| Grétar Magnússon

Jafntefli í Þýskalandi

Divock Origi skoraði mikilvægt útivallarmark gegn Dortmund þegar liðin gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leik 8-liða úrslita Evrópudeildarinnar.  Allt lítur nú út fyrir æsispennandi leik á Anfield næsta fimmtudag.

Það kom svolítið á óvart að Klopp skyldi stilla Divock Origi upp í framlínunni í stað Daniel Sturridge en þegar menn skora mörk er aldrei spurt af hverju þeir fengu að spila.  Að öðru leyti var byrjunarliðið hefðbundið skipað en Roberto Firmino var ekki treyst til að byrja eftir að hafa snúið til baka eftir meiðsli en hann var klár á varamannabekknum.  Fyrir leik sungu stuðningsmenn beggja liða You'll never walk alone og var það mögnuð stund og forleikur að því sem koma skyldi í leiknum.

Heimamenn byrjuðu betur og beittu góðri pressu framarlega á vellinum sem oft virtist ætla að virka en leikmenn Liverpool náðu að spila sig út úr slæmum stöðum.  Það var þó ekki fyrr en eftir korters leik að heimamenn náðu fyrsta markverða tækifærinu þegar Marco Reus skaut vel framhjá markinu rétt fyrir utan vítateiginn.  Mikil hætta skapaðist þó skömmu síðar er Reus fékk flotta sendingu innfyrir vítateiginn vinstra megin, hann sendi boltann fyrir markið og þar kom Henrikh Mkhitaryan aðvífandi og virtist eiga auðvelt verk fyrir höndum að setja boltann í markið.  En Mamadou Sakho var ekki á sama máli og náði að komast í veg fyrir skotið, gríðarlega mikilvæg vörn þar á ferðinni hjá Frakkanum.

Fyrsta færi gestanna var þegar Dejan Lovren fékk fínt skallafæri á markteig, skallinn var hinsvegar ekki góður og fór beint niður í grasið og skoppaði til Weidenfeller í markinu.  Hann átti þó í smá vandræðum með að ná valdi á boltanum og Lovren sá sér leik á borði en markvörðurinn var fyrri til boltans.  Þeir tveir lentu í samstuði og þurfti Weidenfeller smá aðhlynningu í kjölfarið sem og Lovren en allir gengu heilir frá þessu atviki og héldu leik áfram.   Pierre-Emerick Aubameyang markahæsti leikmaður Dortmund á tímabilinu nýtti sér svo slaka sendingu Jordan Henderson og skeiðaði í átt að marki en aftur var Sakho vel á verði og komst í veg fyrir skotið.  Heimamenn reyndu áfram að vera fyrstir til að skora en höfðu ekki erindi sem erfiði.

Á 36. mínútu kom fyrsta mark leiksins og það var gestanna.  Alberto Moreno lyfti boltanum áfram upp völlinn þar sem James Milner skallaði hann áfram.  Divock Origi var skyndilega kominn í góða stöðu og keyrði í átt að marki, tveir varnarmenn Dortmund náðu að komast á milli Origi og marksins og allt leit út fyrir að færið væri farið til spillis en Origi var ekki á sama máli, sneri sér snöggt við og skaut að marki, með viðkomu í varnarmanni hafnaði boltinn í fjærhorninu og var markinu gríðarlega vel fagnað.  Skyndilega voru heimamenn orðnir óöruggir og þeir máttu þakka Sven Bender fyrir að James Milner skoraði ekki annað mark skömmu síðar.  Aubameyang fékk svo úrvalsfæri í lok fyrri hálfleiks en Lovren var þá mættur á vaktina og náði að blokka skot hans sem hefði ábyggilega endað í markinu.  Í uppbótartíma fyrri hálfleiks fékk svo Origi úrvals færi til að skora 2-0 er hann komst einn í gegn en Weidenfeller kom strax út á móti og varði skotið.  Skömmu áður vildu heimamenn meina að brotið hefði verið á einum leikmanna þeirra og Weidenfeller var ekki par hrifinn af dómara leiksins og lét hann heyra það eftir að flautað hafði verið til hálfleiks.  Dómarinn sá enga ástæðu til annars er að spjalda markvörðinn fyrir kjaftbrúk.

Joe Allen kom inná fyrir Jordan Henderson í hálfleik en svo virðist sem að meiðsli Henderson á hné séu frekar alvarleg og bíðum við frétta af þeim í dag.  En seinni hálfleikur var aðeins þriggja mínútna gamall þegar heimamenn höfðu jafnað metin.  Þar var að verki fyrirliðinn Mats Hummels en hann var einn og óvaldaður á markteig og skallaði í markið.  Slakur varnarleikur þar á ferð hjá okkar mönnum en stutt hornspyrna heimamanna virtist setja menn útaf laginu og Adam Lallana var allt í einu að dekka Hummels og það er ójafn leikur.  Þarna héldu margir að heimamenn myndu ganga á lagið en svo reyndist þó ekki vera.

Eitt besta færi leiksins, að minnsta kosti seinni hálfleiks, féll gestunum í skaut er þeir náðu í þrígang góðum skotum á mark heimamanna.  Fyrst var það Coutinho, sem að öðru leyti hafði hægt um sig í leiknum, sem náðu góðu skoti úr teignum en stórkostleg markvarsla Weidenfeller kom í veg fyrir mark.  Nathaniel Clyne þrumaði svo að marki rétt fyrir utan teiginn en Weidenfeller varði aftur, Coutinho náði þá boltanum en hafði ekki erindi sem erfiði í þriðja skotinu í röð á markið því Weidenfeller var réttur maður á réttum stað.  Heimamenn ógnuðu ekki mikið í seinni hálfleik, þeir náðu skoti á markið þegar Reus skaut úr aukaspyrnu en Mignolet greip boltann auðveldlega.  Bæði lið reyndu hvað þau gátu til að skora en fá færi sköpuðust það sem eftir var og niðurstaðan því 1-1 jafntefli, sem verður að teljast ágæt úrslit fyrir okkar menn.  Leikurinn á Anfield eftir tæpa viku verður æsispennandi að öllum líkindum og bæði lið telja sig eiga góðan möguleika á því að fara áfram í keppninni.

Borussia Dortmund:  Weidenfeller, Piszczek, Bender (Papastathopoulos 76. mín.), Hummels, Schmelzer, Weigl, Castro, Durm (Sahin, 45. mín.), Mkhitaryan, Reus, Aubameyang (Pulisic, 77. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Leitner, Kagawa, Ginter, Bürki.

Mark Dortmund:  Mats Hummels (48. mín.).

Gul spjöld:  Weidenfeller, Papastathopoulos og Reus.

Liverpool:  Mignolet, Clyne, Lovren, Sakho, Moreno, Can, Milner, Henderson (Allen, 45. mín.), Coutinho, Lallana (Firmino, 77. mín.), Origi (Sturridge, 84. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Ward, Toure, Smith, Ibe.

Mark Liverpool:  Divock Origi (36. mín.).

Gul spjöld:  Can og Lallana.

Áhorfendur á Signal Iduna Park:
 65.848.

Maður leiksins:  Mamadou Sakho sýndi sitt rétta andlit í þessum leik eftir frekar slaka frammistöðu gegn Tottenham um síðustu helgi.  Hann var öflugur í sínum aðgerðum í vörninni og stóð sína plikt með sóma gegn liði sem hefur á að skipa frábærum leikmönnum sem hafa skorað fjölda marka það sem af er tímabilinu.

Jurgen Klopp:  ,,Ég er ánægður með marga hluti í leiknum.  Skipulag okkar var gott og við vorum hugrakkir í aðgerðum okkar.  Skömmu eftir markið vorum við frábærir, þá sýndum við virkilega hvers við erum megnugir.  En svo er það auðvitað þannig að gegn liði eins og Dortmund þá er ekki hægt að verjast hverri einni og einustu sendingu þar sem þeir búa yfir miklum gæðum í sínu liði.  En þegar upp er staðið fannst mér við eiga jafnteflið skilið."

Fróðleikur:

- Divock Origi skoraði sitt sjötta mark á leiktíðinni.

- Belginn hefur skorað fimm af þessum sex mörkum sínum á útivelli.

- Hann skoraði sitt fyrsta mark í Evrópudeildinni fyrir félagið en síðast skoraði hann í þessari keppni sem leikmaður Lille og þá í leik gegn Wolfsburg.

- Origi er níundi leikmaður félagsins sem skorar í Evrópudeildinni á tímabilinu en aðeins Lazio og Napoli eru með fleiri (10) markaskorara í keppninni til þessa.

- Í fimm skipti af síðustu sex hafa Dortmund ekki komist áfram í Evrópukeppni eftir að hafa gert jafntefli í fyrri leik á heimavelli.

- Liverpool hafa komist áfram í 11 skipti af síðustu 12 þegar þeir hafa gert jafntefli á útivelli í fyrri leik í Evrópukeppni.

- Simon Mignolet hefur nú spilað 140 leiki fyrir félagið í öllum keppnum.

Hér má sjá myndir frá leiknum.TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan