| Sf. Gutt

Daniel skaut Liverpool í átta liða úrslit!

Daniel Sturridge skaut Liverpool áfram í átta liða úrslit í Deildarbikarnum með því að skora bæði mörkin í 2:1 sigri á Tottenham Hotspur á Anfield. Vonandi kemst Liverpool aftur í úrslitaleikinn í keppninni til að bæta fyrir tapið á síðustu leiktíð. 

Það þótti líklegt að Jürgen Klopp myndi gera nokkrar breytingar á liðinu sínu fyrir leikinn en fáir reiknuðu með að hann myndi skipta liðinu úr síðasta leik alveg út. Það gerði hann og varnarmaðurinn Trent Alexander-Arnold lék í fyrsta sinn með aðalliðinu. Ovie Ejaria var líka í byrjunarliðinu í fyrsta sinn en hann lék sinn fyrsta leik í síðustu umferð. Annars var byrjunarliðið býsna sterkt og þeir Daniel Sturridge og Divock Origi leiddu framlínuna. Simon Mignolet kom í markið eftir að hafa verið síðustu leiki á bekknum. Reyndar mátti sjá að Jürgen og ráðgjafar hans vildu hafa vaðið fyrir neðan sig því varamenn liðsins voru felstir byrjunarliðsmenn úr síðasta leik. Það var ekki bara Liverpool liðið sem var mikið breytt því aðeins einn úr síðasta byrjunarliði Tottenham hóf leikinn. 

Liverpool byrjaði af krafti og á 9. mínútu kom fyrsta markið. Leikmaður Tottenham féll við og missti boltann rétt utan vítateigs síns. Marko Grujic hirti boltann, lék fram að vítateignum og skaut. Skotið var ekki vel heppnað, fór í varnarmann og hrökk af honum fyrir markið. Enginn hætta virtist á ferðum en Daniel Sturridge var eldsnöggur að átta sig, komst fyrstur að boltanum og skaut honum í markið. Vel gert og bæði maður og bolti enduðu í markinu!

Strax í næstu sókn ógnaði Daniel aftur þegar skot hans utarlega í vítateginum hægra megin stefndi upp í hornið en Michel Worm verði meistaralega í horn. Á 18. mínútu hefði Daniel getað verið búinn að skora þrennu. Divock Origi tók þá magnaða rispu frá miðju inn í vítateginn og náði þar að senda boltann til vinstri á Daniel sem fékk boltann frír en skot hans var laust og fór beint á Michel. Dauðafæri sem Daniel hefði átt að notfæra sér. 

Gestirnir ógnuðu fyrst eftir rúmlega 20 mínútur. Vincent Janssen skallaði þá yfir úr góðu færi eftir aukaspyrnu. Um tíu mínútum seinna gerði Tottenham harða hríð að marki Liverpool og Vencent átti fast skot utarlega við markteiginn sem Simon Mignolet gerði vel í verja neðst í horninu. Eftir þetta gerðist fátt fram að leikhléi. 

Liverpool fékk fyrsta færi síðari hálfleiks á 53. mínútu þegar Divock braust fram kantinn hægra megin og sendi fyrir markið en Daniel hitti ekki boltann á markteignum. Aftur gott færi hjá Daniel sem hefði átt að vera kominn með þrennu. Divock sýndi sitt besta á leiktíðinni og eftir klukkutíma þrumaði hann utan vítategis en Michel gerði vel í að slá boltann yfir. Fjórum mínútum seinna lá boltinn að baki honum. Georginio Wijnaldum, sem átti mjög góðan leik, átti þá hárnákvæma stungusendingu á Daniel sem komst á auðan sjó og skoraði framhjá Michel þegar hann var nýkominn inn í vítateiginn. Verðskulduð forysta sem þó var í minnsta lagi. 

Á 73. mínútu fékk Liverpool aukaspyrnu rétt utan vítategis. Georginio tók hana en landi hans varði enn einu sinni og hann var sannarlega búinn að bjarga sínu liði frá því að vera fjórum eða fimm mörkum undir. En upp úr þurrku komust Hanarnir inn í leikinn. Á 76. mínútu var dæmt víti á Lucas Leiva fyrir að sækja að Eric Lamela sem kom inn á sem varamaður. Sakirnar voru litlar en dómurinn stóð. Lucas, sem spilaði vel, hefði reyndar átt að láta Eric eiga sig. Vincent Janssen tók vítið og skoraði. 

Líkt og á móti W.B.A. um helgina gat nú allt gerst á lokakaflanum því Liverpool hafði ekki skorað hafn mörg mörk og vel hefði verið hægt. Lokakaflinn var mjög fjörugur. Á 80. mínútu sótti Liverpool hratt, Daniel fékk boltann rétt utan vítategis og tók laglegt utanfótarskot sem strauk varnarmann og virtist stefna í markið en Michel náði að slá boltann í slána og þaðan fór hann yfir.

Gestirnir reyndu hvað þeir gátu til að jafna og þegar fjórar mínútur voru eftir kom fyrirgjöf inn í vítateig Liverpool frá vinstri. Varamaðurinn Shayon Harrison fékk boltann einn og yfirgefinn en náði ekki valdi á honum og Simon var snöggur að ná honum. Rétt á eftir slapp Danny Ings einn í gegn og þrumaði að marki við vítateiginn en Michel varði stórvel í horn. Liverpool hafði sanngjarnan sigur sem hefði aldrei átt að vera í hættu. Liðið er komið í átta liða úrslit og nú er að halda áfram á sömu braut. Þetta mikið breytta lið Liverpool spilaði stórvel og ungu strákarnir stóðu fyrir sínu!

Liverpool: Mignolet; Alexander-Arnold (Clyne 68. mín), Klavan, Leiva, Moreno; Stewart, Ejaria; Origi (Ings 68. mín.), Grujic (Can 89. mín.), Wijnaldum og Sturridge. Ónotaðir varamenn: Karius, Lovren, Lallana og Mane. 

Mörk Liverpool: Daniel Sturridge (9. og 64. mín.)

Gul spjöld:
Trent Alexander-Arnold, Danny Ings og Marko Grujic.  

Tottenham Hotspur: Vorm; Trippier, Carter-Vickers , Wimmer, Davies; Dier (Wanyama 67), Winks; Onomah, Carroll (Lamela 61), Nkoudou (Harrison 83) og Janssen. Ónotaðir varamenn: Amos, Vertonghen, Lopez Sabata og Walkes.

Mark Tottenham: Vincent Janssen, víti, (76. mín.).

Gul spjöld: Kevin Wimmer og Harry Winks.

Áhorfendur á Anfield Road: 53.051.

Maður leiksins: Daniel Sturridge. Þessi magnaði framherji skaut Liverpool áfram í keppninni og var óheppinn að skora ekki fleiri mörk. Hann var alltaf ógnandi og varnarmenn Tottenham voru í miklum vandræðum með hann. 

Jürgen Klopp: Leikurinn var svipaður því sem ég bjóst við á jákvæðan hátt fyrir okkur. Svo misstum við um tíma einbeitinguna og komum okkur sjálfum í vandræði. En í heildina séð var þetta mjög jkvætt frá okkar sjónarhóli séð og við unnum verðskuldaðan sigur.

Fróðleikur

- Liverpool er komið í átta liða úrslit í Deildarbikarnum.

- Daniel Sturridge hefur nú skorað fjögur mörk á leiktíðinni. 

- Öll mörkin hefur hann skoraði í Deildarbikarnum.

- Daniel hefur verið duglegur að skora í Deildarbikarnum fyrir Liverpool. Hann er búinn að skora átta mörk í aðeins sex leikjum í keppninni. 

- Trent Alexander-Arnold lék sinn fyrsta leik fyrir hönd Liverpool. 

- Þetta var í sjöunda sinn sem liðin mætast í keppninni. Liverpool komst áfram í þriðja sinn.

Hér eru
myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan