| Sf. Gutt

Spáð í spilinVillarreal v Liverpool 

Það er farið að styttast í keppnistímabili sem hefur verið erfitt. Gengið hefur verið upp og niður en það er þó enn von til að bæta titli á afrekaskrána. Í raun er það ótrúlegt miðað við allt og allt. Tveir framkvæmdastjórar hafa stýrt skútunni. Lykilmenn hafa meiðst. Hvert bakslagið hefur rekið annað. Úrslitaleikur tapaðist. En samt gæti þetta keppnistímabil endað á því að við stuðningsmenn Liverpool fögnuðum titli! 


Eftir að hafa slegið stórlið Manchester United og Borussia Dortmund út í eftirminnilegum rimmum í síðustu tveimur umferðum er komið að síðustu hindruninni fyrir sjálfan úrslitaleikinn. Í veginum er spænska liðið Villareal. Sem stendur eru aðeins Barcelona og Madrídarliðin á undan Villarreal í spænsku deildinni. Þau lið eru meðal þeirra allra bestu í allri Evrópu svo Villarreal hlýtur að vera erfiður andstæðingur og það er liðið sannarlega. Vörn liðsins þykir til dæmis sérlega óárennileg.


Ljóst má vera að Liverpool þarf á öllu sínu að halda til að komast í úrslitaleikinn. Lykillinn er að ná góðum úrslitum á Spáni. Það verður þó enginn hægðarleikur. Frá því Liverpool sló Borrussia Dortmund út hafa þrír lykilmenn heltst úr lestinni. Fyrst Emre Can, svo Divock Origi og nú síðast Mamadou Sakho. Hinir tveir fyrrnefndu meiddust en Mamadou féll í það gryfju að dæma sjálfan sig úr leik. Um þessa þrjá, sem léku lykilhlutverk á móti United og Dortmund, munar mikið og ekki síst í þeim stórleikjum sem framundan eru. Á móti kemur að nú er Christian Benteke leikfær á nýjan leik og vonandi nær hann að rífa sig í gang til loka leiktíðarinnar.


Þó svo að Liverpool eigi framundan leiki sem gætu leitt til mikillar gleði á vordögum þá verður gleðin varla meira en nú í fyrradag þegar sannleikurinn um það sem gerðist á Hillsbrough var staðfestur. Fólkið sem náði þeirri niðurstöðu fram sýndi endalausa þrautsegju og leikmenn Liverpool ættu að taka það sér til fyrirmyndar í þeim leikjum sem eftir eru á leiktíðinni. Fyrst á Spáni annað kvöld og Liverpool mun ná 0:1 sigri. Daniel Sturridge heldur áfram á sömu braut og hann hefur verið á í síðustu leikjum!

YNWA!

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan