| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Okkar menn halda á White Hart Lane til að etja kappi við Tottenham Hotspur í fyrsta leik 3. umferðar úrvalsdeildarinnar, leikurinn hefst kl. 11:30 að íslenskum tíma.

Klopp og hans menn áttu góðan leik gegn Burton Albion í miðri viku þar sem 0-5 sigur vannst en síðasti deildarleikur var eitthvað allt annað þar sem liðið steinlá 2-0 gegn Burnley.  Tottenham eru klárlega með sterkara lið en Burnley og því dugir ekki að byrja leikinn eins illa og á laugardaginn var.

Nýjustu fréttir herma að Philippe Coutinho sé tæpur fyrir leikinn en hann kvartaði undan eymslum aftan í læri eftir leikinn við Burnley og var ekki með á þriðjudaginn í deildarbikarnum.  Þeir Emre Can og Divock Origi eru einnig tæpir en þeir fóru báðir útaf vegna meiðsla á þriðjudagskvöldið.  Sem fyrr eru svo þeir Sheyi Ojo, Lucas, Loris Karius, Joe Gomez og Mamadou Sakho á meiðslalistanum.  Jurgen Klopp mun taka ákvörðun í dag um þá Coutinho, Can og Origi en það má líklega búast við því að þeir nái ekki þessum leik.

Hjá heimamönnum í Tottenham er aðeins einn leikmaður á meiðslalistanum það er þó mikilvægur leikmaður fyrir þá. Markvörðurinn Hugo Lloris er meiddur.  Tottenham eru með 4 stig eftir fyrstu tvo leikina, þeir gerðu jafntefli við Everton á útivelli í fyrstu umferð og unnu svo Crystal Palace 1-0 í síðustu umferð.  Ætli okkar menn sér ekki að lenda í ströggli með deildina í upphafi móts verður hreinlega að sækja stig á þennan völl, það væri afskaplega vont ef þessi leikur myndi tapast.  En síðustu ár hafa einmitt verið góð hvað varðar viðureignir við Tottenham á þeirra heimavelli.  Á síðasta tímabili gerðu liðin markalaust jafntefli í nokkuð fjörugum leik en það var einmitt fyrsti leikurinn sem Jurgen Klopp stýrði liðinu í.  Þann 31. ágúst 2014 unnu okkar menn svo góðan 0-3 sigur og 15. desember 2013 vannst glæsilegur 0-5 sigur.  Síðasti sigur Tottenham á okkar mönnum á heimavelli var 2-1 sigur í nóvember árið 2012.

Það er morgunljóst að leikurinn verður mjög erfiður og ekki þýðir að byrja leikinn rólega eins og leikmenn Liverpool hafa gert í þessum tveim deildarleikjum sem þeir hafa spilað til þessa.  Gegn Arsenal var fyrri hálfleikur alls ekki góður en Coutinho reddaði málum rétt fyrir hálfleik með glæsilegu marki.  Gegn Burnley voru menn varla mættir til leiks þegar heimamenn skoruðu á 2. mínútu og áfram héldu menn að ströggla og fengu svo á sig annað mark fyrir hálfleik.  Þetta þýðir ekki gegn næstu mótherjum því þeir pressa einnig hátt eins og önnur lið hafa gert á móti Liverpool og hingað til hefur það virkað vel.

Líklegt byrjunarlið hjá Liverpool er að mínu mati þetta:  Mignolet í markinu, í vörninni þeir Clyne, Lovren, Matip og Milner.  Á miðjunni Henderson, Wijnaldum og Lallana, fremstir verða svo þeir Firmino, Mané og Sturridge.  Margir myndu segja að miðjan sé helsta vandamálið hér og að það vanti mann sem skýli vörninni betur, það kom svosem berlega í ljós gegn Burnley að Wijnaldum og Henderson eru ekki leikmenn sem eru nógu duglegir að sópa upp á miðjunni en ef menn spila eins og Klopp leggur upp, berjast fyrir öllum boltum og pressa duglega þá ætti þetta nú að vera í lagi.

Við sjáum til hvernig þetta fer alltsaman en spáin að þessu sinni er sú að leikurinn endar með jafntefli 1-1.  Okkar menn skora fyrst en Tottenham jafna metin í seinni hálfleik og þar við situr.

Fróðleikur:

- Þeir Daniel Sturridge og Philippe Coutinho hafa báðir skorað tvö mörk til þessa á tímabilinu.

- Bobby Madley er dómari leiksins en síðasti leikur sem hann dæmdi hjá liðinu var 1-1 jafntefli gegn WBA í lokaleik síðasta tímabils.

- Annars er árangur okkar manna ágætur þegar Madley dæmir, 3 sigrar, 2 jafntefli og 1 tap.

- Adam Lallana mun líklega spila sinn 60. leik fyrir félagið í úrvalsdeild, hann hefur skorað 10 mörk til þessa í 59 leikjum.

- James Milner mun að sama skapi líklega spila sinn 30. úrvalsdeildarleik en hann hefur skorað 5 mörk í 29 leikjum.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan