| Sf. Gutt

Stormur í vatnsglasi!


Á dögunum var því slegið upp í ýmsum fjölmiðlum að Daniel Sturridge væri mjög ósáttur við að þurfa að leika úti á köntunum en þar hefur hann stundum spilað. Hann hefur þá gjarnan verið einn af þremur í framlínunni en ekki í miðjunni. 


Þegar viðtalið var betur skoðað var Daniel ekki jafn harðorður eins og sumir vildu vera láta í yfirdrifnum fyrirögnum dagblaða og annarra fjölmiðla. Daniel reyndar leyndi því ekki að hann vildi helst spila sem fremsti maður en hann myndi engu að síður spila þar sem hann væri beðinn. Jürgen Klopp hefur sagt að hann vilji hafa Daniel í fremstu víglínu en fremstu menn þurfi að geta verið sveigjanlegir í sínum stöðum. Jürgen benti á að Daniel hefði verið réttur maður á réttum stað á móti Burton og skorað tvívegis. Hann sagði að Daniel hafði aldrei kvartað yfir því hvar hann hefði verið beðinn um að spila. Líklega hefur því umfjöllun fjölmiðla um viðtalið við Daniel verið stormur í vatnsglasi.  


Daniel skoraði tvö mörk eftir að hann kom inn á sem varamaður í Deildarbikarnum gegn Burton um daginn. Það þarf enginn að velkjast í vafa um að Daniel er mesti markaskorari sem Liverpool getur teflt fram á leiktíðinni verði ekki sóknarmaður keyptur áður en lokað verður fyrir félagaskipti. Vandinn felst á hinn bóginn í því hversu mikið Daniel hefur verið meiddur síðustu árin. Vonandi verður heilsufarið betra á nýhafinni leiktíð en síðustu misseri. Gengi Liverpool gæti að miklu ráðist af því hversu Daniel nær að spila mikið en hann þarf líka að fá að spila í fremstu víglínu. Þar er hann hættulegastur!
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan