| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Burnley v Liverpool

Aðra umferðina í röð leikur Liverpool á útivelli. Eftir góðan útisigur á stórliði Arsenal er ekki annað hægt en að gera kröfu um sigur á Burnley sem kom aftur upp í efstu deild í vor eftir eins árs fjarveru. Það er þó alveg óhætt að bera fulla virðingu fyrir Burnley. Liðið er seigt og það er til fyrirmyndar að stjórn félagsins sýndi framkvæmdastjóranum Sean Dyche tryggð eftir fallið og hann kom þeim aftur upp í efstu deild snúningalaust. 


Jürgen Klopp hefur nú sína fyrstu heilu leiktíð með Liverpool. Hún byrjaði með mögnuðum útisigri á Arsenal og nú þarf að halda áfram á sömu braut. Margir hafa litið til þess að Liverpool geti gert harða atlögu að Englandsmeistaratitlinum því ekki verður Evrópuleikjum fyrir að fara á leiktíðinni. Þetta var gert undir stjórn Brendan Rodgers á leiktíðinni 2013/14 og liðið fór langt að ná tilsettu marki. Það ættu allar forsendur að vera til þess að hægt sé að fara á fullum krafti í hvern einasta deildarleik núna eins og um sé að ræða bikarleik þar sem allt er undir. Einmitt þetta vil ég sjá frá liðinu á þessu keppnistímabili!


Sadio Mané verður ekki með en James Milner og Daniel Sturridge sem ekki voru til taks í fyrstu umferð eru nú inni í myndinni. Allir menn skipta máli og það verður gott að fá þá tvo aftur. Sérstaklega verður athyglisvert að sjá hvað Daniel gerir á leiktíðinni. Mitt álit er að hann geti skipt sköpum um hversu vel Liverpool gengur. En til þess verður hann að vera heill heilsu og þar stendur hnífurinn í kúnni. Hann var til dæmis meiddur um síðustu helgi!

Liverpool kemur af fullum krafti til leiks og vinnur 0:2 í Burnley. Philippe Coutinho heldur áfram þaðan sem frá var horfið í fyrsta leik og skorar bæði mörkin. 

YNWATIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan