| Grétar Magnússon

Gomez á batavegi

Varnarmaðurinn Joe Gomez hefur verið frá vegna meiðsla í næstum því heilt ár en þessi ungi leikmaður er nú sagður vera á góðri leið með að ná sér að fullu af meiðslum sínum.

Gomez, sem er 19 ára, skaddaði liðbönd í hægra hné í leik með U-21 árs landsliði Englands í október í fyrra.  Hann var svo nálægt því að snúa að fullu aftur til æfinga í júlímánuði síðastliðnum en þá greindist hann með meiðsli í hásin sem hafa haldið honum frá æfingum síðan þá.

Ekki hefur verið ákveðin nákvæm dagsetning á endurkomu Gomez til æfinga en hann hefur verið í stöðugri meðferð hjá sjúkraþjálfarateymi félagsins og það gæti jafnvel verið að hann byrji að æfa aftur um miðjan október.  Náist það mun hann svo þurfa að æfa stíft og vel til að koma sér í leikform áður en Jurgen Klopp getur farið að hugsa um að setja hann í liðið.

Klopp hefur mikla trú á Gomez og er það ein ástæða þess að ekki var ákveðið að kaupa fleiri varnarmenn í leikmannaglugganum.  Hægra hné hans er nú í góðu lagi og allt snýst nú um að meðhöndla þessi meiðsli sem hrjá hann núna.

Síðasti leikur Gomez fyrir félagið var í 1-1 jafntefli gegn FC Sion í Evrópudeildinni þann 1. október í fyrra og 12 dögum síðar meiddist hann svo eins og áður sagði í leik með U-21 árs liði Englendinga þegar þeir mættu Kasakhstan.

Gomez kom frá Charlton Athletic í fyrrasumar fyrir 2.5 milljónir punda og fór strax í byrjunarliðið hjá Brendan Rodgers í upphafsleikjum síðasta tímabils.  Þar stóð hann sig vel og því verður gaman að sjá hann snúa til baka undir stjórn Jurgen Klopp.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan