| Sf. Gutt

Spáð í spilin



Liverpool v. Tottenham Hotspur

Liverpool stendur vel í deildinni á þessum tímapunkti en það er fyrir öðru að berjast. Annað kvöld er Deildarbikarleikur á Anfield Road og með sigri kemst Liverpool enn nær Wembley þar sem liðið tapaði úrslitaleik í keppninni á síðustu leiktíð. Margir myndu telja að  Jürgen Klopp ætti að róa öllum árum að því að ná sem bestum árangri í deildinni en bikarkeppnirnar skipta líka miklu máli og nú þegar Evróukeppni er ekki í boði ætti að leggja allt í að reyna að komast sem lengst í bikarkeppnunum. 


Eftir sigur á West Bromwich Albion um síðustu helgi og umferðina alla er Liverpool í hópi þriggja liða sem leiða deildina. Um næstu helgi bíður svo erfiður útileikur við Crystal Palace. Það gæti því orðið ofan á að Jürgen Klopp breyti liðinu sínu talsvert frá síðasta deildarleik. Hann gaf það fyllilega í skyn á blaðamannafundi í dag að breytingar yrðu gerðar og það fleiri en færri. Hann staðfesti meira að segja að Simon Mignolet myndi taka stöðuna í markinu og eins sagði hann að Danny Ings kæmi við sögu. Adam Lallana og Georginio Wijnaldum voru nýlega meiddir og af þeim sökum verður þeim trúlega hlíft. 



Það er gott að geta notað liðshópinn og það hefur Jürgen gert hingað til í keppninni á móti Burton og Derby en það má alls ekki veikja liðið of mikið með of mörgum breytingum. Reyndar staðfesti framkvæmdastjóri Tottenham að hann myndi líka gera breytingar á sínu liði. Þar á bæ er leikjaálagið reyndar mun meira því liðið er í Meistaradeildinni og því verða örugglega margar breytingar gerðar. Tottenham er meðal efstu liða í deildinni og hafa mjög sterku liði á að skipa. Þeir hafa líka býsna breiðan leikmannahóp þannig að lið þeirra verður örugglega sterkt þó breytingar verði gerðar.    

Annað sem getur verið áhættusamt við of margar breytingar er að breytingar, geta komið liði sem er að spila vel, úr jafnvægi. Það er því á margt að líta en við verðum að treysta þeim sem stjórna liðinu til að taka þær ákvarðanir sem komu öllu best. Stuðningsmenn Liverpool vilja að liðið þeirra komist sem lengst í þessari keppni sem og öðrum og sigur annað kvöld kemur Liverpool í átta liða úrslit. Ég spái því að Liverpool muni komast þangað eftir 2:0 sigur. Divock Origi og Danny Ings skora mörkin. 

YNWA!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan