charlie Austin með fimm mörk.

- Emre Can mun að öllum líkindum spila sinn 100. leik fyrir félagið í öllum keppnum á laugardaginn.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan